Úthlutunarreglur Blævar

  • 1.1. Úthlutun geta þau ein hlotið sem hafa verið virk á vinnumarkaði og fullgildir félagar VR a.m.k. 24 mánuði, litið til sl. 36 mánuði, við úthlutun. Fullgildir félagar sem eru tímabundið frá vinnu, í allt að 12 mánuði, vegna fæðingarorlofs eða veikinda halda réttindum sínum. Þá má félagi ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár við úthlutun.

    1.2. Umsækjendur skulu vera orðnir 18 ára við skráningu á biðlista og 21 árs við úthlutun íbúðar.

    1.3. Til að geta sótt um íbúð þarf umsækjandi að vera með staðfesta skráningu á biðlista hjá Blævi.

  • 2.1. Við skráningu á biðlista þarf umsækjandi að greiða árlegt félagsgjald skv. gjaldskrá. Skráningu á biðlista þarf umsækjandi að staðfesta árlega með því að greiða félagsgjald samkvæmt gjaldskrá. Gjöld þessi eru óafturkræf. Staða umsækjanda á biðlista er fyrst virk þegar búið er að greiða félagsgjaldið og frá þeim tíma sem það er greitt. Sé félagsgjald ekki greitt árlega fellur umsækjandi af biðlista.
    2.2. Skráning á biðlista á sér stað með rafrænum hætti á Mínum síðum á vr.is.
    2.3. Farið skal með allar upplýsingar vegna skráningar á biðlista og þær upplýsingar sem aflað er vegna úthlutunar sem trúnaðarmál og hvílir þagnarskylda á starfsfólki Blævar og úrskurðarnefnd skv. 8. gr.
    2.4. Umsækjendur bera ábyrgð á að þeir uppfylli öll almenn skilyrði fyrir úthlutun skv. 1. gr. Umsækjendur bera einnig ábyrgð á því að veita og skrá réttar og fullnægjandi upplýsingar. Blær tekur ekki ábyrgð á ef rangt netfang, póstfang eða símanúmer hefur verið skráð og getur slíkt þýtt að skráning á biðlista falli niður og umsækjandi detti út af biðlista. Blær leitar ekki staðfestingar á atriðum eins og eignamörkum, stéttarfélagsaðild eða skráningu í Þjóðskrá fyrr en við úthlutun.
    2.5. Tveir biðlistar eru hjá félaginu: Annars vegar vegna nýrra leigutaka og hins vegar fyrir þá sem þegar eru leigutakar í félaginu en vilja flutning (flutningslisti). Til að geta skráð sig á flutningslista og óska eftir flutningi þarf leigutaki að hafa búið í húsnæðinu að lágmarki í tvö ár og uppfylla öll almenn skilyrði um úthlutun skv. 1. gr.
    2.6. Lægsta númer á báðum listum ræður úthlutun að teknu tilliti til herbergjafjölda og forgangs skv. gr. 4.
    2.7. Skráningum á biðlista er raðað upp í þeirri röð sem þær berast og virkjast þegar greiðsla félagsgjalds hefur verið innt af hendi.
    2.8. Undantekning á uppröðun er þó í upphafi þannig að skráningar til og með 16. júní 2024 fara í pott og verður umsækjendum raðað í handahófskennda númeraröð með útdrætti.
    2.9. Skráning á biðlista ein og sér nægir ekki til að fá úthlutað íbúð, heldur þarf umsækjandi að sækja um ákveðna íbúðartegund þegar félagið auglýsir íbúðir lausar til umsóknar.
    2.10. Umsókn um íbúð. Þegar íbúðir eru lausar til umsóknar fá þeir félagar sem eru á biðlista  tölvupóst með nánari upplýsingum. Ef íbúðin samræmist fjölskyldustærð félagans (sjá 4. gr.) þá getur viðkomandi sótt um íbúð með rafrænum hætti á Mínum síðum á vr.is. Þar heimilar umsækjandi Blæ, komi til úthlutunar, að sækja nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja að viðkomandi uppfylli skilyrði úthlutunar skv. 1. gr.
    2.11. Ekki er heimilt að framselja sæti/stöðu á biðlista.
    2.12. Öll samskipti umsækjanda og Blævar fara fram með rafrænum hætti á það netfang sem umsækjandi skráir. Hafi umsækjandi athugasemdir við mat Blævar skal hann skila skriflegri athugasemd til úrskurðarnefndar Blævar vrblaer@vr.is, innan sjö daga frá því hann fær staðfestingu á mati frá Blævi eða frá því að úthlutun var gerð.
    2.13. Skráningu er hafnað í neðangreindum tilfellum og skal umsækjandi upplýstur um ástæðu höfnunar:
    2.13.1. Heimilt er að hafna skráningu ef hún er talin ófullnægjandi á einhvern hátt  eða ef upplýsingar sem þar koma fram reynast rangar. Umsækjandi hefur þá rétt til áfrýjunar sbr. grein 2.12.
    2.13.2. Ef umsækjandi uppfyllir ekki skilyrði 1. gr.
    2.13.3. Ef umsækjandi er í vanskilum við Blæ.
    2.13.4. Heimilt er að hafna skráningu hafi umsækjanda verið vísað úr leiguhúsnæði Blævar vegna brota á reglum.

