Almennar fréttir - 25.01.2018
Kaupmáttarreiknivél VR fyrir heimilin kynnt
Undanfarna mánuði hefur mikið verið fjallað um kaupmáttaraukningu á Íslandi síðustu ár sem eigi sér vart hliðstæðu. Þessi umfjöllun byggir á kaupmáttarvísitölu Hagstofunnar sem sýnir meðaltalsbreytingu á kaupmætti launafólks á íslenskum vinnumarkaði. VR hefur nú birt kaupmáttarreiknivél sem sýnir þróun kaupmáttar heimila að teknu tilliti til fjölskyldugerðar og húsnæðis. Þetta er í fyrsta skipti sem fjölskyldur geta skoðað eigin kaupmáttarþróun og borið saman við vísitölu Hagstofunnar.
Samkvæmt kaupmáttarvísitölu Hagstofunnar jókst kaupmáttur launa milli áranna 2016 og 2017 um 5%. Hver launamaður ætti þannig að geta keypt 5% meira að meðaltali af vörum fyrir launin. Þessi niðurstaða sýnir hins vegar meðaltal og ljóst að fjölmargir finna sig ekki í þessum tölum. Einhverjir kunna að hafa notið mun meiri kaupmáttar en sem kemur fram í kaupmáttarvísitölu Hagstofunnar og aðrir mun minni.
Tækifæri til að skoða eigin stöðu
Markmið VR með því að birta kaupmáttarreiknivél er fyrst og fremst að gefa launafólki tækifæri til að skoða eigin kaupmáttarþróun yfir valið tímabil og bera saman við það sem opinberar tölur Hagstofunnar segja.
Kaupmáttarreiknivél VR tekur tillit til fjölskyldugerðar en hjúskaparstaða og fjöldi barna skipta máli þegar þróun kaupmáttar heimilanna er skoðuð. Þá tekur reiknivél VR einnig tillit til þess hvort viðkomandi sé á leigumarkaði eða búi í eigin húsnæði sem skiptir hvað mestu máli fyrir kaupmáttarþróun einstaklinga og fjölskyldna. Kaupmáttarreiknivél VR tekur þannig tillit til stöðu hverrar fjölskyldu fyrir sig og reiknar út kaupmátt hennar yfir valið tímabil en Hagstofan birtir meðaltal kaupmáttar launa á vinnumarkaði.
Hvernig er reiknivélin uppbyggð?
Í kaupmáttarreiknivél VR er byggt á reiknivél velferðarráðuneytisins fyrir neysluviðmið fjölskyldna. Í reiknivél VR er að auki tekið tillit til húsnæðisbóta í tilfelli leigjenda. Leigjendur skrá upphæð leigu á mánuði í reiknivélina og þeir sem búa í eigin húsnæði skrá mánaðarlega greiðslu húsnæðisláns. Ekki er tekið tillit til vaxtabóta eða rekstrarkostnaðar húsnæðis en hver og einn getur hins vegar tekið slíkt með í útreikningi á sínum húsnæðiskostnaði og fengið þannig nákvæmari niðurstöðu en ella.
Kaupmáttarreiknivél VR sýnir þannig breytingu á kaupmætti heimila að teknu tilliti til aðstæðna, eins og hægt er.