Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
4Iðnbyltingin

Almennar fréttir - 19.01.2022

Er fjórða iðnbyltingin hafin á þínum vinnustað?

VR og LÍV taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi samtaka launafólks m.a. hjá UNI Europa sem er hluti af Union Network International. Þar fer fram margvíslegt samstarf samtaka launafólks og meðal annars eru þar gerðar ýmsar rannsóknir á starfsumhverfi og aðstæðum launafólks í Evrópu. Um þessar mundir er þar unnið að rannsókn á áhrifum tæknibreytinga á starfsumhverfi og störf launafólks, með áherslu á að kanna notkun gervigreindar. UNI, í samstarfi við Friedrich Ebert Foundation, spyr launafólk um alla Evrópu um upplifun og viðhorf á þeirra vinnustað þegar kemur að gervigreind.

Um nokkura ára skeið hefur verið rætt um fjórðu iðnbyltinguna og áhrif hennar á vinnumarkaðinn, en hún mun hafa veruleg áhrif á störf flestra okkar. Með fjórðu iðnbyltingunni er m.a. átt við sjálfvirknivæðingu og gervigreind, en notkun á gervigreind er lykilþáttur í fjórðu iðnbyltingunni. VR hefur unnið að því að mæta þessum tæknibreytingum með því að leggja áherslu á undirbúa félagsfólk fyrir þær áskoranir sem munu fylgja þessum breytingum. Þar leggur félagið sérstaka áherslu á að tryggja verði endurmenntun þeirra sem nú þegar eru á vinnumarkaðnum og lýðræðislega aðkomu starfsfólks að stjórnum fyrirtækja.

Við hvetjum VR félaga til þess að taka þátt í rannsókn UNI Europa með því að svara könnuninni en hún er aðgengileg á bæði ensku og pólsku.

Sjá könnun á ensku hér. 
Sjá könnun á pólsku hér.

Við munum greina frá niðurstöðum rannsóknarinnar þegar þær liggja fyrir.