Almennar fréttir - 18.05.2017
Fimmtán fyrirtæki tilnefnd Fyrirtæki ársins 2017
Fyrirtæki ársins 2017 hafa verið valin samkvæmt niðurstöðum viðamikillar könnunar meðal þúsunda starfsmanna vinnumarkaði. VR hefur staðið fyrir þessari könnun í tvo áratugi og tilnefnir í ár fleiri fyrirtæki sem Fyrirtæki ársins en nokkru sinni fyrr, eða fimmtán talsins. Niðurstöðurnar voru kynntar í móttöku í Hörpu þann 18. maí.
- Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri eru CCP, Johan Rönning, Nordic Visitor, S4S og TM Software.
- Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með 20 – 49 starfsmenn eru Expectus, Fulltingi, Iceland Pro Travel, Kortaþjónustan og Margt smátt.
- Fyrirtæki ársins árið 2017 í hópi fyrirtækja með færri en 20 starfsmenn eru Beiersdorf, Eirvík, Rafport, Sigurborg og Vinnuföt.
Fimm Fyrirtæki ársins í hverjum stærðarflokki í stað eins
VR hefur tilnefnt Fyrirtæki ársins árlega í tvo áratugi á grundvelli könnunar meðal félagsmanna sinna og fjölda annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í ár er gerð sú breyting að fimm fyrirtæki eru tilnefnd sem Fyrirtæki ársins í hverjum stærðarflokki en þeir eru þrír; fyrirtæki þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, fyrirtæki þar sem starfsmenn eru 20 – 49 og fyrirtæki þar sem starfsmenn eru færri en 20 talsins.
Fyrirtækin fimm eru efst á lista í sínum stærðarflokki - af þeim fyrirtækjum sem tryggja öllum starfsmönnum þátttökurétt í könnuninni - og fá öll titilinn Fyrirtæki ársins 2017. Áður var það eingöngu fyrirtækið sem var efst á lista í sínum stærðarflokki, þ.e. fékk hæstu heildareinkunn fyrirtækjanna, sem hampaði titlinum.
Þá er einnig gerð sú breyting í ár að eingöngu fyrirtæki þar sem allir starfsmenn hafa tækifæri til að taka þátt í könnuninni, óháð stéttarfélagsaðild þeirra, komu til greina í valinu á Fyrirtæki ársins eða Fyrirmyndarfyrirtæki 2017. Í rúman áratug hefur VR hvatt fyrirtæki til að tryggja öllum sínum starfsmönnum þátttöku í könnuninni, en með þátttöku allra fæst heildstæð mynd af stöðu fyrirtækisins og viðhorfi starfsmanna. Af þeim 240 fyrirtækjum sem komust inn á lista í könnuninni í ár eru 160 með alla sína starfsmenn með og hafa aldrei verið fleiri.
Níu lykilþættir sem ákvarða Fyrirtæki ársins
Könnun VR mælir viðhorf starfsmanna til níu lykilþátta í innra umhverfi fyrirtækja. Þetta eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki í vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, ánægja og stolt og svo jafnrétti en síðastnefndi þátturinn kom nýr inn á síðasta ári. Jafnréttisþátturinn mælir ekki eingöngu jafnrétti út frá kyni heldur einnig aldri, uppruna, kynhneigð og trúar- og lífsskoðunum.
Valið á Fyrirtæki ársins byggir á niðurstöðum úr samtals 60 spurningum í lykilflokkunum níu. Hæsta einkunn er fimm en sú lægsta er einn. Hver lykilþáttur fær þannig einkunn og mynda einkunnir allra þáttanna níu heildareinkunn fyrirtækis.
Könnun VR á Fyrirtæki ársins snýst ekki eingöngu um að velja Fyrirtæki ársins. Tilgangurinn er fyrst og fremst að kanna aðbúnað starfsmanna á vinnumarkaði og fylgjast með þróun á viðhorfi þeirra til helstu þátta í innra starfsumhverfi fyrirtækjanna. Niðurstöðurnar nýtast þannig félaginu í kjarabaráttu sinni og renna fleiri stoðum undir starfsemi þess og þjónustu. Sjá nánar um framkvæmdina og hugmyndafræðina.
Hæsta heildareinkunn sem mæld hefur verið
Heildareinkunn í könnun VR hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár og hefur ekki mælst hærri, 4,14 af fimm mögulegum. Svarendur eru meðal annars ánægðari með stjórnun fyrirtækisins en einkunn fyrir stjórnun er einnig sú hæsta sem mælst hefur, 4,16 af fimm mögulegum. Stjórnun mælir m.a. traust starfsmanna til stjórnenda, samskipti við næsta yfirmann, framkomu og viðhorf stjórnenda í garð starfsmanna o.fl.
Þá má einnig sjá hækkun á þættinum Ímynd fyrirtækis en hún hefur ekki mælst svona há frá hruni, 4,21 af fimm mögulegum. Sá lykilþáttur sem fær hæstu einkunn – eins og verið hefur síðustu fimm ár – er sveigjanleiki vinnu. 91% svarenda í könnuninni eru ánægð með þann sveigjanleika sem þeir hafa í vinnunni.
Um framkvæmdina
Alls fengu ríflega þrjátíu þúsund starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum senda könnun í ár og bárust hátt í fjórtán þúsund svör frá starfsmönnum eitt þúsund fyrirtækja. Gerð er krafa um 35% lágmarkssvörun í könnuninni, að öðrum kosti eru niðurstöður fyrirtækisins ekki birtar. Alls uppfylltu 240 fyrirtæki þá kröfu og byggir val á Fyrirtækjum ársins á viðhorfi starfsmanna þessara fyrirtækja.
- Sjá umfjöllun um fimmtán Fyrirtæki ársins 2017
- Sjá lista yfir Fyrirmyndarfyrirtæki 2017
- Sjá hér listana yfir Fyrirtæki ársins – í þremur stærðarflokkum
- Sjá umfjöllun um þróun heildareinkunnar og lykilþátta
- Sjá umfjöllun um aðrar helstu niðurstöður könnunarinnar
- Sjá umfjöllun um framkvæmdina
- Sjá umfjöllun um hugmyndafræðina