Almennar fréttir - 18.05.2022
Hægjum á í auknum hraða fyrir meiri sköpunargleði
Framtíðarfræðingurinn Peter Diamandis talar um að við munum sjá meiri breytingar á næsta áratug heldur en við höfum séð síðastliðin hundrað ár. Við upplifum nú fjórðu iðnbyltinguna og Klaus Schwab, prófessor og stjórnarformaður Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum), talar um að ólíkt fyrri iðnbyltingum muni núverandi bylting ganga mun hraðar yfir, sem er í takt við sýn Diamandis.
Núverandi bylting byggir á tæknibreytingum sem geta leitt til mikilla breytinga á fyrirtækjum, hagkerfum og þjóðfélögum og í takt við allar þessar breytingar þarf mannkynið að þróast.
Sagnfræðingar, heimspekingar og sálfræðingar sem hafa rannsakað sögu mannkynsins eru að mestu sammála um að þróun þess sé ekki línuleg heldur tökum við skyndileg stökk í þróun. Það er talað um að hvert stökk feli í sér miklar breytingar af ýmsum toga og þar á meðal breytingar í færni okkar.
Færniþættir framtíðarinnar
Alþjóðaefnahagsráð hefur sett saman lista af tíu færniþáttum sem talið er að við þurfum að búa yfir eftir 3 ár. Fimm færniþættir af þessum tíu þáttum falla undir flokk sem snýst um lausnaleit og í þeim flokki eru:
- Greiningarhugsun og nýsköpun
- Úrlausn flókinna vandamála
- Gagnrýnin hugsun og greining
- Sköpunargleði, frumleiki og frumkvæði
- Rökhugsun, lausnamiðuð hugsun og hæfni til að vinna úr flóknum hugmyndum
Það sem þessi atriði eiga sameiginlegt er að þau snúast um hugsanamynstur sem leiðir af sér lausnir. Sköpunargleði hefur verið skilgreind sem hugsanamynstur sem leiðir af sér nýjar og nytsamlegar hugmyndir og þetta hugsanamynstur hefur verið rannsakað áratugum saman. Það frábæra er að rannsóknir gefa til kynna að við getum þjálfað okkur í þessu hugsanamynstri og því meira sem við sköpum því meira skapandi verðum við.
Það fólk sem skarar fram úr á sínu sviði, hvort sem það er í tennis, pípulögnum, fiðluleik, viðskiptum, rannsóknum eða á öðrum sviðum, hefur æft sig mikið á sínu sviði þannig að nýjar heilatengingar hafa myndast. Þessar heilatengingar gera það að verkum að það er auðveldara fyrir heilann að sinna því sem þau hafa sérhæft sig í heldur en fyrir óreynda aðila þar sem heilabrautirnar hafa ekki myndast. Við getum gert það sama með sköpunargleðina, æft okkur, myndað nýjar heilatengingar og gert sköpunina auðveldari.
Þjálfum sköpunargleðina
Sköpunargleðiþjálfarinn dr. Roger L. Firestein talar um að við þurfum að æfa okkur í sköpunargleði til þess að geta leyst vandamál framtíðarinnar líkt og slökkviliðsfólk þarf að æfa sig í því að slökkva elda. Slökkviliðið er þjálfað í því að sinna sínu starfi áður en þau fara á vettvang og við þurfum að gera það sama með sköpunargleðina.
Ýmis fyrirtæki hafa markvisst þjálfað starfsfólk sitt í sköpunargleði og þau fyrirtæki sem hafa fjárfest í sköpunargleðiþjálfun hafa til dæmis séð aukna nýsköpun, framleiðni og meiri ánægju viðskiptavina. Eins eru mörg dæmi um fyrirtæki sem hafa hagnast mikið og sparað háar upphæðir vegna sköpunargleðinnar.
Við upplifum núna mjög miklar breytingar og ótal mörg tækifæri myndast. Við þurfum þetta hugsanamynstur sem leiðir af sér nýjar og nytsamlegar lausnir til þess að taka virkan þátt í fjórðu iðnbyltingunni og tíminn til þess að þjálfa sköpunargleðina er núna.
