VR varasjóður sameinar í einn sjóð réttindi sem áður voru í mismunandi sjóðum og gefur félagsfólki möguleikann á því að nýta sjóðinn af meira frjálsræði og með meiri sveigjanleika en áður hefur verið. Í sjóðinn renna fjármunir úr Sjúkrasjóði VR og orlofssjóði sem áður voru nýtt til styrkja af ýmsu tagi.
Innlagnir og úttektir
Lagt er inn í varasjóðinn eftir aðalfund árlega. Stjórn VR leggur fyrir aðalfund tillögu að því hversu hátt hlutfall af iðgjöldum ársins á undan renni í varasjóð og er tekið mið af afkomu sjóðanna. Aðalfundur ákveður endanlega hlutfallið.
Hægt er að taka úr sjóðnum svo lengi sem inneign er til staðar. Greitt er út eftir hádegi á fimmtudögum og skal skila inn umsóknum eigi síðar en á miðvikudeginum á undan.
Einungis er lagt inn í sjóðinn einu sinni á ári (fljótlega eftir aðalfund félagsins) og uppfærist staða hvers og eins því þá. Til að taka út úr sjóðnum er best að skrá sig inn á Mínar síður og sækja þar um styrk. Fylgigögn þurfa að vera reikningur/greiðslukvittun útgefin af söluaðila með nafni félagsmanns og fyrir hvað verið er að greiða, veikindavottorð vegna heilsubrests, staðfesting á atvinnuleysi o.s.frv. Athugið að inneign í VR varasjóði er einungis hægt að nýta í þágu viðkomandi félagsmanns og ekki annarra fjölskyldumeðlima fyrir utan ef sótt er um vegna tómstunda barna undir 18 ára.
Greiðslur úr varasjóði eru almennt skattskyldar og er staðgreiðsla dregin af við úttekt. Við nýtum þó heimild RSK til skattfrjálsra styrkja, sjá hér.
Ef félagsmenn hætta í VR skerðist réttindainneign um 25% eftir 24 mánuði frá því að síðustu iðgjöld bárust og síðan samsvarandi ár hvert þar til réttindi eru að fullu fyrnd. Réttindi undir kr. 1.000 fyrnast þó í einu lagi.
Ávöxtun
Varasjóðurinn er venjulegur gengissjóður þar sem haldið er utan um inneign í einingum sem hafa ákveðið gengi. Við kaup skapast inneign á gengi þess dags þegar kaupin eiga sér stað. Afkoma sjóðsins og inneign hvers og eins breytist því með breytingum á gengi.
Dæmi:
Ef gengið er 100 á kaupdegi og keypt er fyrir 15.000 krónur fást 150 einingar. Ef ávöxtun sjóðsins er 5% og inneignin hefur staðið óbreytt er gengið orðið 105 að ári liðnu og inneign því:
Einingar x gengi = 150 x 105 = 15.750 krónur.