Vandi þriðju vaktarinnar er djúpstæður, flókinn og víðfeðmur. Vandinn liggur í sögulegri stöðu karla og kvenna, gildismati starfa og kynbundnum vinnumarkaði, hefðbundnum kvenleika- og karlmennskuhugmyndum, viðhorfum, hentisemi og vali einstaklinga og para.
Aukin meðvitund um samspil ólíkra þátta sem skapa og viðhalda ójafnri ábyrgð heima fyrir gerir einstaklinga líklegri til að taka ábyrgar ákvarðanir sem munu leiða af sér aukinn jöfnuð í samfélaginu almennt.
Hér fyrir neðan er verkfæri sem getur hjálpað ykkur að hefja samtalið!
HEIMA er skipulagssmáforrit fyrir fjölskylduna sem sér um verkaskiptingu og hugræna byrði heimilisins. Smáforritið útbýr yfirlit yfir heimilisverkin sem auðvelt er að sérhæfa að hverju heimili fyrir sig. HEIMA er væntanlegt á íslenskan markað á næsta ári en hér er hægt að fylgjast með og vera meðal þeirra fyrstu til að prófa.
Hvernig opna ég samtalið við maka minn/heimilisfólkið?
Líklega hafa flestar konur í gagnkynja sambandi gert tilraun til að fá makann sinn til að deila með sér ábyrgð á heimilis- eða fjölskylduhaldi með misjöfnum árangri. Til þess að eitthvað breytist þurfa pör að geta átt þetta samtal. Samtalið um það hver gerir hvað, samtalið um vaktirnar og byrðina. Það er margt sem getur staðið í vegi fyrir því að pör/hjón geti átt þetta samtal á farsælan hátt. Til dæmis getur samtalið verið triggerandi (stuðandi) fyrir þann aðila sem gerir minna heima. Þá er algengt að pör rífist um hluti sem tengjast heimilishaldi, hugrænu byrðinni og umönnun barna. Oft leiðir samtalið ekki af sér lausn heldur storm tilfinninga og ósætti.
Kannist þið við að eiga alltaf sama rifrildið og komast ekki upp úr hjólförunum?
Það er engin ein lausn til að jafna ábyrgð á hugrænu byrðinni. Jafnvel hinir bestu makar, jafnréttissinnaðir og virkir pabbar og vel meinandi manneskjur geta átt erfitt með að hlusta, skilja og taka hluta hugrænu byrðarinnar.
Reynsla fagaðila sýnir að ójöfn ábyrgð á heimilis- og fjölskylduhaldi og vangeta para til að ræða um hana er oftast ástæða ósættis, ágreinings og skilnaðar. Sum pör/hjón gætu notið góðs af því að vinna með samskipti til að geta átt samtalið og skilið hvort annað betur, hlustað betur á hvort annað án þess að tilfinningar þeirra ráði för. Það jafnar ekki einungis hugrænu byrðina, heldur eykur gæði sambandsins og stuðlar að jafnrétti í víðara samhengi.
Hvað með...
-
Staðalmyndir, einfaldaðar alhæfandi hugmyndir um hæfni og getu fólks sem tilheyrir tilteknum hópi t.d. kyni, beina fólki gjarnan í ákveðinn farveg. Þær hugmyndir að konur séu betur til þess fallnar að sýna umhyggju og sjá um börn og heimili styðja við að konur taki frekar að sér það hlutverk en karlar. Á meðan karlar eru gjarnan taldir skorta umhyggjusemi og natni við heimili. Þau sem ganga gegn hefðbundnum staðalmyndum, t.d. karlar sem taka aukna ábyrgð á heimilis- og fjölskylduhaldi og konur sem gegna fyrirvinnuhlutverki, mæta jafnvel andstöðu eða fordæmingu annarra.
Mikilvægt er að þekkja tilvist staðalmynda til þess að sporna gegn áhrifum þeirra. Fyrir einstaklinga getur verið einfaldast, þægilegast og auðveldast að falla inn í hefðbundin kynhlutverk í samræmi við staðalmyndir. En á sama tíma erum við þá að viðhalda og endurskapa sögulega stöðu karla og kvenna og festa hana í sessi. Festa í sessi til dæmis hver ber hugrænu byrðina.
-
Viðtekin gildi, viðhorf og hegðun í bland við skráð og óskráð viðmið er eitt af því sem skapar menningu á vinnustöðum og stofnunum. Menning er eðlilega ólík milli vinnustaða og jafnvel ólík milli eininga á sömu vinnustöðunum. Menningu er viðhaldið í samspili einstaklinga, samfélagsins og aðstæðna hverju sinni.
Nauðsynlegt er fyrir forsvarsfólk vinnustaða og stofnana að rýna reglulega í hvernig menningin stuðlar að eða kemur í veg fyrir jöfn tækifæri fólks. Stuðlar menningin raunverulega að jafnrétti og jöfnum tækifærum eða eru duldir þættir sem hindra það?
Mikilvægt er að körlum sé gert kleift að taka fæðingarorlof því það getur verið lykilþáttur í að jafna ábyrgð á annarri og þriðju vakt á heimilum. Íslenskir karlar eru jafnréttisþenkjandi og viljugir til að deila ábyrgð á uppeldi og fjölskylduhaldi en ein fyrirstaðan er menning á vinnustöðum þeirra. Skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar um fæðingarorlof varpaði ljósi á hvernig viðhorf samstarfsmanna og yfirmanna kann að hindra töku fæðingarorlofs. Karlar óttuðust þá jafnvel um stöðu sína ef þeir tækju fæðingarorlof, einkum lengra en lágmarkið.
Vert er að hafa augun opin fyrir kynjagildrum, óskráðum og ólaunuðum störfum eða hlutverkum sem falla oft á konur á vinnustöðum. Hlutverk sem er ekki hluti af starfslýsingu þeirra t.d. rita fundargerðir, sjá um fundarboðun, þjóna kaffi, sækja kaffi og bakkelsi, ganga frá eftir fundi, vökva blómin, kveikja á kertum og fleira í þeim dúr. Stundum óyrtar kröfur sem lenda á konum. Afleiðingin er ekki einungis sú að konur fara þá að sinna annarri og þriðju vaktinni á vinnustaðnum, sérhæfing eða -þekking þeirra smættuð á við jafningja þeirra heldur getur þessi staða greitt götu fyrir frekari undirskipun og áreitni.