Ólaunuð ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á heimilis- og fjölskylduhaldi er gjarnan kölluð þriðja vaktin eða hugræn byrði (e. mental load). Ósýnileg verkefni sem eru vanmetin og jafnvel álitið sjálfsagt að konur sinni frekar en karlar. Enda fellur þriðja vaktin, þessi hugræna byrði, margfalt þyngra á konur þótt þær séu í sambandi (með karli) eða í fullri vinnu. Konur standa þriðju vaktina og hugræna byrðin fellur á þær sem hindrar atvinnuþátttöku þeirra, framgang í starfi, veldur streitu, álagi og stuðlar að kulnun og er eitt helsta ágreiningsefni í gagnkynja parasamböndum.
Hugræna byrðin sem konur bera frekar en karlar er hindrun í vegi jafnréttis sem krefst frekari skoðunar og athygli. Á meðan ójafnvægi ríkir milli karla og kvenna inni á heimilum mun jafnrétti ekki nást fyrir utan það. Jafnrétti byrjar á heimilum okkar.
*Hugræn byrði getur fallið þyngra á hvaða einstakling sem er, óháð kyni eða sambúðarformi en algengast er að byrðin falli á konur í gagnkynja sambandi. Rannsóknir sýna að ójöfn verkaskipting er ekki jafn algeng meðal samkynja para og milli karla og kvenna í sambúð.
-
Fyrsta vaktin felur í sér launað starf utan heimilis. Atvinnuþátttaka karla er ívið meiri en kvenna en hvorutveggja er um eða yfir 80% hér á landi. Konur eru mun frekar í hlutastarfi en karlar og karlar eru mun frekar í áhrifastöðum en konur. Lengi vel var ekki ætlast til þess af konum að vinna utan heimilis heldur gert ráð fyrir að þær myndu sinna heimilisstörfum og börnum. Nú þegar konur sinna fyrstu vaktinni nánast til jafns við karla eimir þó enn eftir af því að þær sinni frekar heimili og börnum auk annarra ástvina. Konur eru jafnvel taldar hafa meiri áhuga á þessum verkum eða vera betur til þess fallnar en karlar.
-
Önnur vaktin felur í sér framkvæmd ólaunaðra daglegra eða tíðra starfa á heimili og í umönnun barna, fjölskyldumeðlima eða tengsla við vini og ættingja. Önnur vaktin snýr beint að framkvæmd þessara starfa sem falla mun oftar á konur en karla. Störf sem eru stöðugt endurtekin og krefjast tíma, orku og athygli.
Dæmi um verkefni annarrar vaktarinnar:
Heimili: þrífa, ryksuga, skúra, elda, þrífa ísskáp, vaska upp, tæma ruslið, sinna þvotti, skipuleggja skápa, laga hluti, kaupa inn fyrir heimilið, skipta á rúmum, vökva blóm og umpotta, sinna gæludýri.
Börn: gefa að borða, svæfa, baða, klippa neglur, þvo hár, auk annarrar umhirðu barna, græja nesti, sinna veiku barni, fara yfir föt barna, taka frá það sem er of lítið, græja leikskólatösku, græja æfingadót, skutla og sækja, gefa lyf og vítamín, bera krem á börn.
Fjölskylda og vinir: hlúa að eldri foreldrum, hlúa að veikum fjölskyldumeðlimum eða vinum, hringja í afa og ömmu, sinna barnabörnum til dæmis þegar þau fá ekki leikskólapláss, kaupa í matinn fyrir ættingja/vini og heimsækja ættingja/vini á spítala eða dvalarheimili, kaupa afmælisgjafir, hringja á afmælisdaginn.
