Inngilding á vinnustað

Inngilding á vinnustað (e. workplace inclusion) er ferli þar sem allt starfsfólk, óháð bakgrunni, kyni, kynþætti, fötlun eða öðrum þáttum, er tekið inn í fyrirtækið á jöfnun grunni.
Inngilding felur í sér að tryggja að öll hafi aðgang að tækifærum og stuðningi og að hlustað sé á raddir þeirra.

Af hverju skiptir inngilding máli í fyrirtæki?

Inngilding á vinnustað skapar umhverfi þar sem öll geta blómstrað, aukið sköpunargáfu, bætt ákvarðanatöku og aukið starfsánægju. Að tryggja inngildingu er nauðsynlegt skref í að nýta fjölbreytileika til fulls sem aftur hefur jákvæð áhrif á árangur fyrirtækisins.

Eykur starfsánægju
Þegar starfsfólk upplifir að það tilheyri vinnustaðnum, sé metið að verðleikum og virðing sé borin fyrir þeim er mun líklegra að það sé ánægt í starfi. Þetta eykur frammistöðu í starfi og minnkar starfsmannaveltu á vinnustaðnum.

Hefur áhrif á sköpunargáfu og nýsköpun
Fjölbreytni í hópnum getur leitt til nýrra hugmynda og lausna. Fólk með mismunandi bakgrunn og sjónarhorn hefur oft þekkingu og reynslu sem getur hjálpað til við framkvæmd nýrra hugmynda og lausna sem stuðla að framþróun fyrirtækis. Aðferðir inngildingar tryggja að allar raddir fái að heyrast.

Betri ákvarðanataka
Fjölbreyttur og inngildur hópur fólks getur tekið betri og samheldnari ákvarðanir. Þar eru mismunandi sjónarhorn tekin með í reikninginn.

Aukið traust og samstarf
Þegar starfsfólk finnur fyrir því að það sé virkir þátttakendur skapast traust og samheldni innan hópsins. Þetta eykur samstarf og stuðlar að betri teymisvinnu.

Bætt ímynd fyrirtækisins
Inngilding getur styrkt ímynd fyrirtækisins þar sem hún sýnir að fyrirtækið virði fjölbreytileika og er opið fyrir öllum. Þetta getur haft jákvæð áhrif á viðskiptavini og samstarfsaðila.

Hvernig tryggja fyrirtæki inngildingu?

Inngilding í atvinnulífinu á Íslandi snýst um að tryggja að allt starfsfólk, óháð bakgrunni, kyni, kynþætti, kynhneigð, fötlun eða öðrum þáttum, fái jöfn tækifæri til að taka þátt og þróast á vinnustaðnum. Starfsfólk þarf að upplifa að það sé raunverulega hluti af vinnustaðnum og tilheyri. Hér eru nokkrar leiðir sem fyrirtæki geta farið til að tryggja inngildingu á vinnustaðnum.

Stefnumótun og leiðbeiningar
Fjölmenningarsetur hefur þróað verkfæri og leiðbeiningar fyrir atvinnurekendur til að styðja við inngildingu og fjölbreytileika á vinnustöðum.

Fræðsla og þjálfun
Fyrirtæki sem leggja áherslu á fræðslu og þjálfun starfsfólks um mikilvægi inngildingar og fjölbreytileika stuðla að betri skilningi og samvinnu á vinnustaðnum. Hér á landi starfa sérfræðingar á þessu sviði sem geta komið inn í fyrirtæki og haldið fyrirlestur eða námskeið.

Móttaka erlends starfsfólks
Fyrirtæki sem vilja taka vel á móti erlendu starfsfólki geta boðið upp á stuðning við rótfestu til að auðvelda því samlögun í nýju vinnuumhverfi. Einnig væri æskilegt að bjóða upp á íslenskunámskeið fyrir starfsfólk á vinnutíma. Best er að vera með skýra áætlun um hvernig standa eigi að móttöku starfsfólks.

Jafnréttisáætlanir
Margar stofnanir og fyrirtæki hafa jafnréttisáætlanir sem miða að því að tryggja jöfn tækifæri fyrir allt starfsfólk og vinna markvisst gegn mismunun. Slíkar áætlanir miða að því að gefa einstaklingum tækifæri til starfsþróunar í fyrirtækinu. Jafnréttisáætlanir eiga einnig við um erlent starfsfólk.

Menningarnæmi
Fyrirtæki sem leggja áherslu á menningarnæmi, sem felur í sér að skilja og virða menningarmun, stuðla að jákvæðum samskiptum milli starfsfólks af ólíkum uppruna. Það væri upplagt fyrir fyrirtæki að bjóða reglulega upp á námskeið í menningarnæmi fyrir starfsfólk og stjórnendur.