Almennar fréttir - 28.04.2023
Dagskrá 1. maí 2023
VR hvetur allt félagsfólk til þess að fjölmenna í kröfugöngur og á útifundi í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins þann 1. maí næstkomandi.
Fjölskylduhlaup VR á Klambratúni
Í Reykjavík verður hitað upp fyrir kröfugöngu með léttu skemmtiskokki og hátíðardagskrá fyrir alla fjölskylduna á Klambratúni. Jónsi í Svörtum fötum stýrir dagskránni sem hefst kl. 11:30. Jónsi og leikhópurinn Lotta hita mannskapinn upp fyrir Fjölskylduhlaupið en hlaupið er 1,5 km leið í kringum túnið. Þátttaka er ókeypis og fá allir þátttakendur í fjölskylduhlaupinu verðlaunapening.
Celebs úr Söngvakeppninni skemmta okkur og Alda María kennir krakkazumba. Þá verður Sirkus Íslands á svæðinu. Boðið upp á grillaðar pylsur, bulsur, gos og safa.
Verkalýðskaffi og kröfuganga í Reykjavík
Í Reykjavík verður safnast saman fyrir kröfugönguna á Skólavörðuholti kl. 13:00 en við munum marsera þangað frá Klambratúni með Jónsa og Lúðrasveit verkalýðsins í fararbroddi. Kröfugangan leggur svo af stað kl. 13:30. VR verður með sitt árlega verkalýðskaffi fyrir félagsfólk í anddyri Laugardalshallar kl. 14:30 að loknum útifundi á Ingólfstorgi.