  • 3.1. Þegar til stendur að úthluta umsækjanda íbúð staðfestir Blær að umsækjandi uppfylli öll skilyrði um úthlutun, samanber 1. gr. um almenn skilyrði fyrir úthlutun og 4. gr. um viðmið um fjölda íbúa pr. íbúð. Komi í ljós við skoðun að umsækjandi uppfylli í reynd ekki öll skilyrði fyrir úthlutun, skal hann upplýstur um þá stöðu og fær ekki úthlutun. Hafi umsækjandi athugasemdir við mat Blævar skal hann skila skriflegri athugasemd til úrskurðarnefndar Blævar, vrblaer@vr.is, innan sjö daga frá því að matið liggur fyrir, ásamt öllum nauðsynlegum gögnum máli sínu til stuðnings.
    3.2. Við úthlutun íbúða velja umsækjendur íbúð í sínum stærðarflokki í þeirri röð sem þeir eru skráðir á biðlista.
    3.3. Hafi umsækjandi fengið úthlutað húsnæði skal hann staðfesta samþykki sitt innan sjö daga frá úthlutun og greiða staðfestingargjald samkvæmt gjaldskrá. Staðfestingargjald er óafturkræft ef umsækjandi hættir við en gengur annars upp í tryggingarfé skv. leigusamningi. Hafi staðfestingargjald ekki verið greitt innan tilskilins frests fellur úthlutunin niður en umsækjandi heldur þrátt fyrir það sínu sæti á biðlista.
    3.4. Komi í ljós eftir að leigusamningur er undirritaður að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt við skráningu eða með fylgiskjölum með henni reynast rangar og umsækjanda verið eða mátt vera kunnugt um að svo var, fellur úthlutunin úr gildi og er leigutaka skylt að kröfu Blævar að rýma húsnæðið innan 30 daga frá því að honum berst skrifleg áskorun þar um, hafi hann veitt íbúð viðtöku.
    3.4.1. Umsækjendur mega ekki hafa átt fasteign sl. fimm ár við úthlutun, samanber 1. gr. um almenn skilyrði fyrir úthlutun. Eignist íbúi í húsnæði Blævar fasteign eftir að leigusamningur er undirritaður ber honum að tilkynna það til Blævar sem hefur þá heimild til þess að taka málið til skoðunar og rifta leigusamningi ef nauðsyn þykir.
    3.5. Hafni efsti aðili á lista tilboði um úthlutun heldur hann sínum stað á biðlista.

  • 4.1. Stúdíóíbúðir og tveggja herbergja íbúðir. Barnlaus pör og einstaklingar geta fengið úthlutun á stúdíóíbúð eða tveggja herbergja íbúð.
    4.2. Fjölskylduíbúðir (3ja – 5 herbergja íbúðir). Umsækjendur með barn/börn geta fengið úthlutað 3ja til 5 herbergja íbúð. Ef barn er væntanlegt og því ekki skráð í Þjóðskrá, skal umsækjandi skila þungunarvottorði til skrifstofu Blævar. Að fengnu vottorði verður þannig hægt að fá úthlutaða íbúð í samræmi við væntanlega fjölskyldustærð. 

    Sjá nánar hér um tegund íbúða:

    Teg. íbúðar

    Úthlutun miðast við

    Fjöldi svefnherbergja

         

    2ja herb.

