Hvað geta fyrirtæki gert?

Til að bregðast við auknum fjölda erlends starfsfólks þurfa fyrirtæki að þróa heildstæða stefnu sem tekur mið af inngildingu, fjölbreytileika og menningarnæmi. Hér eru nokkur lykilatriði sem fyrirtæki geta haft í huga.

Inngilding og fjölbreytileiki
Fyrirtæki ættu að leggja áherslu á inngildingu og fjölbreytileika með því að skapa vinnuumhverfi þar sem allt starfsfólk, óháð uppruna, finnur fyrir virðingu og stuðningi.

Þetta felur í sér að:

  • Þróa stefnu um fjölbreytileika og inngildingu sem er innleidd á öllum stigum fyrirtækisins
  • Fræða stjórnendur og starfsfólk um mikilvægi fjölbreytileika og inngildingar og hvernig mismunandi menningarheimum er tekið á vinnustaðnum.

Tungumálakunnátta
Að bjóða upp á tungumálakennslu fyrir erlent starfsfólk er grundvallaratriði til að auðvelda samskipti og rótfestu:

  • Íslenskunám á vinnutíma getur hjálpað erlendu starfsfólki að samlagast betur íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.
  • Fræðsla um íslenska vinnustaðamenningu og reglur er einnig mikilvæg til að tryggja að erlent starfsfólk skilji réttindi sín og þær skyldur sem fylgja starfinu.

Jafnrétti í ráðningum og starfsþróun
Fyrirtæki ættu að tryggja að ráðningarferli, móttaka nýliða og starfsþróunarmöguleikar séu aðgengilegir fyrir allt starfsfólk:

  • Jafnrétti í ráðningarferli þar sem allir umsækjendur fá sömu tækifærin óháð uppruna.
  • Starfsþróun og fræðsla ætti að vera aðgengileg fyrir allt starfsfólk, með sérstaka áherslu á þarfir erlends starfsfólks sem og innfæddra Íslendinga. Hér er gagnkvæm inngilding mjög mikilvæg.
  • Viðbragðsáætlanir ættu að vera til staðar um hvernig það eigi að takast á við kvartanir um mismunun og tryggja að þær séu teknar alvarlega.

Stuðningur og rótfesta
Fyrirtæki ættu að veita stuðning við rótfestu erlends starfsfólks með því að:

  • Bjóða upp á stuðningskerfi eins og mentorakerfi þar sem reyndara starfsfólk aðstoðar nýliða.
  • Skipuleggja félagslega viðburði sem stuðla að betri tengslum milli starfsfólks af mismunandi uppruna. Mikilvægt er að valdefla fólk af erlendum uppruna og hvetja til fjölbreyttra félagslegra viðburða.

Tæknilausnir

  • Huga að og nýta tæknilausnir til að auðvelda samskipti og fræðslu.
  • Rafræn samskiptatæki og fræðsluforrit geta hjálpað erlendu starfsfólki að tengjast og samlagast vinnustaðnum og læra nýja hæfni. Þetta eykur aðgengi að upplýsingum og stuðlar að betri samlögun.