Jolaskogur Frettamynd

Almennar fréttir - 20.09.2024

Ævintýri í Jólaskógi með VR

VR gefur félagsfólki sínu tækifæri til að upplifa ævintýraferð í Jólaskógi í aðdraganda jólahátíðarinnar í ár. Félagsfólk getur valið um að koma dagana 10., 13. eða 14. desember en með því að dreifa skemmtuninni á nokkra daga gefst fleirum tækifæri til að njóta en ella.

Að sýningunni standa jolasveinar.is og hefur VR tryggt sýningar fyrir félagsfólk sitt á ofantöldum dagsetningum. Miðar verða seldir með afslætti og kostar miðinn einungis 500 kr. Miðasala hefst í lok október og verður hámarksmiðafjöldi fyrir hvern VR félaga 6 stk. Athugið að miðafjöldi er takmarkaður.

Ævintýri í Jólaskógi er sýning þar sem áhorfendur ganga í litlum hópum um skóginn í Guðmundarlundi og hitta á ferðum sínum persónur úr uppáhalds jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýlu, Leppalúða, jólasveinana og tröllasystkini þeirra. Sýningar hefjast á 10 mínútna fresti og byrja ekki fyrr en farið er að skyggja.

Gönguferðin tekur tæpan klukkutíma og að henni lokinni geta áhorfendur fengið mynd af sér með jólasveini auk þess sem boðið er upp á heitt kakó og piparkökur.

Áhorfendur eru beðnir að klæða sig eftir veðri, koma vel skóaðir og með vasaljós en öll þessi atriði eru nauðsynleg til að hægt sé að njóta sýningarinnar til hins ítrasta.

Sýningin er hugsuð fyrir börn fjögurra ára og eldri en að sjálfsögðu eru öll velkomin. Athugið að gönguleiðin er þó ekki fær kerrum eða hjólastólum. Frítt er fyrir tveggja ára og yngri. Einnig er óskað eftir að hundar séu ekki með í för, bæði svo þeir trufli ekki sýninguna eða aðra gesti.

Miðasala verður auglýst þegar nær dregur.

Sjá viðburð á Facebook hér.