Hvernig þjálfum við sköpunargleðina?
Í ljósi ýmissa rannsókna má sjá tvo yfirflokka sem hafa áhrif á sköpunargleðina. Annar þeirra snýst um að heilinn upplifi öryggi til þess að skapa og hinn snýst um að stýra hugsanamynstrinu á nýjar slóðir og þjálfa það.
Öryggið
Þegar boxarar þurfa að bakka þá gera þau andstæðuna við það sem er okkur eðlislægt, aftari fóturinn er færður fyrst til þess að ýta undir meira jafnvægi. Þetta er sambærilegt með sköpunargleðina, við ættum að gera andstæðuna við það sem er okkur eðlislegt. Fjórða iðnbyltingin er að gerast á mjög miklum hraða og það er okkur eðlislægt að fara þá að hlaupa hraðar en rannsóknir benda á að það geti frekar gagnast okkur að gera andstæðuna, fara hægar.
Fjöldi rannsókna bendir á að slökun, hugleiðsla, jóga, göngutúrar í náttúrunni, leikir, þakklæti og fleira í þeim dúr geti ýtt undir sköpunargleðina okkar. Markmið heilans er að halda okkur á lífi og þegar heilinn upplifir að við séum í hættu (til dæmis ef við upplifum of mikið álag) þá er markmið heilans að gefa okkur eingöngu aðgang að þeim upplýsingum sem hann telur að gagnist okkur. Gagnasafn heilans, sem byggir á þekkingu okkar og reynslu, er því takmarkaðra en þegar við upplifum öryggi, og það er einmitt þetta gagnasafn sem við notum til þess að tengja saman ólíka þætti og skapa eitthvað nýtt.
Rannsóknir benda því miður á að sköpunargleði fólks sé að minnka og rannsakendur telja ástæðuna vera aukinn hraða í samfélögum.
Fyrsta skrefið sem við getum tekið er því að skapa lausnir til þess að hægja á og koma meiri slökun inn í líf okkar. Hvernig getum við þá fundið meiri tíma fyrir slökunina fyrst að hún er svona mikilvæg? Rannsóknir benda á að þekkingarstarfsfólk nýti um 85% af starfstíma sínum í fundi þrátt fyrir að 71% yfirmanna telji fundi vera kostnaðarsama og óskilvirka og að þrír fundarlausir dagar í viku geti aukið skilvirkni, sjálfræði og samvinnu og dregið úr streitu og örstjórnun. Ein lausn gæti því verið að fækka fundum og búa þannig til rými fyrir aukna slökun. Slökun er einn þáttur til þess að efla öryggistilfinningu heilans og annar þáttur sem virðist spila stórt hlutverk er næsti yfirmaður fólks.
Ýmsar rannsóknir benda á hvað okkar næsti yfirmaður getur haft mikil áhrif á hvort að við nýtum og eflum sköpunargleðina okkar í starfi og þar spilar traust lykilhlutverk. Fjöldi rannsókna benda á hvernig yfirmenn geta ýtt undir og stutt starfsfólk sitt til þess að skapa og rannsókn dr. Amabile og dr. Kramer bendir á að þegar yfirmenn styðja fólk sitt til þess að ná litlum sigrum í starfi geti það aukið sköpunargleðina þeirra. Þau mæla því með því að yfirmenn stýri ekki fyrirtækjum eða fólki heldur litlum sigrum. Þetta er í takt við aðrar rannsóknir sem benda á að hugmyndafræðin „Þjónandi forysta“ geti stutt við sköpunargleðina, þar sem leiðtoginn einbeitir sér að því að styðja við og efla starfsfólk sitt til þess að þau nái árangri.
Hugsanamynstur
Heilinn okkar hefur það að markmiði að halda okkur á lífi og til þess að tryggja að við séum öruggari passar hann upp á að við eigum inni orku til að takast á við hættu sem gæti óvænt komið upp. Það að setja hugsanamynstrið á nýjar slóðir krefst meiri orku af heilanum heldur en að halda sig við það sem er kunnuglegt og þess vegna koma oft upp hugmyndir að kunnuglegum lausnum þegar við byrjum að skapa.