    Einstaklingur, barnlaus hjón/sambýlisfólk*

    1

    3ja herb.

    Einstætt foreldri með eitt barn eða fl., hjón/sambýlisfólk* með eitt barn eða fl.

    2

    4ra herb. 

    Einstætt foreldri með tvo börn eða fl., hjón/sambýlisfólk* með tvö börn eða fl.

    3

    5 herb.

    Einstætt foreldri með þrjú börn eða fl., hjón/sambýlisfólk* með þrjú börn eða fl.

    4

     

    *Þarf að vera skráð sambúð

     


    4.3.
    Umsóknum þar sem gert er ráð fyrir að fleiri en tvö séu í herbergi er hafnað, sbr. þó undantekningu í gr. 4.4.
    4.4. Umsækjendum með börn á leikskólaaldri er heimilt, þrátt fyrir gr. 4.2 og gr. 4.3, að sækja um minni íbúðir þar sem ekki er gert ráð fyrir að barn/börn hafi eigið herbergi. Hafa þarf þó í huga við slíka umsókn að þrátt fyrir að ákveðinn forgangur sé fyrir núverandi leigutaka um nýjar íbúðir þarf alltaf að reikna með töluverðum biðtíma til að fá stærri íbúð.
    4.5. Foreldri með sameiginlegt forræði barns/barna þar sem lögheimili barns/barna er skráð hjá hinu foreldrinu, getur verið á biðlista fyrir fjölskylduíbúð. Skila þarf inn staðfestingu frá sýslumannsembætti um sameiginlegt forræði. Að öðru leyti gilda upplýsingar frá Þjóðskrá við mat á fjölskyldustærð umsækjanda.
    4.6. Miðað er við fjölda barna þegar íbúð er úthlutað, bæði er varðar forgang við úthlutun og stærð íbúðar sem úthlutað er. Þetta á þó ekki við þegar börn umsækjenda hafa náð 20 ára aldri. Börn yfir 20 ára sem þurfa umönnun eða þjónustu vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar eða sjúkdóma fá þó áfram forgang sem börn umsækjanda. Skila þarf inn staðfestu örorkumati frá Tryggingastofnun eða læknisvottorði sem sýnir fram á að barnið þurfi slíkan stuðning vegna framangreinds og ljóst sé að um viðvarandi ástand sé að ræða
    4.7. Úthlutun af flutningslista skal fara fram með neðangreindum forgangi og fær flutningslisti fjórðu hverja íbúð sem úthlutað er.
    4.7.1. Þau sem eru í sama húsi, eru efst á biðlista ef stærð íbúðar hentar.
    4.7.2. Þau sem eru í öðru húsi og vilja flutning vegna skilnaðar, sambúðarslita eða andláts.
    4.7.3. Þau sem eru í öðru húsi og vilja flutning.
    4.8. Þeir umsækjendur sem ekki fá úthlutað eru áfram á biðlista.
    4.9. Ef ekki tekst að leigja íbúð af flutningslista skal færa hana inn á almennan biðlista. Ef ekki tekst að leigja íbúð af almennum lista er Blævi heimilt að leigja til umsækjanda sem ekki telst til forgangshóps og skulu félagar VR sem uppfylla að öðru leyti skilyrði 1. gr. ganga fyrir um leigu. Heimilt er að krefjast markaðsleigu í slikum tilfellum en leigusamningar skulu þó ekki vera til lengri tíma en til eins árs.

