Almennar fréttir - 27.01.2023
Ályktun frá stjórn VR
VR gerir alvarlegar athugasemdir við inngrip ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Með því að leggja fram ótímabæra miðlunartillögu hefur ríkissáttasemjari slegið verkfallsvopnið úr höndum stéttarfélags sem hefur þegar hafið atkvæðagreiðslu um boðun aðgerða.
Miðlunartillaga er neyðarúrræði til lausnar kjaradeilu. Mikilvægt er að stéttarfélög og viðsemjendur þeirra fái tækifæri til að vinna að lausn í sínum kjaradeilum og beita til þess þeim ráðum sem þeim standa til boða. VR gerir þá kröfu að samningsréttur stéttarfélaga sé virtur og skorar á ríkissáttasemjara að draga tillögu sína til baka.
Stjórn VR
27. janúar 2023