Almennar fréttir - 14.03.2025
Aðalfundur VR greiðir atkvæði um sameiningu við Leiðsögn
Á aðalfundi VR þann 26. mars 2025 verður kynnt tillaga að sameiningu VR og Leiðsagnar – félags leiðsögumanna sem síðan verður lögð fyrir fundinn til samþykktar. Samningur félaganna frá júní 2024 gerir ráð fyrir því að félögin sameinist að fengnu samþykki aðalfunda beggja á árinu 2025.
Markmiðið með sameiningunni er að styrkja stöðu starfsfólks í ferðaþjónustu en sú atvinnugrein hefur stækkað gríðarlega síðustu ár. Það er því mikilvægt að til staðar séu öflug stéttarfélög fyrir það starfsfólk sem þar er. Sjá spurningar og svör um sameininguna.
Um Leiðsögn – félag leiðsögumanna
Leiðsögn er fag- og stéttarfélag sem hefur það að markmiði að efla samstöðu meðal leiðsögufólks og vinna að bættum kjörum, menntun og fagmennsku. Mikill meirihluti félagsfólks í Leiðsögn, eða um 900, er sjálfstætt starfandi. Leiðsögufólk starfar samkvæmt kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins og mun áfram fylgja þeim samningi, þó af sameiningu við VR verði.
VR hefur á undanförnum tveimur áratugum sameinast nokkrum verslunarmannafélögum á landsbyggðinni. Sameining við Leiðsögn, verði hún samþykkt, er hins vegar frábrugðin fyrri sameiningum að því leyti að í Leiðsögn er félagsfólk sem sinnir starfi sem ekki hefur áður fallið undir hagsmunabaráttu félagsins.
Af hverju sameining VR og Leiðsagnar?
Nú þegar eru um fimm þúsund VR félagar starfandi í ferðaþjónustu við margvísleg störf, eða um 17% allra sem starfa í greininni. VR telur mikilvægt að starfsfólk í ferðaþjónustu eigi aðild að sterkum stéttarfélögum. Sameining styrkir ekki bara stöðu leiðsögufólks heldur alls launafólks í greininni, óháð starfi.
Ferðaþjónustan stækkar hratt og breytingar á störfum innan hennar eru mjög örar og umfangsmiklar. Leiðsögn er lítið félag sem ekki hefur burði til að berjast fyrir stöðu launafólks í atvinnugreininni eins og þörf er á. VR er hins vegar stærsta stéttarfélag landsins og getur í krafti stærðar sinnar staðið betur vörð um réttindi starfsfólks í ferðaþjónustu og barist fyrir betri kjörum þess. VR getur sinnt hagsmunagæslu fyrir leiðsögufólk á sama hátt og það gerir fyrir annað félagsfólk innan félagsins.
Næstu skref
VR hefur annast rekstur Leiðsagnar frá því í júní á síðasta ári. Kjaramálasvið VR hefur veitt leiðsögufólki þjónustu varðandi kjaratengd mál og réttindi á vinnumarkaði og þjónustusvið félagsins hefur stutt við það að öðru leyti frá þeim tíma.
Tillaga um sameiningu verður lögð fyrir aðalfund VR þann 26. mars næstkomandi. Verði sameiningin samþykkt á aðalfundinum sem og hjá Leiðsögn mun hún taka gildi frá og með 1. maí á þessu ári.