Alþjóðlegir samningar, eins og samningurinn um frjálst flæði vinnuafls innan Evrópusambandsins og Evrópska efnahagsvæðisins, hafa gert það auðveldara fyrir fólk að flytja milli landa til að vinna. Þessi aukni hreyfanleiki hefur haft mikil áhrif á íslenskan vinnumarkað og samfélag.
Nokkrar sveiflur hafa einkennt fjölda erlends launafólks á Íslandi síðustu áratugi, sérstaklega vegna efnahagshrunsins 2008 og covid faraldursins. Eftir efnahagshrunið fjölgði erlendu starfsfólki verulega, sérstaklega frá Austur-Evrópu. Eftir hrun fækkaði innflytjendum nokkuð en í kjölfar faraldursins hefur eftirspurn eftir erlendu starfsfólki aukist jafnt og þétt. Langstærstur hluti erlends starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði er frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins. Flestir innflytjendur eru á aldrinum 25-49 ára og hlutfallslega fáir teljast til barna, ungmenna og eldri borgara.
Fjórði hver á íslenskum vinnumarkaði árið 2024 var innflytjandi. Innflytjendur manna mörg þau störf sem erfitt hefur reynst að manna með innlendu vinnuafli. Þeir greiða skatta, taka þátt í atvinnulífinu og stuðla að hagvexti með því að auka framleiðni og neyslu. Fræðimenn hafa bent á að þegar innflytjendum í dæmigerðu OECD landi fjölgar um 0,1% aukist verg landsframleiðsla (VLF) á mann um 0,25% fyrsta árið og nær hámarki ári eftir aðflutninginn með 0,31% aukningu. Innflytjendur á Íslandi hafa almennt mjög háa atvinnuþátttöku þegar litið er til OECD ríkja, atvinnuþátttaka innflytjenda á Íslandi er um 89% sem er hærra hlutfall en hjá innfæddum sem er um 84%. Rannsóknir á vegum OECD sýna að í mörgum löndum duga skatttekjur innflytjenda til að greiða fyrir þann kostnað sem hið opinbera hefur lagt út vegna dvalar þeirra.
Erlent starfsfólk kemur með nýja þekkingu, reynslu og hugmyndir sem geta auðgað vinnustaðamenningu og stuðlað að nýsköpun. Innflytjendur starfa innan tæknigeirans, í landbúnaði, verslun og þjónustu, heilbrigðisþjónustu og á sviði orkumála svo eitthvað sé nefnt. Innflytjendur hafa stofnað fyrirtæki, allt frá litlum fjölskyldufyrirtækjum til stórfyrirtækja, og skapað þannig atvinnu. Fjölmargir nýir veitingastaðir innflytjenda hafa litið dagsins ljós og margar verslanir selja nú matvöru sem ekki var fáanleg á Íslandi áður fyrr, og svo mætti lengi telja.
Erlent starfsfólk hefur ekki bara áhrif á atvinnulífið heldur einnig á mótun íslensks samfélags. Innflyjendur stuðla að aukinni fjölbreytni og menningarlegum auð. Þeir koma úr ólíkum menningarheimum, tala mismunandi tungumál og búa að öðrum siðum sem getur auðveldað skilning og virðingu milli ólíkra hópa.
Innflytjendur eru nú ómissandi hluti af íslenskum vinnumarkaði og munu áfram gegna lykilhlutverki í að mæta eftirspurn eftir vinnuafli. Í skýrslu forsætisráðherra fyrir Alþingi á síðasta löggjafarþingi er vísað í mat OECD á efnahagslegum áhrifum fólksflutninga. Samkvæmt rannsóknum eru áhrif fólksflutninga á landsframleiðslu á mann jákvæð til lengri tíma og gera má ráð fyrir að svo verði einnig hér á landi að mati OECD. Stofnunin áætlar að með fólksflutningnum verði landsframleiðsla 6,5% meiri árið 2030 en ella og 10,4% árið 2040.
Það er mikilvægt að tryggja að innflytjendur á vinnumarkaði fái sanngjörn kjör og stuðning til að ná rótfestu í samfélaginu. Tökum vel á móti erlendu starfsfólki og tryggjum að það fái sömu tækifæri og innfæddir.