Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_kvennafridagurinn_2016_bordamyndir-2.jpg

Almennar fréttir - 17.10.2018

Breytum ekki konum – breytum samfélaginu!

Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14.55 miðvikudaginn 24. október næstkomandi og fylkja liði á samstöðu- og kröfufund á Arnarhóli sem hefst kl. 15:30 undir kjörorðunum Breytum ekki konum – breytum samfélaginu!

Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9-17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár.

Saga Kvennafrídagsins – Baráttudagur íslenskra kvenna

Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um allt land niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Launamisrétti, vanmat á störfum kvenna, skortur á virðingu og valdaleysi var konum efst í huga. Þær söfnuðust saman og sýndu svo eftir var tekið um allan heim að samstaðan er sterkasta vopnið. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag.

Konur héldu upp á kvennafrídaginn árið 1985 með því að opna Kvennasmiðju dagana 24. – 31. október til að vekja athygli á vinnuframlagi og launakjörum kvenna. Árið 2005 sýndu konur samstöðu og lögðu tugþúsundir niður störf kl. 14:08 og fylltu miðborgina. Árið 2010 gengu konur út kl. 14:25 mánudaginn 25. október undir kjörorðunum „Já, ég þori, get og vil“.

Konur á Íslandi hafa sannarlega sýnt að samstaðan er sterkasta vopnið!

Fylgstu með á kvennafri.is og facebook.com/kvennafri

#kvennafri #göngumút