Erlent félagsfólk

VR telur brýnt að auka umræðuna um málefni launafólks af erlendum uppruna í samfélaginu. Það er mikilvægt að við öll, hvaðan sem við komum, vinnum saman að því að efla samfélagið og auðga það. Ávinningurinn er mikill og skiptir okkur öll máli. Að tilstuðlan jafnréttis- og mannréttindanefndar VR hleypir félagið nú af stokkunum auglýsingaherferð sem minnir okkur á að öll viljum við tilheyra sama samfélaginu.

Á Íslandi eru um 80 þúsund erlendir ríkisborgarar samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eða um fimmtungur af íbúafjölda landsins. Einn af hverjum fjórum á vinnumarkaði er innflytjandi, samkvæmt tölum frá Hagstofu en um 17% VR félaga er með erlent ríkisfang. Þróunin undanfarna tvo áratugi hefur verið hröð, á árinu 2005 var um 1% félagsfólks VR með erlent ríkisfang og 7% starfandi á vinnumarkaði voru innflytjendur.

VR leggur áherslu á að efla erlent félagsfólk sitt með það að markmiði að auka þekkingu þeirra á réttindum á vinnumarkaði, fækka brotum gegn þeim og styrkja stöðu þeirra. Það hefur félagið gert síðustu mánuði með auknum sýnileika, öflugum vef á ensku, bættri upplýsingagjöf, námskeiðum og fræðslu, vinnustaðaeftirliti og kröftugri þjónustu sérfræðinga félagsins svo eitthvað sé nefnt.

Öll erum við með ótal spurningar um þjóðfélagið, vinnumarkaðinn og réttindi okkar – stundum sömu spurningarnar en stundum ólíkar. Tökum höndum saman og byggjum upp sterkt og öflugt þjóðfélag til framtíðar.

Textinn á síðunum er unninn í samstarfi við Jasminu Vajzovic Crnac hjá Izo ráðgjöf sem sérhæfir sig í ráðgjöf í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Jasmina hefur unnið að þessum málum í tuttugu ár og sat m.a. í stýrihópi um gerð grænbókar í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Þekktu þinn rétt

Hvað á ég að fá í laun?
Kjarasamningar VR kveða á um persónubundin laun en launataxtar samkvæmt kjarasamningum eru lágmarkstaxtar. Sjáðu meira hér. Á Mínum síðum er launareiknivél sem byggir á spálíkani VR og veitir upplýsingar um laun mismunandi starfa.

Uppsagnarfrestur?
Tímalengd uppsagnar miðast við þann rétt sem starfskraftur hefur áunnið sér hjá atvinnurekanda á þeim degi sem uppsögnin á sér stað. Sjá spurt og svarað um uppsagnir.

Hvað er frídagur verslunarmanna?
Frídagur verslunarmanna var fyrst haldinn árið 1894. Hann er stórhátíðardagur samkvæmt kjarasamningum VR en ekki er vinnuskylda á stórhátíðum. Sjá nánar hér.

Hvað er trúnaðarmaður?
Trúnaðarmaður er tengiliður starfsfólks við VR og atvinnurekandann. Hlutverk hans er að vera til staðar fyrir samstarfsfólk, auðvelda samskipti við atvinnurekanda, miðla upplýsingum og hafa eftirlit með því að kjarasamningar séu haldnir á vinnustaðnum og lög ekki brotin á starfsfólki. Sjá nánar hér.

Veikindaréttur?
Á fyrsta ári er veikindarétturinn tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð. Í veikindum á starfskraftur að fá þau laun sem hann annars mundi fá ef hann væri að vinna. Sjáðu hér spurt og svarað um veikindarétt.