Almennar fréttir - 13.12.2021
„Konur fóru út á vinnumarkaðinn en byrðin fór ekki neitt“
Hulda Jónsdóttir Tölgyes er sálfræðingur og starfar hjá EMDR stofunni. Hún er eftirsóttur fyrirlesari og námskeiðshaldari og heldur úti vinsælum Instragramreikningi undir nafni sínu, Hulda.Tölgyes, þar sem hún hvetur fylgjendur til að sýna sér aukið sjálfsmildi. VR leitaði til Huldu við gerð herferðar félagsins um þriðju vaktina og eiga Hulda og maður hennar, Þorsteinn V. Einarsson, kennari og kynjafræðingur, heiðurinn af greinargóðum kynningartexta sem má finna á vr.is í tengslum við þriðju vaktina. Fjóla Helgadóttir, ritstjóri VR blaðsins, settist niður með Huldu og ræddi við hana um þá hugrænu byrði sem fylgir þriðju vaktinni sem virðist lenda mun oftar á konum.
Hvenær fórst þú að velta þriðju vaktinni fyrir þér?
Þegar ég lít til baka var ég farin að pirra mig á þriðju vaktinni þegar ég var í sambúð 23 ára. En ég vissi bara ekki að þetta væri yfir höfuð til. Ég man eftir að þáverandi kærasti spurði mig „af hverju eru vinnubuxurnar mínar ekki hreinar?“ og ég hugsaði „það er eitthvað rangt við þetta“. Þetta var einhver óþægileg tilfinning og ég skildi ekki almennilega af hverju ég ætti að gera þetta. En ég hugsaði líka „af hverju mundi ég ekki bara eftir að þvo þær?“ Ég fer strax í einhverja svona flækju. Og þetta er tilfinning sem ég hef fundið í samböndum eftir þetta. Af hverju er ég að taka þessa hluti á mig? Og mér gramdist það að geta aldrei fest fingur á hvað þetta var. En svo náttúrulega margfaldaðist þetta þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn, þá virkilega fann ég fyrir því hvað hugræna byrðin olli mér mikilli streitu.
Hvernig sérðu þriðju vaktina birtast hjá þínum skjólstæðingum?
Í starfi mínu sem sálfræðingur sé ég mjög skýr mynstur og sérstaklega hjá konum í gagnkynja samböndum þar sem konur eru oft ótrúlega þreyttar og tættar en þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á einhleypt fólk líka og svo ég tali nú ekki um einstæða foreldra. Konur lýsa gjarnan fyrir mér að þær hafi flest á herðum sér og haldi utan um allt sem tengist heimili og börnum eða umönnun annarra ástvina. Og þær spyrja mig í einlægni hvernig þær eigi að geta gert þetta allt. Hvernig þær eigi að sinna börnum, heimili og vinnu. Af því það meikar ekki sens! Það meikar ekki sens að vinna fulla vinnu utan heimilis og innan heimilis og halda utan um allt sem tengist því. Ég fæ oft konur til mín sem eru daprar, kvíðnar og með mikil streitueinkenni. Ég hef séð þetta sama mynstur í gegnum árin og ég fór að hugsa að kannski er bara alls ekkert að þessum konum. Það er eitthvað að í samfélaginu, í aðstæðunum og í kröfunum sem við setjum á konur og mæður. Þær fara að efast um sjálfar sig og eru að spyrja mig „hvað er að mér? Er ég með svona lítið streituþol?“ Og ég get alveg sagt það að konur eru ekki með minna streituþol en karlar en ég held að þær séu oft með fleiri streituvalda og streituvaldandi þætti í sínu lífi og það er það sem hefur áhrif á okkur.
Við erum svo snögg að detta í þessa hugsun að það hljóti eitthvað að vera að okkur sjálfum. Við hljótum að eiga að þola meira, við eigum að vera betri mæður eða okkur finnst við eiga að vera klárari í uppeldinu og meira með hlutina á hreinu. Þetta leiðir til niðurrifs sem aftur getur leitt af sér lágt sjálfsmat og depurð. Þetta er mynstur sem mér sýnist vera algengt og ég sé oft í mínu starfi.