-
Hugræn byrði (e. mental load)
Þriðja vaktin (hugræna byrðin) er ólaunuð og oft ósýnileg ábyrgð, yfirumsjón og verkstýring á þeim störfum sem tilheyra annarri vaktinni. Þriðja vaktin felur í sér hugrænt skipulag, áætlanir, að leggja á minnið hverju þarf að sinna, hvenær og hvernig, muna eftir að muna. Verkefni sem eru að megninu til huglæg og ósýnileg öðrum en krefjast orku og tíma þess sem þeim sinnir. Að standa þriðju vaktina er svolítið eins og að sinna öllum stjórnendastöðum í fyrirtæki en launalaust. Gegna stöðu starfsmannastjóra, birgðastjóra, mannauðsstjóra og eiga samskipti á milli þeirra og útdeila verkefnum. Þegar kona stendur þriðju vaktina eru verkefni er snúa að heimili, börnum og öðrum ástvinum þeim gjarnan ofarlega í huga sem speglast í því að þegar konur fá aukinn frítíma frá fyrstu vaktinni eða launuðu starfi verja þær gjarnan þeim tíma í ólaunuð störf sem tengjast heimili og umönnun barna og ástvina. Konur bera þungann af hugrænu byrðinni því þótt karlar stígi inn í framkvæmd heimilis- eða fjölskyldustarfa er ekki sjálfgefið að þeir taki ábyrgðina, hina hugrænu byrði.
Hver stendur þriðju vaktina á þínu heimili
og veit svörin við þessum spurningum?
Heimili
-
Hver ákveður hvenær þarf að þrífa ísskápinn?
-
Hvernig tæmist ruslakarfan inni á baði?
- Hversu oft þarf að vökva blómin? Og hvaða blóm mega ekki vera í suðurglugganum?
- Hvers vegna var ryksugað síðast? Hver minnti á það?
- Hvenær var skipt um á rúminu síðast?
- Hvar er jólapappírinn og límbandsrúllan?
- Hvernig verður þvotturinn hreinn?
- Hver keypti sprittkerti síðast?
- Hvar eru vegabréfin geymd?
- Hvaða nágranni er með aukalykla?
- Hvernig veistu hvað vantar í matinn?
- Hvernig fer cheeriosið úr sófanum?
- Hvers vegna er spegillinn inni á baði ekki kámugur?
- Hver dustaði púðana í sófanum?
- Hver þrífur ruslaskápinn og glösin undan tannburstunum?
- Hvers vegna fórstu út með ruslið síðast?
- Hvar er hitamælirinn geymdur?
- Hver tók kuskið undan stólfótunum?
- Hver hefur yfirsýn yfir fjármálin?
- Hver sinnir garðinum eða blómum fyrir utan?
- Hver þreif gluggana síðast?
- Á hvaða hitastigi er best að þvo handklæðin?
[Listinn er ekki tæmandi]
Spurningar sem pör geta spurt sig að hvað varðar þriðju vaktina
- Hver man eftir afmælisdögum fjölskyldu og vina?
- Hver ákveður hvað tengdapabbi á að fá í afmælisgjöf?
- Hver kaupir gjafir fyrir börn vina ykkar?
- Hver hringir og tékkar á heilsu ættingja og vina?
- Hver skipuleggur hittinga með fjölskyldu og vinum innan heimilis og utan?
- Hver hringir/sendir þegar þið þurfið aðstoð eða barnapössun frá vinum eða ættingjum?
- Hver fer með mat eða annað til veikra ættingja?
- Hver fer með ættingjum til læknis eða heimsækir á spítala?
Börn
- Hvað heita vinir barna þinna?
- Hvað heita leikskólakennarar barna þinna?
- Hver er tannlæknir barnanna?
- Hver sér um frístundakortið?
- Hvenær eru íþróttaæfingar?
- Hvaða föt og útifatnað þarf að endurnýja?
- Hvaða þvottaefni þola börnin þín?
- Hvaða krem á að nota á börnin og hvenær? og hversu oft?
- Hver skipuleggur afmæli og aðrar veislur innan heimilisins?
- Hver sér um að merkja og fylla á aukafötin á leikskólanum?
- Veistu hversu reglulega þarf að panta tíma hjá tannlækni, lækni eða í klippingu?
- Hvernig uppgötvaðirðu að barnið þitt er með ofnæmi/óþol?
- Hver pakkar fyrir fjölskylduna þegar farið er í ferðalög?
- Hver sér til þess að allt sé klárt fyrir ferðalag?
- Hvernig ákveður barnið þitt hvaða áhugamál það vill stunda?
- Hvernig veistu hvar barnið þitt er eftir skóla, þrátt fyrir að þú sért í vinnunni?
