Almennar fréttir - 13.12.2024
Áskorun VR inn í stjórnarmyndunarviðræður
Stjórn VR skorar á þá flokka sem nú standa að stjórnarmyndunarviðræðum að tryggja hag launafólks og þá sérstaklega þeirra sem hafa þurft að bera byrðarnar af slæmu efnahagsástandi. Stjórn VR áréttar að verkalýðshreyfingin hefur undirgengist afar hóflega kjarasamninga gegn loforði um að ríki og sveitarfélög axli sína ábyrgð og að atvinnurekendur haldi aftur af verðhækkunum. Með þessu hefur hreyfingin tekið á sig áhættu á kjararýrnun launafólks og þá sérstaklega hjá þeim hópum sem bera mikinn húsnæðiskostnað, hvort sem er á leigumarkaði eða í skuldsettu eigin húsnæði. Fjöldi húsnæðislántakenda hefur misst eða er að missa fasta vexti og þannig þurft að taka á sig tug- og jafnvel hundruð þúsundir í aukna greiðslubyrði á mánuði. Á sama tíma vex gróði bankanna. Við þessu verður að bregðast og stjórn VR kallar eftir bráðaaðgerðum sem tryggja hag húsnæðisskuldara og leigjenda.
Stjórn VR brýnir stjórnvöld til að takast á við húsnæðiskrísuna, en það er forsenda þess að ná stjórn á efnahagsmálum og tryggja hag launafólks. Ungt fólk á að geta komið sér þaki yfir höfuðið á sanngjörnum kjörum og eldra fólk á rétt til húsnæðis við hæfi. Stjórn VR telur að horfa þurfi til fjölbreyttra búsetuúrræða og tryggja gott húsnæði fyrir 60 ára og eldri í nánd við þjónustukjarna og hjúkrunarheimili. Slík uppbygging myndi jafnframt losa um húsnæði sem nýtist barnafjölskyldum.
Stjórn VR telur brýnt að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og draga úr tekjutapi og efnahagslegu óöryggi barnafólks. Húsnæðismál skipta þar miklu máli en einnig öflug stuðningskerfi, góð heilbrigðisþjónusta og geðheilbrigðisþjónusta og gjaldfrjáls þjónusta við börn. Skoða þarf möguleika á að draga úr skattalagningu lágmarkslauna, samhliða því að draga úr þeim miklu skerðingum sem eru á lífeyrisgreiðslum almannatrygginga vegna greiðslna úr lífeyrissjóði og tryggja að lægstu greiðslur almannatrygginga verði aldrei lægri en lágmarkslaun.
Stjórn VR skorar á þá flokka sem standa að stjórnarmyndunarviðræðum að hafna alfarið niðurskurðarstefnu (e. austerity) sem leið út úr efnahagserfiðleikum. Í henni felst niðurskurður og vanræksla á opinberri þjónustu og innviðum, einkavæðing grunnþjónustu, hávaxtastefna og niðurbrot á kjörum og réttindum launafólks. Sú stefna hefur hvergi virkað til að ná tökum á ríkisfjármálum en hún leiðir hins vegar til fátæktar, efnahagslegs óöryggis og samfélagslegs niðurbrots. Stjórn VR hvetur til þess að úreltar hagfræðikenningar séu látnar lönd og leið, að hagsmunir fólks verði settir í öndvegi og hagsmunir fjármagns látnir mæta afgangi.
Ný ríkisstjórn tekur við í erfiðu árferði og hennar bíða krefjandi verkefni. Staða ríkissjóðs er engu að síður góð og það er mikilvægt að nýta ríkisfjármálin til að renna stoðum undir gott og öflugt velferðarsamfélag. Stjórn VR hvetur tilvonandi stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka til að snúa bökum saman í þágu velferðar og velsældar. Íslenskt samfélag þarf á því að halda.
12. desember 2024
Stjórn VR