Hvernig ráðleggur þú konum að opna á þetta samtal við maka sinn?
Þegar ég spyr konur hvort þær hafi prófað að tala um hugrænu byrðina við mennina sína þá annað hvort hafa þær rætt þetta og úr varð rifrildi eða að þær eru löngu hættar að reyna. Ég hef heyrt konur lýsa því, og ég hef upplifað það sjálf, að þær eru búnar að reyna að brydda upp á þessum samræðum með því að vera „næs“, þær eru búnar að reyna að vera pirraðar, þær eru búnar að reyna að fara í verkfall, til dæmis eins og hætta að þvo þvott og athuga hvað gerist eða hætta að pæla í sundfötum barnanna og þá eru bara engin sundföt sem fara með barninu. Þær eru búnar að reyna alls konar leiðir!
Þetta er auðvitað ótrúlega viðkvæmt málefni því það sem gerist svo oft er að makinn, sem er oftast í þessu mynstri karlmaður, fer í mikla vörn og þetta er eðlilega mjög óþægilegt fyrir aðilann sem gerir ekki jafnmikið eða tekur ekki á sig jafnmikla ábyrgð. Karlar upplifa oft að makinn sé með þessu samtali að segja að þeir séu ekki nógu góðir pabbar og makar, þeir séu bara ömurlegir og séu bara ekkert að standa sig. Og það er svo eðlilegt að grípa til varna þegar okkur finnst vera ráðist á okkur og okkar persónu. Þeim finnst líka oft að þeir séu með gildin á hreinu og að verkaskipting heimilisins sé jöfn. Og það er stundum þeirra upplifun. Þetta á sérstaklega við um þá karla sem taka fullan þátt í annarri vaktinni, sem eru heimilisstörfin og umönnun barna. Þetta er flókið og sárt og auðvitað á að sýna þeim skilning án þess að við förum að vorkenna þeim fyrir að þurfa að taka sjálfsagðan þátt í öllu sem tengist heimilishaldinu.
Karlar eru líka aldir upp sem karlmenn í samfélagi þar sem sagan sýnir okkur að konurnar voru heima og það var normið. Konurnar áttu að taka byrði heimilisins að sér og börnin. Svo fóru konur út á vinnumarkaðinn en byrðin fór ekki neitt. Konur héldu bara áfram að sinna heimili og börnum og allri skipulagningu í kringum heimilishaldið. Vandamálið er að þetta er svo rótgróið í samfélagsgerðinni og við verðum svo lituð af þessu og ég held að konur álíti jafnvel sem svo að þær eigi að taka meira en karlinn, það er eins og það verði jafnvel hluti af sjálfsmynd okkar. Ég er 35 ára og ég ólst upp við það að mamma vann heima í 10 ár. Ég er vön því að mömmur brjóti saman þvottinn, mömmur skipti um á rúminu og svo verð ég sjálf mamma og geng greiðlega inn í þetta hlutverk en maðurinn minn gengur ekkert inn í þetta hlutverk svona sjálfkrafa eins og ég. Svo það þarf ekki að líta mjög langt aftur til að sjá hversu stutt við erum í raun komin.
Það tekur okkur þá kannski einhverjar kynslóðir að jafna álagið á þriðju vaktinni?
Ég myndi ekki endilega vilja tengja breytingarnar við kynslóðir þótt það sé stutt í kynslóðina þar sem kynhlutverkin voru mjög skýr. Breytingarnar verða að byrja strax, nema við viljum hunsa áhrifin sem ójöfn byrði hefur á konur. Það er of dýrkeypt að leyfa þessu að ganga í fleiri áratugi til viðbótar. Þegar fólk spyr hvernig hægt sé að jafna ábyrðina tel ég fyrsta skrefið vera að tala um þetta, auka meðvitundina og skilninginn og fá fólk til þess að opna augun fyrir því hversu þung byrði þriðja vaktin er og líka hversu ósýnileg þessi verkefni eru. Rannsóknir hafa einblínt mikið á gagnkynhneigð pör og þriðju vaktina og því er kannski aðgengilegast að skoða þetta í gegnum það. Rannsóknir sýna að þetta er ekki jafn mikill vandi hjá samkynja pörum en getur vissulega verið það, það er að segja að annar aðilinn tekur byrðina á sig. Þunginn lendir alltaf einhvers staðar, það er oftast annar aðilinn sem tekur fallið af hinum. Þannig að við verðum einmitt að passa okkur að taka tillit til allra hópa og halda öllum inn í þessari umræðu því þetta hefur áhrif á fólk í alls konar stöðum og alls konar samböndum.
