Almennar fréttir - 17.08.2022
Ég bara spyr - Auglýsingar VR vegna kjarasamninga
VR hefur í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið hafið birtingar á auglýsingum í tengslum við nýjan kjarasamning en núverandi kjarasamningur rennur út þann 1. nóvember næstkomandi. Fyrstu birtingar voru nafnlausar til að vekja sem mesta athygli sem tókst mjög vel til. Sögusvið auglýsinganna er fréttaskýringaþátturinn „Ég bara spyr“ og eru þáttastjórnendur ýktar persónur sem virðast ekki í neinum tengslum við raunveruleika venjulegs launafólks. Fara þau mikinn í lýsingum sínum á því hversu yfirgengilegar kröfur launafólks eru og gera jafnan grín og lítið úr þeim en ekkert af því sem þau segja virðist þó eiga við þau sjálf. Í upplýsingaborða neðst á skjánum rúlla svo raunverulegar fyrirsagnir úr fjölmiðlum sem hafa birst undanfarin misseri og eru í hrópandi ósamræmi við það sem þáttastjórnendur predika.
Ætlunin með auglýsingunum er að bregða upp gamansömu ljósi á mikilvæg málefni kröfugerðar félagsins og þeirri orðræðu sem verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina þurft að sitja undir í aðdraganda kjarasamningaviðræðna.