Almennar fréttir - 04.09.2024
Efnahagsleg nauðsyn eða pólitísk hugmyndafræði?
Þann 17. september efnir VR til málþings um niðurskurðarstefnu en í ár er öld síðan þessi umdeilda stefna var innleidd skipulega á Íslandi í fyrsta sinn.
Clara Mattei, prófessor í hagfræði, sem fjallað hefur um uppruna og þróun niðurskurðarstefnunnar, og Ásgeir Brynjar Torfason, ritstjóri Vísbendingar, halda erindi og í pallborði verða áhrif stefnunnar á íslenskt samfélag og vinnumarkað rædd. Í pallborði sitja auk Ásgeirs Brynjars þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur BSRB, Stefán Ólafsson, prófessor emeritus og sérfræðingur hjá Eflingu, Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ og Sveinn Máni Jóhannesson sagnfræðingur. Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR, verður málþingsstjóri.
Málþingið verður haldið í sal VR á 9. hæð í Húsi verslunarinnar þriðjudaginn 17. september, húsið opnar kl. 13:30. Ekki láta þennan áhugaverða viðburð fram hjá þér fara.