Þetta á ekki eingöngu við um barnafjölskyldur, fólk á líka fullorðna foreldra eða veika ættingja sem þurfa aðstoð?J
á, það er vissulega hugræn byrði og rannsóknir sýna að það lendir allra helst á konum og í allra mesta móti hér á Íslandi af öllum Norðurlöndunum. Þetta er hluti af því sem er kallað umönnunarhagkerfið og felur í sér ólaunaða vinnu og verkefni sem þola enga bið. Það er heldur ekki eins og man skutli fólki bara beint á dvalarheimili. Það þarf fyrir það fyrsta að vera reiðubúið til þess að fara á dvalarheimili og svo er ekkert hlaupið að því að fá pláss, það eru langir biðlistar og margra ára bið. Þessi umönnun lendir þá auðvitað á einhverjum og langalgengast er að það lendi á konum þótt auðvitað geti það lent á öllum kynjum.
Nú er maðurinn þinn kynjafræðingur og heldur úti vinsælum miðli „Karlmennskan“. Það mætti ímynda sér að þið væruð með þetta allt á hreinu?
Mér finnst svo dásamlegt að fólk haldi það! Og kannski virðumst við út á við vera svo mikið með þetta og við höfum vissulega átt okkar skeið til að komast þangað sem við erum núna. Sem er vel að merkja ekkert fullkomin staða. Ég hugsa þetta stundum eins og borð í tölvuleik. Við erum komin í næsta borð fyrir ofan það sem við vorum í áður og þetta verður alltaf betra og betra. En í sannleika sagt átti Þorsteinn alveg erfitt með að skilja mig um tíma og við erum ekki komin á endanlegan stað varðandi þetta. Og það sem þurfti til hjá okkur var fagleg aðstoð. Við höfum talað um þetta mjög opinskátt og meira að segja opinberlega í þeim tilgangi að fræða og aðstoða pör við að taka umræðuna. Þorsteinn fór í kynjafræðina og kynnti sér kynjahlutverkin og fór að setja á sig þessi gleraugu. Hann átti mjög erfitt til að byrja með þegar ég fór að biðja um „hjálp“ inni á heimilinu. Hann þurfti að stoppa sig af í hugsunum um að ég væri að gagnrýna hann eða segja að hann væri alveg glataður. Ég var í raun bara að ýta við honum og biðja hann að taka slaginn með mér í heimilislífinu og öllu sem því fylgir. Karlar fá miklu minni þjálfun í að tala um tilfinningar sínar og þekkja þær. Og þegar hann fór að skilja þessar tilfinningar hjá sér opnaðist pláss hjá honum til að meðtaka hvað ég væri að segja án þess að varnir hans hindruðu það. Þorsteinn var því ekki frábrugðinn öðrum körlum sem alast upp í okkar samfélagi sem ætlar körlum ákveðin hlutverk og konum önnur og við eigum svo oft til að gleyma okkur og detta í gömlu hjólförin og fara í það sem er kunnuglegt.
