Almennar fréttir - 18.03.2025
Áyktun stjórnar VR vegna hagræðingartillagna ríkisstjórnarinnar
Stjórn VR varar við að vinnumarkaðslöggjöfin sæti endurskoðun með það að markmiði að auka valdheimildir ríkissáttasemjara, líkt og skilja má af tillögum starfshóps forsætisráðherra um hagræðingu í ríkisrekstri. Jafnframt telur stjórn VR óhæft að ríkisstjórnin leggi til útvistun eftirlits á vinnumarkað og skerðingu á réttindum opinberra starfsmanna.
Þann 4. mars 2025 kynnti ríkisstjórn Íslands niðurstöður starfshóps forsætisráðherra um hagræðingu í ríkisrekstri. Tillögurnar eru af margvíslegum toga og ná yfir ólík svið. Einhverjar fela í sér eðlilegar aðgerðir sem mætti ráðast í til þess að ná fram hagkvæmni í ríkisrekstri án skerðingar á þjónustu og í þverpólitískri sátt. Aðrar tillögur eru hins vegar illa ígrundaðar og óútfærðar. Í sumum tilfellum er ekki ljóst hvernig þær eigi að skila aukinni hagræðingu og í öðrum virðist starfshópurinn ekki átta sig á alvarlegum og víðtækum afleiðingum tillagna sem myndu hrófla við mikilvægum stoðum í samfélaginu.
Í tillögu starfshóps forsætisráðherra um lagagrundvöll ríkissáttasemjara kemur fram að nauðsynlegt sé að endurskoða lög sem fjalla um ríkissáttasemjara og vinnumarkaðinn, sérstaklega í ljósi þess að tengja eigi „stór bótakerfi við launaþróun í landinu“. Ekki er hægt að skilja „hagræðinguna“ sem hlýst af slíkum aðgerðum með öðrum hætti en að halda eigi niðri launaþróun í landinu og þar með samsvarandi þróun á bótakerfinu. Hér eigi að horfa til löggjafar sem þekkist í öðrum Norðurlöndum. Markmið þessarar tillögu, sem virðist vera tekin gagnrýnislaust upp úr umsögn Samtaka atvinnulífsins, virðist vera að auka valdheimildir ríkissáttasemjara til að ná fram kjarasamningum með valdboði ríkisvaldsins í gegnum miðlunartillögur og miðstýrða launastefnu í stað samningaviðræðna eins og verið hefur hér á landi.
VR gerir athugasemd við tillögu starfshópsins og telur hana til þess fallna að vega að samingafrelsi á vinnumarkaði og kollvarpa því vinnumarkaðslíkani sem hefur verið við lýði hér á landi undanfarna áratugi. Samanburðurinn við önnur Norðurlönd er ómarkviss enda nauðsynlegt að skoða útfærslur á hlutverki ríkissáttasemjara í heildrænu samhengi. Undirstaða þess að ná fram sátt á vinnumarkaði er að launafólk semji um kaup og kjör á eigin forsendum og í virku samtali við atvinnurekendur. Það er ótækt að úthýsa þeirri ábyrgð til erindreka ríkisvaldsins.
VR furðar sig jafnframt á því að þessi tillaga sé sett fram af starfshópi forsætisráðherra án samráðs við samtök launafólks. Það vekur sérstaka athygli að formaður starfshópsins nefnir að fjöldi tillagna frá almenningi hafi ekki verið tekinn fyrir þar sem þær fælu í sér „pólitísk úrlausnarefni“. Tillaga starfshópsins um breytingar á hlutverki ríkissáttasemjara er að sjálfsögðu hápólítísk og að mati VR er það slæm pólítík sem þar virðist ráða för.
Að sama skapi setur VR spurningarmerki við tillögur starfshópsins um útvistun verkefna hjá Vinnueftirlitinu. Það er með öllu óljóst hvernig slík einkavæðing ætti að skila mikilli hagræðingu enda hefur starfshópurinn ekki lagt mat á þær fjárhæðir. Eftirlit á vinnumarkaði er gífurlega mikilvægur liður í því að tryggja að öryggi og aðbúnaður launafólks sé í lagi. Því miður eru fjölmörg dæmi sem sýna að svo sé ekki alltaf raunin, sérstaklega þegar um erlent starfsfólk er að ræða. Í tillögum starfshópsins er hvergi minnst á hvernig eigi að útfæra þessa útvistun eða tryggja áfram hagsmuni launafólks.
Að lokum gerir VR athugasemd við tillögu starfshópsins um aðlögun starfsmannalaga að almennum markaði. Starfshópurinn leggur til að fella brott ákvæði um áminningu opinberra starfsmanna og veikja þar með starfsöryggi þess hóps. Tillagan er sett fram undir þeim formerkjum að æskilegt sé að samræma réttindi á milli hins opinbera markaðar og hins almenna. VR telur ótækt að það verði gert með því að skerða réttindi opinberra starfsmanna. Eðlilegra væri að ná fram samræmingu með því að auka réttindi á almennum markaði eins og VR hefur lengi bent á, til dæmis hvað varðar orlof og veikindarétt.
Stjórn VR,
mars 2025