Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_logo-3.jpg

Almennar fréttir - 17.04.2019

Breyting hjá Sjúkrasjóði VR

Frá og með deginum í dag 17. apríl 2019 mun hámark greiðslutímabils sjúkradagpeninga úr Sjúkrasjóði VR fara úr 9 mánuðum í 7 mánuði. Var þetta samþykkt á síðasta stjórnarfundi VR.

Helsta ástæða þessarar breytingar er gríðarleg aukning útgreiðslna úr sjóðnum á síðustu árum og þá helst í sjúkdómaflokkum geð- og stoðkerfissjúkdóma. Þessi mikla aukning varð til þess að fjárhagsleg staða sjóðsins gæti orðið veik ef halda ætti áfram að greiða stærstan hluta innlagnar í VR varasjóð úr Sjúkrasjóði VR og hefur því verið brugðið á það ráð síðustu tvö ár að greiða stórt framlag úr Félagssjóði VR til að hlífa sjúkrasjóðunum. En slíkt er aðeins tímabundin ráðstöfun.

Hitt er svo annað mál að þessi stytting hámarkstímabils gæti einnig orðið tímabundin ef staða sjóðsins batnar því samkvæmt nýjum Starfsreglum Sjúkrasjóðs VR getur nú stjórn VR breytt þessu aftur til fyrra horfs, þ.e. 9 mánaða hámarks, með skömmum fyrirvara en áður þurfti að bíða næsta aðalfundar með slíkar ákvarðanir.

Breytingin miðar við þá dagsetningu sem réttur til greiðslna úr Sjúkrasjóði VR myndast þannig að hafi rétturinn myndast fyrir daginn í dag þá gildir eldri regla um 9 mánaða hámark en sé það frá og með deginum í dag þá gildir nýja reglan um 7 mánaða hámark greiðslutímabils. Þeir sem hafa þegar hafið greiðslutímabil samkvæmt eldri reglum og orðið vinnufærir en koma svo síðar aftur vegna veikinda klára sitt eldra tímabil samkvæmt eldri reglu.

Hægt er að fá allar nánari upplýsingar með því að senda tölvupóst á vr@vr.is eða þá að hringja í þjónustuver VR, sími 510-1700