Almennar fréttir - 10.09.2021
Álagning banka á Íslandi er alltof há
Nú hafa stóru bankarnir þrír, Landsbanki, Arion banki og Íslandsbanki allir nýlega skilað uppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2021. Samanlagður hagnaður þeirra er 37 milljarðar króna á tímabilinu. Landsbankinn skilar mestum hagnaði eða 14,1 milljarði, Arion banki 13,9 milljörðum og Íslandsbanki 9 milljörðum króna.
Bankastjóri Landsbankans fylgir sínu uppgjöri úr hlaði í fréttatilkynningu með orðunum: „Góð rekstrarniðurstaða undanfarinna ára gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum betri kjör.” En eru þetta í raun „betri kjör” almenningi til handa? Skoðum tölurnar sem bankarnir sjálfir stilla upp í sínu nýlegu uppgjörum:
Þarna má sjá að meðalvextir útlána bankanna eru 5,22% á móti aðeins 1% meðalvöxtum innlána sem gerir mismun uppá heil 4,22 prósentustig. Það er nú þokkaleg álagning og satt að segja myndu nú flestir segja að verslun sem kaupi mjólkurlítra á 100 kr. en seldi á 522 kr. væri með ofurálagningu og lái okkur því hver sem vill ef við köllum þetta þá að sama skapi okurvexti eða a.m.k. ofurálagningu.
Forkólfar í atvinnu- og fjármálageiranum hafa verið óþreytandi undanfarin ár að brýna það fyrir verkalýðshreyfingunni að líta til landanna í kringum okkur um umgjörð kjarasamninga og hve gott það er að bera okkur saman við þau lönd. Nú viljum við í stjórn VR á sama hátt hvetja þessa aðila til þess sama og skoða hvaða áhrif það hefði á „betri kjör” viðskiptavina bankanna og efnahag landsins ef vaxtamunur bankanna væri meira í átt við það sem er í löndum sem við berum okkur saman við en þar er hann nokkuð minni. Álagning íslenskra banka er hreinlega allt of mikil og hana verður að lækka. Það mætti vel lækka vaxtamuninn um 1,25% prósentustig svo hann sé nær því sem gerist í nágrannalöndunum og með því mætti skila 40 milljörðum króna árlega til fyrirtækja og einstaklinga í landinu.
Eins og sjá má af þessum tölum er holur hljómur í þeirri fullyrðingu bankanna, sem auðvitað allir hafa orðmiklar stefnur um samfélagsábyrgð, að hinn mikli hagnaður skili viðskiptavinum betri kjörum.
Stjórn VR skorar því á bankana þrjá, Landsbanka, Íslandsbanka og Arion banka að láta af hinum óhóflega vaxtamun milli innlána og útlána, að þeir sýni raunverulega samfélagsábyrgð á borði fremur en bara í orði og skili þjóðinni aftur því sem á milli ber.
Ályktun stjórnar VR á fundi sínum þann 8. september 2021