Almennar fréttir - 07.11.2020
Að gefnu tilefni
Sá ógeðfelldi gjörningur gegn grandalausum félagsmönnum VR átti sér stað í vikunni sem leið að skiptastjóri þrotabús bakarískeðjunnar Jóa Fel, sendi fyrrum starfsfólki fyrirtækisins lögfræðibréf þar sem fólki var gert að gera grein fyrir meintum skuldum þess við fyrirtækið/þrotabúið. Það þarf engin/n að velkjast í vafa um hversu íþyngjandi það er fyrir venjulegt fólk að fá lögfræðibréf með þessum hætti þar sem fullyrt er að viðkomandi skuldi án þess að fyrir því séu nokkrar sannanir eða kvittanir.
Þessi aðferð er með þeim ógeðfelldari sem við í VR höfum orðið vitni að.
Tilraunir skiptastjóra til að koma sönnunarbyrði og sinni lögboðnu vinnu yfir á fyrrum starfsfólk fyrirtækisins er ömurleg og verður svarað af fullri hörku.
VR vill koma þeim skilaboðum til þeirra starfsmanna sem fengið hafa slík bréf að svara þeim ekki, heldur koma þeim á skrifstofu okkar þar sem lögmenn félagsins munu taka við málinu. Einnig munum við senda kvörtun á dómstóla sem skipuðu viðkomandi skiptastjóra.
Þá eru frekari aðgerðir einnig til skoðunar hjá félaginu.
Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.