Almennar fréttir - 25.03.2024
Greitt inn í VR varasjóð
VR varasjóður hefur nú verið uppfærður eftir samþykkt á aðalfundi VR þann 21. mars sl. Á Mínum síðum getur þú séð hver staða þín í sjóðnum er. Athugið að endurgreiðsla hvers VR félaga fer eftir réttindainneign hans.
Á aðalfundi VR, sem haldinn var 21 mars sl., var samþykkt að framlag í VR varasjóð verði samtals 1.050 m.kr. fyrir árið 2023. Varasjóðinn má nýta í ýmis æfingagjöld eins og í líkamsrækt, sund og golfklúbba og við kaup á hjálpartækjum tengdum líkamsrækt eins og hlaupaskóm, golfkylfum og fleiru. Þá er hægt að nýta sjóðinn í ýmsa læknistengda þjónustu eins og tannlækni, sálfræðikostnað, laseraðgerðir og fleira.
Greiðslur úr sjóðnum eru almennt staðgreiðsluskyldar og staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun.
Þrjár undantekningar eru á staðgreiðsluskyldum greiðslum:
- Líkamsrækt og endurhæfing sem er sambærileg og önnur íþróttaiðkun að hámarki kr. 77.000 á ári (m.v. árið 2024)
- Greiðsla á gistikostnaði í orlofi að hámarki kr. 72.000 á ári. Þetta á einungis við um greiðslu fyrir gistingu, s.s. orlofshús, hótel eða gistiheimili.
- Starfstengt nám, styrkir úr sjóðnum vegna starfsnáms.
Nánari upplýsingar um varasjóðinn má sjá hér.
Stöðu og umsóknir í VR varasjóð má finna á Mínum síðum.