Almennar fréttir - 31.03.2025
Formaður VR í framkvæmdaráð UNI Europa
Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, var kjörin fulltrúi Landssambands ísl. verzlunarmanna í framkvæmdaráð UNI Europa, alþjóðasamtaka starfsfólks í þjónustugreinum í Evrópu, á ráðstefnu í Belfast dagana 24. til 27. mars. Þetta er í fyrsta skipti sem fulltrúi Íslands á sæti í ráðinu.
Á 6. Evrópuráðstefnu UNI Europa komu saman meira en 600 leiðtogar samtaka launafólks víðs vegar að úr Evrópu til að fagna 25 ára afmæli UNI Europa og móta framtíðarsýn samtakanna. Ráðið fer með stefnumörkun þessara stóru heildarsamtaka launafólks í þjónustu- og verslunargeiranum á almennum markaði í Evrópu. Í ráðinu sitja tíu fulltrúar Norðurlandanna og er Halla fyrsti fulltrúi Íslands sem þar situr.
„Það er mikilvægt fyrir íslenska verkalýðhreyfingu að taka þátt í umræðu um stöðu launafólks í Evrópu og það er mér heiður að eiga nú sæti sem fyrsti fulltrúi Íslands í framkvæmdaráði UNI Europa,“ sagði Halla. „Það er þungt hljóð í systursamtökum okkar víða í Evrópu um þessar mundir, ófriður og uppgangur öfgafullra stjórnmálaafla setur mark sitt á allt alþjóðasamstarf. En það er líka baráttuhugur í fólki og ríkur vilji til að efla enn frekar samstöðu vinnandi fólks. Öflug verkalýðshreyfing er hreinlega lífsnauðsyn fyrir álfuna.“
Fulltrúar í framkvæmdaráðinu koma frá félagssvæði UNI í Evrópu en þar eiga einnig sæti fulltrúar atvinnugreina UNI Europa, kvenna og ungs fólks. Innan stéttarfélaga sem aðild eiga að UNI Europa eru um 7 milljónir einstaklingar sem starfa við þjónustu- og verslunarstörf í Evrópu.
Á ráðstefnunni Í Belfast var samþykkt stefna samtakanna og aðgerðir stéttarfélaga í þjónustugreinum til næstu fjögurra ára í Evrópu. Þessar aðgerðir endurspegla mikilvægi þess að stéttarfélög standi öflugan vörð um hagsmuni launafólks. Áhersla verður lögð á réttlát umskipti, löggjöf til verndar mannréttindum, tæknibreytingar, baráttu við gul stéttarfélög, vaxandi áhyggjur af uppgangi öfga hægri afla í Evrópu og ákall um frið.
Framboð og kjör Höllu endurspegla áherslu aðildarfélaga LÍV á öflugt samstarf verslunarfélaga á Norðurlöndum og innan Evrópu. Þátttaka í framkvæmdaráðinu færir Íslandi rödd í alþjóðlegu samstarfi evrópskra stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði en auk LÍV eiga bæði Félag tæknifólks og Samtök starfsfólks fjármálafyrirtækja aðild að UNI Global Union sem UNI Europa tilheyrir.