Almennar fréttir - 17.09.2021
Framtíðarnefnd VR skorar á framboð til Alþingis að svara kröfu um atvinnulýðræði
Það er mat VR að það sé tímaskekkja að lýðræði hafi ekki náð inn á vinnustaði með sama hætti og gerst hefur í löndunum í kringum okkur, þar sem áratuga hefð er fyrir þátttöku starfsfólks í stjórnun fyrirtækja. Að okkar mati er afar mikilvægt að starfsfólk eignist fulltrúa í stjórnum fyrirtækja með formlegum hætti, enda eigi starfsfólk mikið undir góðum árangri fyrirtækja og tryggja þurfi hagsmuni launafólks í fyrirsjáanlegum breytingum sem verða í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna.
Jafnframt er aðkallandi að gera breytingar á núgildandi lögum um samvinnufélög, svo þau henti vel starfsfólki sem vill leggja áherslu á jafnræði þeirra sem þar starfa.
1. Atvinnulýðræði
Að fært verði í lög að starfsfólk geti kosið sér fulltrúa í stjórnir þeirra fyrirtækja þar sem það starfar. Þetta á við stærri fyrirtæki þar sem starfi að lágmarki 35 starfsmenn eða eru skráð á markað. Þetta fyrirkomulag er algengt í Evrópu og er til staðar í einni eða annarri mynd í flestum Evrópusambandsríkjum og öllum Norðurlöndunum. Starfsfólk getur þannig átt beinan þátt í að móta stefnu fyrirtækisins og gætt hagsmuna starfsfólks við ákvarðanatöku.
2. Starfsmanna-samvinnufélög
Breyta þarf lögum um samvinnufélög þannig að starfsfólki sé gert kleift að taka við rekstri fyrirtækja við gjaldþrotaskipti. Á hverju ári verður fjöldi fólks atvinnulaust þegar fyrirtæki verður gjaldþrota. Við viljum að við gjaldþrot verði fyrsta skref skiptastjóra að bjóða starfsmönnum að taka við rekstri fyrirtækisins í einhvern tiltekinn tíma með möguleika á kaupum síðar undir formerkjum starfsmannasamvinnufélags.
Við teljum að þetta myndi leiða til minna atvinnuleysis við gjaldþrot og eins myndi þetta verða til þess að minna verði um kennitöluflakk. Auk þess sem við leggjum til heildarendurskoðun á lögum um samvinnufélög.