Vr Utsynismyndir 9

Almennar fréttir - 29.11.2024

Hagfræðistofnun fer í pólitík

Það fór ekkert sérlega mikið fyrir nýjustu skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem birtist á vef Stjórnarráðsins þann 7. nóvember sl. Skýrslan er ágætis yfirferð yfir stöðu efnahagsmála og fangar um margt bæði styrkleika efnahagslífsins og hina yfirþyrmandi veikleika sem hafa á undanförnum misserum lagt þungar byrðar á almenning. Til að mynda er jákvætt að í skýrslunni sé viðurkenndur sá vandi sem óhjákvæmilega fylgir því að gera lífsnauðsynjar á borð við húsnæði að fjárfestingavöru. Áhrif þess á bæði verðbólgu og líf fólks eru tilfinnanleg og þau eru vond.

SALEK knýr dyra
Þótt deila mætti um ýmsa kenningarramma hagfræðinnar sem eru undirliggjandi í skýrslunni, þá eru umfjöllunin og tillögurnar ágætlega rökstuddar, eins og háskólastofnun sæmir. Á þessu er þó ein sláandi undantekning og hún lýtur að umfjöllun um vinnumarkaðsmál þar sem skýrsluhöfundar dusta rykið af átta ára gömlum tillögum sem unnar voru fyrir SALEK-hópinn sáluga. Án verulegs rökstuðnings er í skýrslunni lagt til að auka valdheimildir ríkissáttasemjara og taka upp sameiginlegt samningsmarkmið í kjarasamningum sem ráðist af „aðstæðum í samkeppnisgreinum“. Því er haldið fram að skortur á viðmiðum í kjarasamningum geri samningaferlið erfiðara og ýti undir verðbólgu, sem aftur kalli á hátt vaxtastig. Ekki kemur fram neinn rökstuðningur fyrir þessu meinta orsakasambandi og enn síður er gerð tilraun til að skýra hvaða vanda þessar tillögur eiga að leysa.

Eflaust væri þægilegra fyrir atvinnurekendur að hafa einn samningsaðila og geta sest að samningaborðinu með nokkurn veginn fyrirframgefna niðurstöðu sem launafólk hefur litla stjórn á. Í sveiflukenndu efnahagslífi, þar sem réttur hinna fáu til að græða er alltaf tekinn fram yfir rétt okkar hinna til efnahagslegs stöðugleika og til þess að eiga þak yfir höfuð, væri hins vegar algjört glapræði af stéttarfélögum að gefa eftir samningsrétt sinn. Launahækkanir hafa í grunninn haldist í hendur við aukna verðmætasköpun frá aldamótum. Vel má ímynda sér að í niðurnjörvuðu samningaumhverfi þar sem samningaréttur launafólks er veikur hefði svo ekki verið, heldur að launafólk hefði þurft að taka á sig kjaraskerðingar samhliða auknum gróða hinna ríku, líkt og fjölmörg dæmi eru um í öðrum löndum.

Misheppnuð stjórnkænska
Vísanir í norrænt vinnumarkaðslíkan í þessu sambandi eru takmarkandi, enda er ekki hægt að velja út stök atriði, en láta öll hin mæta afgangi. Má þar til dæmis nefna sterkara velferðarkerfi fyrir vinnandi fólk í honum Norðurlöndunum. Í sumum löndum er einnig fyrir hendi réttur til pólitískra verkfalla og í þorra OECD-landa er atvinnurekendum þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að verkbönnum og þau jafnvel bönnuð. Það eru því ansi mörg atriði sem þarf að hafa undir ef ráðast á í endurskoðun á íslenskri vinnumarkaðslöggjöf í alþjóðlegum samanburði. Ræða þyrfti kost og löst á „hinu norræna módeli“ í stað þess að gefa sér þá niðurstöðu að þar sé allt slétt og fellt. Röksemdir þurfa allar að liggja fyrir.

Sú tillaga að styrkja valdheimildir ríkissáttasemjara er jafnframt illa rökstudd. Sækja skýrsluhöfundar helst í deilu SA og Eflingar veturinn 2022–2023 þar sem þáverandi ríkissáttasemjari lagði fram miðlunartillögu í óþökk deiluaðila, áður en verkfall var skollið á. Þar veðjaði hann á að erfitt gæti reynst að ná nægilegri kjörsókn svo fella mætti tillöguna. Þetta var misheppnuð tilraun til stjórnkænsku, sem um leið gekk gegn rétti félagsfólks Eflingar til að semja um sín eigin kjör. Að láta eitt slíkt atvik í vinnumarkaðssögunni hafa úrslitaáhrif á framtíðarskipulag vinnumarkaðar væri bæði skammsýnt og hættulegt fordæmi.

Samningar betri en valdboð
Með tillögum sínum um vinnumarkaðsmál gengur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út úr sínu akademíska hlutverki og tekur að sér pólitískt hlutverk. Hún gerist þátttakandi í bergmálskór fjármagnsaflanna í þjóðfélaginu sem vilja draga upp mynd af vinnumarkaði þar sem allt í er í óstjórn og sjálfur ríkissáttasemjari valdalaus. Þetta er hins vegar röng mynd. Íslenskur vinnumarkaður er ágætlega skipulagður, verkfallsdagar á almennum vinnumarkaði eru fáir og alla jafna hafa aðilar náð samningum.

Kjarasamningar á almennum markaði snúast nefnilega um að atvinnurekendur og vinnandi fólk nái samningum, en alls ekki um að ríkisstofnun geti beitt aðila valdboði. Valdboð er í raun andstætt samningaferlinu og það eru samningar sem skila góðum árangri og hafa átt ríkan þátt í að byggja upp þau lífsgæði sem við þó búum við og eru ágætlega rakin í skýrslu Hagfræðistofnunar. Atvinnurekendur kunna að líta svo á að auknar valdheimildir ríkissáttasemjara myndu virka þeim í hag. En það er rétt að minna á að fyrir því er engin trygging. Að færa einum erindreka ríkisins vald á kostnað samningsaðila getur dregið dilk á eftir sér.

Hagfræðistofnun er að sjálfsögðu velkomin inn í þessa umræðu, en krafan hlýtur þá að vera sú að það geri hún undir akademískum formerkjum í stað þess að reka pólitískt erindi atvinnurekenda í deilum þeirra við verkalýðshreyfinguna.

Halla Gunnarsdóttir,
varaformaður VR og starfandi formaður

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu