Almennar fréttir - 17.01.2025
Fyrstu íbúðir VR Blævar afhentar
Fyrstu íbúðir í nýjum fjölbýlishúsum íbúðafélagsins VR Blævar í Úlfarsárdal voru afhentar leigjendum í dag, föstudaginn, 17. janúar 2025. Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, afhenti lykla að fyrstu íbúðinni að Skyggnisbraut til Nadiu Tamimi, einstæðrar móður með tvö börn á unglingsaldri heima. Halla sagði við afhendinguna að verkalýðshreyfingin gæti barist fyrir hærri launum og aðeins fleiri krónum í vasann en það dygði skammt ef húsnæðiskostnaðurinn hækkaði alltaf samhliða. Fjöldi fólks býr við mikið húsnæðisóöryggi, sagði Halla, og þau sem það þekkja vita hversu alvarlegt það er.
Nadia Tamimi sagðist þakklát fyrir nýju íbúðina sem gæfi henni og börnunum nýtt líf. Hún væri að koma af almenna leigumarkaðnum þar sem leigan færi sífellt hækkandi en leiguverðið hefur hækkað um tæpar 200 þúsund krónur á mánuði hjá henni á undanförnum fjórum árum.
Ragnar Þór Ingólfsson, fyrrum formaður VR og alþingismaður, var viðstaddur afhendinguna en hann átti veigamikinn þátt í stofnun Blævar íbúðafélags. Ragnar Þór sagði sannan heiður að hafa fengið að leiða verkefnið. Verið væri að setja upp nýtt kerfi á Íslandi sem gæti bæði byggt og leigt og tryggt breiðari hóp aðgengi að öruggu og hagkvæmu húsnæði.
Markmið Blævar
VR Blær fékk lóð í Úlfarsárdal árið 2021 og samdi við Íslenska aðalverktaka um framkvæmdina. Fyrsta skóflastungan var tekin að tveimur fjölbýlishúsum í ágúst 2023. Framkvæmdir hafa gengið afar vel og er nú komið að úthlutun fyrstu íbúðanna en stefnt er að því að ljúka úthlutun í febrúar.
Markmið VR Blævar er að stuðla að húsnæðisöryggi fyrir VR félaga og fjölskyldur þeirra með því að bjóða upp á vandað húsnæði og hagkvæma langtímaleigu. Það er von VR að fleiri stéttarfélög láti til sín taka á þessu sviði undir formerkjum og hugmyndafræði Blævar enda ófremdarástand í húsnæðismálum í landinu, einkum á leigumarkaði.
VR óskar félagsfólki sínu og nýjum leigjendum innilega til hamingju með nýja húsnæðið. Félagið bindur vonir við að fyrstu íbúðir Blævar verði vísir að löngu og farsælu starfi íbúðafélagsins.
Saga húsnæðismála hjá VR
Hugmyndina að stofnun leigufélags á vegum VR má rekja til umræðu innan stjórnar félagsins árið 2018. Kveikjan að þeirri umræðu var erfið staða á húsnæðismarkaði og veikur leigumarkaður þar sem framboð af leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði var af skornum skammti, og er enn. Stjórn VR samþykkti að hefja undirbúning að stofnun leigufélags sem var gert undir formerkjum Blævar, systurfélags Bjargs íbúðafélags.
Íbúðir VR Blævar eru hins vegar ekki þær fyrstu sem VR byggir fyrir félagsfólk, en fyrri framkvæmdir voru eignaíbúðir. Árið 1946 var Byggingarsamvinnufélag VR stofnað og fékk úthlutað lóð 1947. Alls voru byggð fjögur hús með 14 íbúðum við Melhaga í Reykjavík.
Í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar ákvað stjórn VR að leita leiða til að bregðast við þeim mikla húsnæðisvanda sem þá ríkti í borginni. VR fékk úthlutað lóð undir fjölbýlishús í Breiðholti árið 1976 og hóf framkvæmdir ári síðar. Flutt var inn í síðustu íbúðirnar fyrir árslok 1979. Og árið 1982 fékk VR lóð við Hvassaleiti en Reykjavíkurborg og VR stóðu saman að byggingu húsnæðis fyrir aldraða ásamt þjónusturými. Um var að ræða 60 íbúðir en þetta var í fyrsta skipti sem stéttarfélag stóð fyrir byggingu íbúða fyrir aldraða félaga.