Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_logo-2.jpg

Almennar fréttir - 20.03.2018

Frá aðalfundi VR 2018

Aðalfundur VR var haldinn í gær, 19. mars, á Hilton Reykjavík Nordica. Farið var yfir ársskýrslu og ársreikning félagsins fyrir árið 2017. Tekjur félagsins jukust um 13,3% milli ára en tekjur eru samtals 3,9 milljarðar króna. Gjöld aukast um 20,6% og eru samtals 3,6 milljarðar króna. Rekstrartekjur umfram gjöld eru samtals 346 milljónir króna en fjármagnsliðir eru 610 milljónir og því eru hreinar tekjur til ráðstöfunar 956 milljónir króna sem er 30% hækkun milli ára.

Félagsmenn VR eru nú orðnir 35.231 alls sem er 7,4% aukning frá fyrra ári og ef undan er skilin aukning vegna sameiningar við Verslunarmannafélag Suðurlands er aukningin engu að síður 5,4% sem er mikil aukning í sjálfu sér.

Stjórn VR lagði fram átta tillögur að lagabreytingum sem allar stuðluðu að því að lengja kjörtímabil stjórnarmanna og formanns. Fyrsta breytingartillaga, um lengingu kjörtímabils formanns í fjögur ár, stjórnarmanna í fjögur ár og varamanna í tvö ár, náði ekki 2/3 atkvæða og var því felld. Í ljósi þessarar niðurstöður dró Rannveig Sigurðardóttir, hjá laganefnd VR, allar aðrar tillögur stjórnar VR til baka.

Sigurður Sigfússon, stjórnarmaður í VR, lagði fram breytingartillögu við breytingartillögu stjórnar nr. 3 á 20.4 gr. laga um kjörseðla og röðun á lista og var hún samþykkt. Breytingartillaga Sigurðar fjallar um að kynjaflétta haldi áfram til röðunar varamanna.

Kári Lúthersson lagði fram breytingartillögu við breytingartillögu stjórnar nr. 8 á 20.3 gr. laga um framkvæmd kosninga og var hún samþykkt. Breytingartillaga Kára fjallar um kynningu á frambjóðendum og að halda skuli kynningarfundi meðal félagsmanna krefjist einn eða fleiri frambjóðendur þess.

Þá lagði Stefán Viðar Egilsson einnig fram tillögu að breytingu á 22. grein laga VR, sem fjallaði um aukið jafnræði í stjórn en hann taldi óeðlilegt að margir frá sama vinnustað væru í stjórn félagsins. Lagði Stefán Viðar það til á fundinum á tillagan fengi frekari kynningu og umfjöllun í stjórn áður en hún yrði lögð fram. Var tillagan því ekki borin fram til atkvæðagreiðslu á fundinum.

Lýst var yfir kjöri stjórnar og trúnaðarráðs en kosningar í félaginu voru haldnar í mars og niðurstöður kosninga má sjá hérÖnnur hefðbundin aðalfundarstörf voru tekin fyrir.