Aðalfundur VR, sem haldinn var miðvikudaginn 26. mars 2025, samþykkti tillögu stjórnar félagsins um sameiningu við Leiðsögn – félag leiðsögumanna. Leiðsögn hefur einnig samþykkt sameininguna fyrir sitt leyti og er stefnt að því að félögin sameinist frá og með 30. apríl 2025. Sjá frétt hér.
Hér að neðan eru nokkrar spurningar og svör sem félagið tók saman í aðdraganda aðalfundar.
Spurt og svarað um sameiningu VR og Leiðsagnar
-
Leiðsögn – félag leiðsögumanna var stofnað í júní árið 1972 með það að markmiði meðal annars að efla samstöðu meðal leiðsögumanna. Hlutverk félagsins er að vera samstarfsvettvangur og stéttarfélag leiðsögumanna í ferðaþjónustu á Íslandi, gæta hagsmuna þeirra og vinna að því að efla menntun og menntunarmöguleika leiðsögumanna. Leiðsögn er því bæði fag- og stéttarfélag (sjá hér lög Leiðsagnar og vefsíðu félagsins).
Innan Leiðsagnar eru nú um 1.200 félagar, þar af eru um 900 sjálfstætt starfandi en um 300 starfa við leiðsögn hjá ýmsum fyrirtækjum í greininni. Leiðsögumenn eru flestir faglærðir sérfræðingar á sínu sviði og innan félagsins starfa ýmsir faghópar leiðsögufólks.
Leiðsögufólk starfar samkvæmt kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins og mun áfram fylgja þeim samningi, þó af sameiningu við VR verði.
Nánar er fjallað um sögu Leiðsagnar í 50 ára afmælisriti félagsins, sjá hér.
-
Ferðaþjónustan hefur stækkað ört á Íslandi síðustu mánuði en nú starfa um 27 þúsund einstaklingar í einkennandi greinum ferðaþjónustu, s.s. á ferðaskrifstofum, veitingastöðum, í gistiþjónustu, samgöngum, afþreyingu, gjafavöruverslunum o.fl. Um fimm þúsund VR félagar starfa í greininni, í fjölbreyttum störfum. VR telur mikilvægt að starfsfólk í ferðaþjónustu eigi aðild að sterkum stéttarfélögum. Sameining styrkir ekki bara stöðu leiðsögufólks heldur alls launafólks í greininni, óháð starfi.
Leiðsögn er lítið félag sem ekki hefur burði til að berjast fyrir stöðu launafólks í atvinnugreininni eins og þörf er á. VR er hins vegar stærsta stéttarfélag landsins og getur í krafti stærðar sinnar staðið betur vörð um réttindi launafólks í ferðaþjónustu og barist fyrir betri kjörum þess. Enn fremur hefur vilji félagsfólks Leiðsagnar staðið til þess að sameinast VR.
VR getur sinnt hagsmunagæslu fyrir leiðsögufólk á sama hátt og það gerir fyrir annað launafólk innan félagsins. Það er að mati félagsins mikilvægt að til staðar séu sterk stéttarfélög til að gæta að réttindum starfsfólks í ferðaþjónustu.
-
Sameining VR og Leiðsagnar mun ekki hafa bein áhrif á félagsfólk í VR. Engar breytingar verða á þjónustu við félagsfólk, réttindum þeirra í sjóðum eða öðru sem varðar stöðu þess í félaginu. Árleg fjölgun félagsfólks í VR, án sameininga, hefur síðustu ár verið um eitt þúsund sem er svipaður fjöldi og nú er í Leiðsögn. Fjölgun félagsfólks hefur einkum áhrif á orlofssjóð og VR varasjóð þegar litið er til sjóða félagsins. VR hefur á undanförnum árum fjölgað orlofshúsum í takt við fjölgun félagsfólks og mun halda því áfram. Engar breytingar verða á úthlutun orlofshúsa félagsins við sameiningu. Framlag til VR varasjóðs hefur almennt verið aukið eftir því sem fjölgar í félaginu.
-
Félagsgjöld VR eru 0,7% af heildarlaunum og munu ekki breytast við sameiningu við Leiðsögn.
-
Það er mat VR að iðgjöld félagsfólks í Leiðsögn sem flyst í VR við sameiningu muni standa undir þeim kostnaði sem aukin þjónusta felur í sér. Leiðsögn á til eignir sem munu renna inn í VR og verða þær hluti af sjóðum VR.
-
Stofnuð verður deild leiðsögufólks innan VR, ef af sameiningu verður. Sama fyrirkomulag verður á þeirri deild og þeim deildum sem þegar eru starfandi innan félagsins, deildin kýs stjórn. Stjórnarseta í deildum VR er ólaunuð.
Hvað varðar áhrif á félagið mun sameining kalla á endurskoðun skipulags félagsins til lengri tíma litið. Stjórn VR hefur þegar ákveðið að vinna stefnumörkun félagsins til framtíðar, þar sem meðal annars verður skoðuð möguleg deildaskipting eftir starfsheitum, landsvæðum eða atvinnugreinum. Sameining við Leiðsögn, ef af henni verður, yrði hluti af þeirri stefnumótun.
-
VR hefur á undanförnum tveimur áratugum sameinast sjö verslunarmannafélögum á landsbyggðinni: á Akranesi, Austurlandi, Hvammstanga, Suðurnesjum, Suðurlandi, í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum. Í þeim tilfellum hefur verið um að ræða sameiningu félaga sem sinna félagsfólki í sömu atvinnugrein og sem starfar samkvæmt sama samningi.
Þessar sameiningar hafa styrkt VR í sinni hagsmunabaráttu og eflt þjónustu við starfsfólk í þeim atvinnugreinum og störfum sem falla undir kjarasamninga félagsins.
-
Sameining við Leiðsögn, verði hún samþykkt, er frábrugðin fyrri sameiningum VR og annarra verslunarfélaga að því leyti að hér er um að ræða launafólk sem sinnir starfi sem ekki hefur áður fallið undir hagsmunabaráttu félagsins og starfar ekki samkvæmt þeim kjarasamningum sem félagið hefur nú þegar við atvinnurekendur. Leiðsögufólk starfar samkvæmt kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins og mun áfram fylgja þeim samningi, þó af sameiningu við VR verði. Leiðsögufólk mun þannig ekki taka kjör eftir kjarasamningum VR við SA eða FA.
Kjarasamningur Leiðsagnar er frábrugðinn kjarasamningum VR í nokkrum veigamiklum atriðum, t.d. varðandi veikindarétt, uppsagnarrétt og orlofsrétt. Þetta hefur í för með sér önnur og minni réttindi leiðsögufólks í Sjúkrasjóð VR en réttindi í öðrum sjóðum verða þau sömu, verði af sameiningu.
Stærra og fjölbreyttara VR hefur aukinn slagkraft þegar kemur að gerð kjarasamninga og að fylgja eftir réttindum félaga.