Við getum þjálfað heilann í því að koma með meira skapandi lausnir og eftir því sem við þjálfum okkur meira því auðveldara verður það fyrir heilann að skapa. Það er líklegra að við sjáum skapandi lausnir hratt og örugglega þegar nýjar heilatengingar hafa myndast og það kostar þá heilann minni orku að skapa. Fyrsta skrefið er að ákveða að þjálfa þessa sköpunargleði og svo að velja sér æfingar.
Það eru til ótal margar sköpunargleðiæfingar sem við getum nýtt okkur. Dæmi um æfingar eru að velja sér hlut í umhverfinu og koma með margar hugmyndir að óhefðbundinni notkun á þeim hluti.
Ef við veljum okkur að skoða skó, hvað væri hægt að nota þá í annað? Það væri hægt að nota þá sem blómapott, fylla þá með steinum og nota sem lóð, þeir eru flottir hurðastopparar, nota þá sem stimpil til að vísa leiðina og svo margt annað. Við getum svo tekið þessa æfingu lengra og valið að blanda þessum hluti við annan hlut.
Hvað er til dæmis hægt að skapa ef við blöndum saman skóm og sól? Blanda af þessu gæti til dæmis verið innrauður hitari í skóm til þess að hafa þá heita og notalega á veturna eða sólarrafhlaða á skóm til þess að hlaða símann. Svona getum við leikið okkur að koma með ýmsar hugmyndir með því að blanda saman ólíkum hlutum.
Eftir þessa upphitun gætum við valið okkur vandamál sem við viljum leysa og tengt það við tilviljanakennt orð til þess að stýra hugsanamynstrinu á nýjar slóðir.
Ýmsar hugmyndir hafa orðið til með svona blöndu og má þar nefna að Nike fyrirtækið rekur upphaf sitt til þess þegar einn af stofnendunum var inni í eldhúsi með konunni sinni að búa til vöfflur. Hann hafði verið að reyna að koma með hugmynd að skósóla sem næði nógu góðu gripi á gervigrasi og þegar hann sér vöfflumynstrið þá fær hann hugmynd um að nýta það í skósóla. BMW blandaði saman tölvuleikjafjarstýringu og gírskiptingu til þess að hjálpa bílstjórum að einbeita sér betur að veginum, blanda af lendingarbúnaði flugvéla og barnakerru varð að samanbrjótanlegum barnakerrum og svona mætti lengi telja.
Hvar er best að byrja?
Það að þjálfa okkur í sköpunargleði er líkt og að þjálfa okkur í ræktinni. Það getur verið gott að velja sér ákveðinn tíma sem við ætlum að mæta í þjálfunina, velja hvað við viljum skapa og hvaða sköpunargleðiæfingu við ætlum að nýta okkur. Búnaðurinn sem mælt er með fyrir svona þjálfun er skriffæri og ákveðin bók þar sem hugmyndum er safnað saman. Gott er að byrja þjálfunina á slökun sem hentar hverjum og einum til þess að opna aðgang okkar að gagnasafni heilans og svo að leyfa hugmyndunum að flæða.
Breytingarnar í núverandi iðnbyltingu eru að gerast hratt og við ættum að gera andstæðuna, hægja á og gefa okkur tíma til þess að þjálfa okkur í þessari mikilvægu framtíðarfærni sem sköpunargleðin er og taka þannig þátt í að skapa tækifæri framtíðarinnar.
Birna Dröfn Birgisdóttir er höfundur greinarinnar sem birtist fyrst í 1. tbl 2022. Smelltu hér til að lesa blaðið.
Birna Dröfn hefur rannsakað hvernig efla má sköpunargleði á meðal starfsfólks í doktorsnámi sínu við Háskólann í Reykjavík og hefur hún þjálfað hundruðir einstaklinga og fyrirtæki í sköpunargleði. Birna Dröfn er viðskiptafræðingur með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Griffith University í Ástralíu. Einnig er hún stjórnendamarkþjálfi, hefur lært NLP (Neuro-linguistic programming) og mannauðsstjórnun og hefur meðal annars starfað við stjórnun og kennslu.