Almennar fréttir - 14.04.2016
Eru allir eins á þínum vinnustað?
Fjölbreytni á vinnustað er mikilvæg bæði fyrir rekstur fyrirtækja og frammistöðu starfsmanna. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki sem búa yfir fjölbreyttum hópi starfsmanna og ná að virkja hæfileika þeirra eru líklegri til að ná betri árangri.
VR telur mikilvægt að vekja athygli á fjölbreytni á íslenskum vinnumarkaði og hvetur atvinnurekendur til að leggja áherslu á að laða til sín starfsmenn með mismunandi viðhorf, ólíka reynslu, af báðum kynjum og öllum aldri svo fátt eitt sé nefnt. Þess vegna hleypir félagið nú af stokkunum herferð sem ber heitið Fjölbreytni er góð fyrir alla.
Liður í herferðinni eru auglýsingar sem VR mun birta í fjölmiðlum á næstunni og mun sjónvarpsauglýsing herferðarinnar birtast í fyrsta skipti í kvöld 14. apríl. Hér á heimasíðu VR og á Facebook síðu VR verður sérstök umfjöllun um átakið og þriðjudaginn 19. apríl býður VR síðan til ráðstefnu um mikilvægi fjölbreytileika á vinnustað á Grand hóteli í Reykjavík og hefst hún kl. 09:00.