Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ragnar Vr Portret 2019 5

Almennar fréttir - 07.06.2021

Gula plágan

Gul stéttarfélög hafa verið töluvert í umræðunni undanfarið vegna málefna Play og hvernig félagið hefur „samið” um kjör við ákveðnar starfsstéttir. Málið er þó mun stærra og alvarlegra en Play og meintur samningur þess við starfsstéttir sem virðast á engan hátt hafa komið að samningagerðinni sjálfri.

Fyrir síðustu kjarasamninga komu á fjórða þúsund félagsmanna VR að kröfugerð félagsins. Fyrst með víðtækum könnunum um hug og væntingar okkar félagsmanna og síðar á annað hundrað trúnaðarmanna, trúnaðarráðs og stjórnar sem fullmótuðu svo kröfugerðina sem varð grundvöllur síðustu kjarasamninga.

Hvert stefnum við ef þessi þróun heldur áfram?

Hvaða starfsstéttir verða undir næst þegar fleiri gul stéttarfélög verða stofnuð? Gul félög eru hliðholl atvinnurekendum, hafa yfirlýsta stefnu um að fara hvorki í verkföll né átök og eru jafnvel stofnuð með milligöngu fyrirtækja sem í nafni samkeppnishæfni vilja borga lægri laun en gengur og gerist, laun sem duga jafnvel ekki til framfærslu. Gul stéttarfélög er hægt að þekkja. Þau úthýsa sjúkrasjóðum sínum til tryggingafélaga, veita litla sem enga þjónustu við félagsmenn sína þurfi þeir að leita réttar síns, taka hvorki þátt í ræðu né riti þegar kemur að hagsmunagæslu launafólks og starfa ekki sem málsvari vinnandi fólks þegar sótt er að grundvallarréttindum þess.

Gul stéttarfélög eru engin mótstaða við vilja Samtaka atvinnulífsins eða sérhagsmunaafla

Viljum við virkilega „stéttarfélög“ þar sem félagsmenn sjálfir hafa enga aðkomu að kröfugerð eða kjarasamningagerð? Viljum við talsmenn launafólks sem harma það að vera bendlaðir við hagsmunagæslu félagsmanna sinna á opinberum vettvangi? Í þeim löndum þar sem sérhagsmunaöflum og auðstéttinni hefur tekist að brjóta niður stéttarfélög vinnandi fólks þarf ekki að fara mörgum orðum um skaðann sem af því hefur hlotist. Lífskjör hafa verið í frjálsu falli. Niðurbrot verkalýðshreyfingarinnar í Bandaríkjunum er líklega skýrasta dæmið, niðurbrot sem hefur haft skelfilegar afleiðingar. Afleiðingar sem eru tilkomnar vegna mótstöðuleysis sem opinberast í stöðu millistéttarinnar í Bandaríkjunum. Aðgangur að góðri heilbrigðisþjónustu og menntun er forréttindatengdur. Og þessi þróun á sér stað víðar og hefur teygt sig til Norðurlandanna.

Við niðurbrot verkalýðsfélaga eru notaðar margar og þaulskipulagðar aðferðir sem allar snúa að því að sundra samstöðu og samtakamætti heildarinnar. Ein aðferð er að stofna stéttarfélög sem eru hliðholl stefnu og áherslum þeirra hagsmuna sem raunveruleg stéttarfélög eru mótvægi við. Oft lítur þetta sakleysislega út í upphafi en þessi þróun er grafalvarleg því hún mun valda stórkostlegum óbætanlegum skaða fyrir lífskjör okkar og komandi kynslóða. Verði ekkert að gert er þetta upphafið að endalokum verkalýðsbaráttu og lífskjara síðustu ára og áratuga. Ekkert kemur af sjálfu sér eins og flestir vita og flest þau réttindi sem við teljum sjálfsögð í dag voru áunnin með blóði, svita og tárum þeirra er ruddu brautina.

Árið 1955 fór lægst launaða fólkið í Reykjavík og Hafnarfirði í 6 vikna verkfall til að ná samningum um atvinnuleysisbætur. 6 vikna verkfall hjá lægst launaða fólkinu sem á þeim tíma átti varla fyrir mat hvað þá meiru. Þessar fórnir færðu þeim og öllum hinum þau réttindi sem við teljum svo sjálfsögð í dag. Höfum þetta í huga þegar við heyrum fullyrðingar um að ólíkir hópar eigi ekki samleið í verkalýðsbaráttu sem aftur er þekkt aðferðafræði sem notuð er til að sundra samtakamætti heildarinnar.

Löggjafinn þarf að verja samfélagsleg gildi

Sameinuðu þjóðirnar hafa sett siðferðisleg viðmið um fjárfestingar sem alþjóðasamtök lífeyrissjóða og flestir íslenskra lífeyrissjóða hafa tekið upp og eru þær kenndar við ESG. ESG viðmiðin sem og önnur viðmið sem lífeyrissjóðir setja sér í fjárfestingastefnum eru ekki ný af nálinni. Samkvæmt reglunum eiga lífeyrissjóðir t.d. ekki að fjárfesta í fyrirtækjum eða sjóðum sem tengjast spillingu, alþjóðlegri glæpastarfsemi, barnaþrælkun, vopnasölu, vændi, eiturlyfjum, mansali, peningaþvætti, skattsvikum og annari skipulagðri glæpastarfsemi. Í reglum ESG og fleiri reglum sem sjóðirnir settu sér eftir hrun er komið inn á enn fleiri þætti eins og að taka tillit til umhverfisþátta og sjálfbærni, félagslegra undirboða og keðjuábyrgð svo eitthvað sé nefnt. Hvað er þá því til fyrirstöðu að löggjafinn taki af skarið og setji sér sömu viðmið og leikreglur? Ef Ástralir gátu skattlagt Facebook og Google, hvað getum við þá gert?

Málið snýst ekki bara um Play. Hvað með erlend lággjaldafélög eða önnur fyrirtæki sem stunda skipulögð félagsleg undirboð og koma skelfilega fram gagnvart starfsfólki sínu sem oft á ekki til hnífs og skeiðar fyrir vinnuframlag sitt, er útkeyrt og kúgað og ótryggt með öllu? Þetta er gert í nafni þess eins að geta boðið upp á lægri flugfargjöld eða ódýrari vöru og þjónustu en fyrirtæki sem vilja spila eftir heiðarlegum leikreglum geta keppt við. Eigum við að lækka samnefnarann eða hækka þegar við tölum um samkeppnishæfni?

Af hverju getum við ekki takmarkað þjónustu eða lendingarleyfi, eða önnur starfsleyfi í íslenskri lögsögu við sambærileg gildi og alþjóðasamtök verkalýðsfélaga, Sameinuðu þjóðirnar og lífeyrissjóðir hafa sett sér? Samfélagsleg gildi sem löggjafinn getur varið í gegnum skattkerfið og með lagasetningu og reglugerðum. Hversu dýru verði verða ódýru flugmiðarnir raunverulega keyptir? Eða önnur þjónusta? Hvar stöndum við í einu ríkasta landi heims ef samnefnari launa og lífsgæða á Íslandi verður á pari við það þar sem þau eru lökust? Allt í nafni samkeppnishæfni!

Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.