- Hvernig veistu hvaða ákvarðanir barnið þitt tekur í erfiðum aðstæðum?
- Hvert leitar barnið þitt fyrst, ef það er í vanda?
- Hver sækir veikt barn á leikskóla eða í skóla?
- Hvaða sólarvörn hentar þínu barni?
- Hver minnir barn á að lesa og gera heimavinnu?
- Hvaða vítamín taka börnin þín?
- Hver vaknar með veiku barni?
- Hver kaupir hárteygjur?
- Hver sækir í leikskólann?
- Hver skipuleggur barnaafmæli?
- Hver er í samskiptum við foreldra vina barna þegar þau leika saman?
- Hver endurnýjar dót barnsins? Hvers vegna eru ekki enn ungbarnabækur í herbergi 6 ára barnsins?
- Hver er oftast heima ef börnin eru veik?
- Hver sá um að græja leikskólapláss? En útiföt fyrir leikskólann?
- Hver keypti bílstól/kerru?
- Hver keypti afmælisgjöfina frá þér til barna vina þinna?
- Hvaða stærð af fötum nota börnin þín?
- Hvernig mundirðu eftir starfsdeginum á leikskólanum?
- Á hvaða dögum er skólasund?
- Hvaða skóstærð nota börnin þín?
- Hvert fóru fötin sem voru orðin of lítil fyrir börnin?
[Listinn er ekki tæmandi]
Af hverju erum við að tala um þetta?
Hugræn byrði hefur mikil áhrif á stöðu kvenna á vinnumarkaði, starfsval þeirra og atvinnuþátttöku. Krafan um sameiginlega ábyrgð kynjanna innan veggja heimilisins, bæði hvað varðar verkefnin og verkefnastjórnunina, er því mikilvægur þáttur í baráttu VR fyrir jafnrétti kynjanna.
Ólaunuð störf kvenna tilheyra svokölluðu umönnunarhagkerfi (e. care economy) sem er forsenda þess að önnur hagkerfi heimsins virki. Umönnunarhagkerfið felur m.a. í sér hin ólaunuðu störf sem þola ekki bið eins og umönnun barna og atriði er varða rekstur heimilis. Þar að auki má nefna umönnun aldraðra og veikra ættingja en slíkt fellur einnig þyngra á konur en karla. Þessi störf krefjast orku, tíma og framlags sem gjarnan er stórlega vanmetið.
Í samhengi við umönnunarhagkerfið sem konur bera að stærstu hluta uppi má sjá að ein af hverjum fjórum konum á Íslandi á aldrinum 50-64 ára veitir öldruðu, fötluðu eða veiku skyldmenni umönnun reglulega sem er lang hæsta hlutfallið í Evrópu. Til samanburðar er hlutfallið tæp 8% í Svíþjóð og tæp 2% í Danmörku. Þá eru konur í miklum meirihluta þeirra sem hafa leitað sér þjónustu í starfsendurhæfingu VIRK á sl. 10 árum eða tæplega 70% og mun hærra hlutfall kvenna en karla reiða sig á örorkulífeyri.
Hið sjálfsagða verkefni sem konum er ætlað að sinna, einkum í gagnkynja samböndum, að sjá um og bera ábyrgð á heimilis- og fjölskylduhaldi, getur valdið streitu, stuðlað að kulnun og hindrað framgang og þátttöku kvenna á vinnumarkaði. Þrátt fyrir að konur séu mun líklegri til að ljúka háskólaprófi eru þær sjö sinnum líklegri til að vera í hlutastarfi og ólíklegri en menn til að fá stöðuhækkun í starfi. Ósýnilega hugræna byrðin auk ólaunaðra verkefna í þágu heimilis og ástvina kemur oft í veg fyrir að konur skuldbindi sig stærri áskorunum í starfi. Það er áhugavert að skoða í samhengi við að frá því að lög um kynjakvóta voru sett á Íslandi árið 2010 hefur hlutfall kvenna sem stjórnarformenn fyrirtækja einungis hækkað um 1% og konur eru tæplega fjórðungur framkvæmdastjóra fyrirtækja.
Höfundar efnis eru Hulda Jónsdóttir Tölgyes, sálfræðingur og Þorsteinn V. Einarsson, kennari og MA í kynjafræði.