Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Fyrirtaekiarsins 2021 Vr Vefur Banner Still 828X360 01

Almennar fréttir - 17.05.2021

Fyrirtæki ársins 2021

Fyrirtæki ársins 2021 hafa nú verið valin og niðurstöðurnar birtar. Alls hampa sextán fyrirtæki þessum eftirsóknarverða titli í ár en yfirleitt eru þau fimmtán, það er fimm í hverjum af stærðarflokkunum þremur. Í ár var hins vegar ekki hægt að gera upp á milli tveggja fyrirtækja í hópi efstu í flokki meðalstórra fyrirtækja og því eru Fyrirtæki ársins 2021 sex í þeim flokki.

Stór Fyrirtæki ársins 2021 eru í stafrófsröð:
LS Retail, Nova, Opin kerfi, Sjóvá og Vörður tryggingar

Meðalstór Fyrirtæki ársins 2021 eru í stafrófsröð:
Hringdu, Hvíta húsið, Miðlun, Reykjafell, Tengi og Toyota

Lítil Fyrirtæki ársins 2021 eru í stafrófsröð:
Artasan, Egill Árnason, Hagvangur, Rekstrarfélag Kringlunnar og Reon

Niðurstöðurnar eru byggðar á viðamikilli könnun meðal félagsmanna VR og fjölda annarra á almennum vinnumarkaði. Þau fimmtán fyrirtæki sem eru efst í hverjum stærðarflokki fyrir sig fá svo titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki og eru vinningsfyrirtækin meðal þeirra.

Könnunin var gerð í febrúar og mars á þessu ári og var spurningalisti sendur til rúmlega 32 þúsund viðtakenda. Allir félagsmenn VR fengu senda könnun en auk þess tryggðu 114 fyrirtæki öllu sínu starfsfólki þátttökurétt, án tillits til stéttarfélagsaðildar. Eingöngu fyrirtæki sem tryggja öllu starfsfólki rétt til að taka þátt komu til greina í valinu á Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki.

Jákvæðara viðhorf – hærri einkunnir

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins gefa svarendur vinnustöðum sínum einkunnir fyrir níu lykilþætti með því að svara fjölda spurninga í hverjum þætti. Niðurstöðurnar eru nýttar til að veita fyrirtækjum sem standa sig vel í mannauðsmálum viðurkenningu og hvetja önnur fyrirtæki til dáða.

En niðurstöðurnar eru einnig mikilvægar fyrir félagið til að fylgjast með þróun á líðan og viðhorfum félagsmanna sinna og annars starfsfólks til helstu þátta í sínu vinnuumhverfi. Niðurstöðurnar í ár eru afar áhugaverðar í ljósi þess ástands sem ríkt hefur á vinnumarkaði frá upphafi kórónuveirufaraldursins og bera þær þess merki. Niðurstöðurnar nú eru svipaðar og árið 2009, í kjölfar hrunsins, að því marki að nánast allar einkunnir hækka milli ára, bæði hjá mörgum fyrirtækjum en einnig þegar litið er til einkunna lykilþáttanna án tillits til fyrirtækja.

Heildareinkunn í þessari árlegu könnun VR meðal starfsfólks á almennum vinnumarkaði, bæði innan VR og utan, hefur aldrei verið hærri frá því að könnunin var fyrst gerð á sambærilegan hátt. Heildareinkunn byggir á einkunnum níu lykilþátta og eru einkunnir fyrir sjö þeirra þær hæstu sem sést hafa síðustu ár.

Svarendur í könnun VR á Fyrirtæki ársins gefa níu lykilþáttum einkunnir og er heildareinkunn reiknuð út frá þeim. Heildareinkunn er núna 4,26 af fimm mögulegum en var 4,18 á síðasta ári (sjá hér þróun einkunna). Árið 2009 var einkunnin 4,08, lækkaði síðan strax árið eftir og fór ekki upp fyrir það aftur fyrr en árið 2015. Síðan þá hefur heildareinkunn hækkað jafnt og þétt og er eins og áður sagði í ár 4,26 af fimm mögulegum.

Mesta breyting milli ára snertir lykilþáttinn launakjör, einkunn fyrir þennan þátt var 3,40 af fimm mögulegum í fyrra en er núna 3,52 sem er umtalsvert meiri hækkun milli ára en í öðrum þáttum. Stjórnun og vinnuskilyrði hækka einnig mikið milli ára. Undir þáttinn stjórnun falla meðal annars samskipti við yfirmenn, traust og sanngirni. Alls segjast 83% bera fullt traust til stjórnenda fyrirtækisins og 85% telja að vinnustað sínum sé vel stjórnað. Aukin virðing ríkir á vinnustöðum og starfsfólki er frekar hrósað nú þegar það stendur sig vel en á síðustu árum.

Það kemur kannski á óvart að meiri ánægja sé nú með vinnuskilyrðin en áður í ljósi þess að fjöldi starfsfólks vinnur við allt önnur skilyrði en það er vant, mjög margir vinna í fjarvinnu. En ánægja með marga þætti sem falla undir vinnuskilyrði er engu að síður meiri nú en áður, ánægjan með vinnurýmið er meiri og menningin á vinnustaðnum fær hærri einkunn.

Starfsandinn mælist alltaf hár í könnun VR en í ljósi áhrifa Covid-19 mætti ætla að hann fengi lægri einkunn í kreppu en í uppsveiflu síðustu ára. Svo er hins vegar ekki, starfsandinn hefur aldrei mælst hærri í þessari könnun og er einkunn fyrir starfsanda 4,40. Næst þessari niðurstöðu kemst árið 2009, strax eftir hrun, en þá var einkunnin 4,37.

Sömu kraftar virðast að verki í ár og árið 2009. Þegar gefur á bátinn þjappar fólk sér saman og hugar hvert að öðru. Stjórnendur virðast einnig hafa brugðist við COVID á þann hátt að gera meira að því að styðja og hvetja starfsfólk, að því er niðurstöðurnar benda til. Könnunin í ár endurspeglar þannig enn á ný breytingar í væntingum og viðhorfum starfsfólks, samkennd og skilning.