Vr2149safn

Almennar fréttir - 28.02.2025

70 ár frá því VR varð stéttarfélag launafólks

Þann 28. febrúar árið 1955 var aðalfundur Verzlunarmannafélags Reykjavíkur haldinn. Á fundinum var samþykkt sú breyting á lögum félagsins að eingöngu launafólk ætti að því aðild. Þessi samþykkt markaði tímamót í sögu VR sem þá varð stéttarfélag launafólks, atvinnurekendur gengu út úr félaginu rúmlega 60 árum eftir að það var stofnað.

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur var stofnað árið 1891 af bæði launafólki og atvinnurekendum með það að markmiði að efla samstöðu verslunarstéttarinnar. Tillaga að breytingu á þá vegu að í VR yrði eingöngu launafólk var fyrst lögð fram á félagsfundi árið 1950 þegar skorað var á stjórnina að „undirbúa skiptingu félagsins þannig að í V.R. verði eftirleiðis aðeins launþegar“ eins og fram kemur í Afmælisriti VR sem gefið var út í tilefni af aldarafmæli félagsins 1991.[1]

Skiptar skoðanir voru innan VR um hver næstu skref ættu að vera og var m.a. tekist á um hvernig eignum félagsins skyldi skipt við slíka breytingu. Stjórn VR og nefnd skipuð af atvinnurekendum í félaginu komu sér loks saman um að leggja fram tillögu á aðalfundi 1955 um skiptingu eigna, sem væri háð því að atvinnurekendur gengju úr félaginu. Tillagan hljóðaði svona:

„Fundurinn samþykkir að afhenda Verzlunarskóla Íslands fasteign félagsins við Tjarnargötu og kr. 400.000 í skuldabréfi til 10 ára, tryggðu með veði í húseign félagsins í Vonarstræti 4, næst á eftir áhvílandi veðskuldum, og heimilast stjórn félagsins að skrifa undir afsal og önnur skjöl í því sambandi.

Samþykkt þessi um ofangreinda eignaafhendingu er því skilyrði háð, að samþykktar verði lagabreytingar um það, að atvinnurekendur í félaginu hverfi af félagaskrá.“[2]

Þáverandi formaður VR, Guðjón Einarsson, sagði stjórn telja rétt að „um leið og atvinnurekendur hverfi úr félaginu af frjálsum vilja, þá láti V.R. eitthvert framlag af hendi rakna til menningarstofnunar, sem allir ættu að geta sameinast um.“[3] Verzlunarskólinn var stofnaður af VR og Kaupmannafélaginu árið 1905 til að auðvelda fólki að afla sér menntunar á sviði verslunar.

Eftir umræður og skoðanaskipti var tillagan samþykkt með meginþorra atkvæða. Í dag, 28. febrúar 2025, eru því 70 ár frá því VR varð hreint stéttarfélag launafólks.

VR þá og í dag

Á stofnfundi VR 1891 gengu 33 í félagið, verslunarþjónar að meirihluta eins og segir í Afmælisriti VR, en einnig atvinnurekendur. Þá var öllum sem unnu við verslun eða voru forstöðumenn verslunar heimilt að ganga í félagið. Í dag eru um 40 þúsund félagar í VR, launafólk sem starfar við ýmis störf á almennum vinnumarkaði.

[1] Afmælisrit VR, Saga  Verzlunarmannafélags Reykjavíkur 1891-1991, 1. bindi, höfundur Lýður Björnsson, bls. 189.
[2] Afmælisrit VR, bls. 192.
[3] Afmælisrit VR, bls. 193.

Myndin er úr myndasafni VR.