Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnheidur_gudfinna-1.jpg

Almennar fréttir - 11.01.2017

Er streita að hrjá þig?

Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir er framkvæmdastjóri og ráðgjafi hjá Forvörnum ehf. Forvarnir leggja áherslu á að fyrirbyggja streitu og stuðla að góðri geðheilsu, hvort sem fólk leitar til þeirra í einstaklingsmiðaða þjónustu eða fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja bæta andlega og félagslega líðan starfsmanna á vinnustaðnum. 

Ragnheiður Guðfinna ræddi við VR blaðið um streitu og hvað sé til ráða þegar streitan hefur náð yfirhöndinni.

Hvað er streita?
Streita er eðlislægt viðbragð líkamans við einhvers konar ógn eða áreiti. Þetta viðbragð höfum við þróað með okkur frá því við vorum frummenn og kallast „flótta- eða árásarviðbragð (e. „Fight vs. Flight“) og er hægt að lýsa því sem einhvers konar öryggiskerfi okkar. Streita er sállíkamlegt ástand sem felur í sér vanlíðan á sál og álag á líkama. Slíkt ástand kemur niður á andlegri og líkamlegri heilsu fólks. Það er ofboðslega sterkt samspil á milli hugar og líkama og stundum er það bara hvernig við hugsum sem veldur okkur streitu. Fólk getur einnig fundið fyrir vinnutengdri streitu sem myndast þegar kröfur í starfi eru umfram getu og stjórn starfsmanns.

Hver eru einkenni streitu?
Einkenni streitu eru margvísleg og birtast ólíkt eftir því hver á í hlut. Þess vegna getur streitan verið lúmsk og komið í bakið á okkur. Einkenni eru:
Líkamleg einkenni: Aukinn hjartsláttur, hnútur í maga, þyngsli fyrir brjósti, grynnri öndun, vöðvabólga, stoðkerfisverkir, svimi, doði í útlimi, fölleiki húðar, hárlos, mikill sviti í lófum, svitaköst og fleira. Líkamleg einkenni eru mjög mörg, en þetta eru þau helstu og þau verða bara ýktari með auknu álagi.
Tilfinningaleg einkenni: Grunntilfinningar sem verða ráðandi eru reiði, ótti, depurð og andúð. Við reiðumst út af smámunum eða förum að gráta út af nákvæmlega engu. Við fáum nóg af fólki og depurð gerir vart við sig vegna efasemda um eigið ástand.
Huglæg/sálræn einkenni: Hugurinn er í ójafnvægi, við sjáum bara hindranir í stað lausna, fókuserum of mikið á smáatriði í stað þess að sjá heildarmyndina, sjáum glasið hálftómt í stað hálffullt, föllum í hugsanagildrur eins og allt eða ekkert hugsun, eigum erfitt með að einbeita okkur og minnið fer að bregðast okkur.
Hegðunarleg einkenni: Langvarandi streita kemur fram í hegðun, maður dregur úr því að gera það sem manni er nauðsynlegt í streituástandi eins og að hreyfa sig, sofa vel, hvíla sig og hitta vini og kunningja. Maður dregur sig í hlé, fer að sofa illa sem hraðar ferlinu niður á við vegna þess að svefn og hreyfingskipta miklu máli fyrir geðheilsuna. Svo dettur öll rútína niður, við förum að borða óreglulega og óhollt, drekkum meira kaffi sem spennir okkur enn meira upp og áfengisneysla eykst jafnvel til að reyna að deyfa þessi óþægindi niður. Við verðum árásargjörn í hegðun og þráðurinn styttist.

Hvernig veit ég hvort ég þjáist af streitu?
Ætli það sé ekki þegar þér finnst þú ekki vera þú sjálfur lengur. Margir segja „Mér finnst ég bara vera eins og skugginn af sjálfum mér“.
Þegar streitan er farin að koma niður á daglegu lífi, afköstum í starfi og samskiptum við vini og fjölskyldu þarf að taka skref til baka og skoða stöðuna. Það er engin ein einföld mælistika á streitu, þetta er óáþreifanlegt hugtak og í raun er hver og einn sem þarf að mæla sína streitu hverju sinni vegna þess að við höfum mishá þolmörk.

Hvað þarf fólk að hafa í huga ef það finnur fyrir streitueinkennum?
Stoppa aðeins – draga djúpt andann og tileinka sér meðvitund um ástand sitt. Taka skref til baka, horfa á ástandið út frá yfirsýn eða því sem kallað er „þyrlusýn“ (e. helicopter view) og kortleggja streituvalda sína og hvernig maður sé að bregðast við þeim.
etja þarf inn þætti sem vinna gegn streitu eins og hreyfingu, hvíld, svefn, tjáningu, ráðgjöf og að ná tökum á huganum. Skoða þarf hvaða streituvalda hægt sé að fjarlægja og hverja þarf hreinlega að takast á við.

Hvernig er hægt að fyrirbyggja óþarfa streitu?
Streituviðbrögð okkar eru jákvæð þegar þau nýtast okkur til að takast á við áskoranir sem banka upp á hjá okkur með reglulegu millibili. En ef álag og spenna eru langvarandi og viðvarandi ástand fer streituviðbragðið að þróast yfir í neikvæða streitu. Það er því mikilvægt að ná jafnvægi á milli álagskafla, hlusta á líkamann, hvíla sig og setja sjálfan sig ofar í forgangsröðun til að ná að jarðtengja sig inn á milli og byggja sig upp fyrir næsta álagskafla.

Hvernig er með þig, finnur þú oft fyrir stressi?
Já, aldeilis. Ef ég myndi ekki finna fyrir stressi af og til væri ég í raun steindauð! Streituviðbrögð eru lífsneisti okkar og nauðsynlegt viðbragð til að fúnkera. Ég myndi alls ekki vilja vera laus við streitu en ég reyni að hafa stjórn á henni og halda henni jákvæðri.

Hvað gerir þú þegar þú finnur fyrir stressi?
Ég hugsa fyrst um að skoða hvað það er sem er að stressa mig upp. Er það ytra álag eða er það innri hugur? Er ég að skapa sjálfri mér óþarfa streitu? Svo hlusta ég á líkamann og reyni að finna út hvort ég þurfi meiri hvíld og svefn eða hvort ég þurfi að auka við mig hreyfingu. Stundum dreg ég úr hreyfingu til að sinna hvíldinni betur en stundum bæti ég við hreyfinguna til að efla mig. Það fer í raun allt eftir hvað er í gangi hverju sinni. Svo fer ég að taka á þeim stóra sem er „hugurinn minn“ sem er oft streituvaldurinn sjálfur.

Fyrir fólk sem er að vinna og finnst það andlega fjarverandi – er það stressað?
Já, það er sterkt einkenni streitunnar. Þá eru huglægar eða andlegar þolvarnir alveg að þrotum komnar. Viðkomandi keyrir sig þá bara í „sjálfstýringu“ (e. „survival mode“) til að halda sér hreinlega á floti. Ef slíkt ástand verður langvarandi fer ástandið að koma niður á afköstum og auknar líkur verða á mistökum í starfi. Svo klessir viðkomandi á vegg og klárar sig alveg.


Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni www.stress.is