Og eins og ég segi, við erum ekki komin á fullkomin stað eins og kannski mætti halda. Nýlegt dæmi er þegar dóttir okkar var lasin og við vorum að skiptast á að fara í vinnuna og hugsa um heimilið. Það sem gerðist var að það varð meira álag á heimilinu og ég var farin að sinna þvotti og uppþvottavél á kvöldin. Þá var ég farin að gefa í til að halda boltunum á lofti en hann fór í gömlu hjólförin og gleymdi sér. Og auðvitað skil ég hann vel, það er mjög freistandi að láta sig falla aðeins í sófann með símann þegar það kemur stund milli stríða og mér finnst að einhverju leyti bara flott hjá honum að taka sér smá pásu. Að vera heima með veikt barn er oft mjög krefjandi. En þá spyr ég líka, hvenær kemur pásan mín? Ég var kannski heima fyrir hádegi með barnið og fór svo í vinnu eftir hádegið og kem svo heim og það á eftir að gera allt. Mætt á aðra og þriðju vakt. Hann tekur sér hvíldina sem við þyrftum bæði á að halda en ég fæ ekki hvíld OG ég fæ líka byrðina. En það dugar mér núna að minnast á þetta við hann því auðvitað vill hann ekki vera fastur í gömlu hjólförunum.
Ég held því miður að þetta sé margra ára ferli fyrir pör og samfélagið og þótt það sé ósk mín held ég að það sé óraunhæft að þetta breytist á skömmum tíma. En ég held að fyrsta skrefið sé að við verðum að geta talað um þetta sem samfélag án þess að allt verði brjálað og fólk taki þessu sem persónuárásum. Við erum að ræða þetta hér út frá rannsóknum sem hafa verið gerðar í áratugi um allan heim. Það er enginn að segja að konur séu betri en karlar eða að karlar séu eitthvað glataðir. Þetta er samfélagslegur vandi.
Hvað segir þú við því að konur verði bara að slaka meira á og vera tilbúnari til að láta ábyrgðina dreifast á fleiri hendur?
Ég held að það sé svolítið hættulegt að taka þennan vinkil því við erum í rauninni að setja ábyrgðina enn frekar á konur með þessu. Þá bætist það bara við verkefnalistann hjá konunum. Það eru þá konurnar sem þurfa að laga þetta og ábyrgðin fer af hinum. Það er ekkert hægt að segja bara „hey, slakaðu bara aðeins á og hættu að vera svona stressuð yfir öllu.“ Við getum tekið dæmi eins og með skipulagningu og kaup á jólagjöfum. Það kannast flestar konur við það að vilja vera tímanlega að skipuleggja hver fær hvað og kaupa það snemma. Ætli það sé ekki vegna þess að þær vita að ef þetta er ekki gert í tíma endar fjölskyldan í stressi með pirruð og svöng börn í Kringlunni á Þorláksmessu? Annað dæmi er að pakka niður fyrir fjölskylduferð. Konur vita að ef ekki er pakkað tímanlega gæti endað með því að eitthvað gleymdist. Það mun á endanum verða hugræn byrði og vesen.
Ég held að í staðinn fyrir að segja konum að slaka bara meira á ættum við frekar að einblína á að hlusta á þennan reynsluheim kvenna og taka mark á honum. Konur eru ekki bara að tuða til að leika sér að því að tuða! Fyrir mér hljóma þessi rök því svolítið eins og konur eigi bara að vera duglegri við að „leyfa“ mönnunum sínum að „aðstoða“ sig. Þeir þurfa líka bara að spyrja sig hvað það er sem þarf að gera og hvernig væri best að gera það. Og eiga svo frumkvæðið að því sjálfir. Þetta er heljarinnar vinna og það þarf virkilega að gefa af sér og orkunni og það er ekkert eins og það sé eitthvað erfiðara fyrir karla en konur. Það þarf bara að setja sig inn í hlutina og fórna sér. Þetta er hluti af sjálfsmynd kvenna og það hafa rannsóknir sýnt, að það er ætlast til þess af konum að þær fórni sér og þær ætlast líka til þess af sér sjálfar. Kannski þess vegna þolum við lengur við en hollt er verandi ósáttar við ójafna skiptingu ábyrgðar heimavið. Ég held við ættum frekar að hlusta á konur og taka slaginn með þeim og stíga inn í. Þetta er stórt og útbreitt samfélagslegt vandamál sem karlar þurfa að láta sig varða því ábyrgðin er að miklu leyti þeirra.
- Viðtalið við Huldu birtist fyrst í 4. tbl. VR blaðsins 2021.
Smelltu hér til að lesa blaðið.