  • 5.1. Ekki seinna en mánuði fyrir afhendingu íbúðar skal umsækjandi undirrita leigusamning sem inniheldur nánari ákvæði um réttindi og skyldur leigutaka. Lyklar að húsnæði skulu einungis afhentir nýjum leigutökum gegn framvísun undirritaðs leigusamnings.
    5.2. Tryggingarfé er ígildi þriggja mánaða leigu. Tryggingarféð stendur til tryggingar á réttum efndum á leigusamningi, þ.e. fyrir leigugreiðslum, kostnaði sem fellur til við skil á íbúð og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi kann að bera ábyrgð á samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga. Blær varðveitir tryggingarfé í samræmi við ákvæði leigusamnings og laga nr. 36/1994. Leigutaki getur einnig valið að kaupa tryggingu í gegnum viðurkenndan aðila. Trygging skal liggja fyrir við undirritun leigusamnings. Tryggingarfé skal skilað eftir að úttekt hefur átt sér stað á húsnæðinu og lokauppgjör fer fram.
    5.3. Leigusamningar eru bundnir við nöfn þeirra sem fá viðkomandi húsnæði úthlutað. Leigutökum er algerlega óheimilt að skipta eða semja um skipti á íbúðum innbyrðis.
    5.4. Leigutaka er óheimilt að framleigja íbúðina eða hluta hennar nema með skriflegu samþykki Blævar. Framleiga er einungis heimil vegna sérstakra aðstæðna sem stjórn leggur mat á. Sýna þarf fram á með sannanlegum hætti að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Hámarks framleigutími er tvö ár og verður að vera eitt samfellt tímabil. Upphaflegur leigutaki ber áfram réttindi og skyldur samkvæmt lögum. Framleiga samkvæmt ákvæði þessu skapar framleigjanda ekki réttindi vegna íbúðar.
    5.5. Rétt til búsetu í hinu leigða hafa aðeins þau sem eru skráð á leigusamningi og fjölskylda leigutaka.

  • Gæludýrahald í íbúðum Blævar skal vera í samræmi við 33. grein laga um fjöleignarhús nr. 26 (1994). Samkvæmt þeim lögum er hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. Húsfélag eða húsfélagsdeild getur þannig með samþykki 2/3 hluta eigenda veitt annaðhvort almennt leyfi til hunda- og/eða kattahalds eða einstökum eigendum slíkt leyfi vegna tiltekins dýrs.

    Leggja skal fram skráningu/leyfi á skráningarskyldum gæludýrum. Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. Leigutakar skuldbinda sig til að fara eftir reglugerðum og reglum viðeigandi ráðuneytis, hollustuverndar og viðkomandi sveitarfélags um dýrahald. Óheimilt er að vera með hundategundir sem eru taldar hættulegar eða óæskilegar að fenginni reynslu eða mati sérfróðra aðila, s.s. dýralæknis, hundaþjálfara eða hundaeftirlitsfólks. Sjá nánar hér.

  • 7.1. Blær skal afhenda leigutaka húsnæði á fyrsta degi leigutímabils og fer samhliða fram afhendingarúttekt. Blær áskilur sér heimild til að seinka afhendingu í allt að 15 daga vegna óviðráðanlegra aðstæðna og án sérstakra bóta en lækkar leigugjaldið sem seinkuninni nemur. Tilkynna skal leigutaka væntanlega seinkun á afhendingu svo fljótt sem auðið er. Afhendingartími er jafnan milli kl. 11:00 og 15:00.
    7.2. Leigutaki skal skila húsnæði sínu hreingerðu og frágengnu ekki síðar en kl. 15:00 á skiladegi og samhliða fer fram skilaúttekt. Leigutaki skal vera viðstaddur úttekt. Geti leigutaki ekki verið viðstaddur úttekt skal hann skriflega tilnefna umboðsmann í sinn stað. Mæti hvorki leigutaki eða umboðsmaður við úttekt kunna skil að frestast á kostnað leigutaka. Dragi leigutaki skil húsnæðis fram yfir áður ákveðna tímasetningu skal hann greiða 3ja daga leigu fyrir hvern dag sem skilin dragast.

    Skili leigutaki húsnæði illa þrifnu er notast við ræstingaþjónustu og greiðir leigutaki reikninginn.

    Blær innheimtir skilagjald í lok leigu skv. gjaldskrá.

    Málningarvinna í leigulok er á kostnað leigutaka að teknu tilliti til notkunar og ástands.

    Uppgjör er gert við leigulok.

  • Úrskurðarnefnd skal starfa innan Blævar, skipuð þremur fulltrúum, tveimur frá VR og einum frá ASÍ. Nefndin skal skera úr öllum ágreiningsmálum sem upp koma varðandi mat á skráningu á biðlista og úthlutanir og er niðurstaða nefndarinnar endanleg. Um störf úrskurðarnefndar gilda almennar reglur stjórnsýslulaga eftir því sem við á.

  • Úthlutunarreglur þessar eru háðar samþykki stjórnar VR. Bera skal tillögur að breytingum á úthlutunarreglum Blævar undir stjórn VR til synjunar eða samþykkis.

Þannig samþykkt af stjórn VR þann 10. janúar 2024.