Þetta yfirlit á að gefa hugmynd um uppbyggingu menntakerfisins. Athugið þetta er ekki tæmandi listi og útskýringar á námi eru stuttar og byggja á opinberum gögnum.
Stærð kassana eiga ekki að sýna lengd eða umfang náms. Nánari útskýringar er að finna í lögum og reglugerðum viðkomandi námsleiða eða opinberum upplýsingum á vef hlutaðeigandi stofnana.
Einnig er bent á íslenska hæfnirammann þar sem hægt er að skoða dæmi um námslok og prófgráður eftir hæfniþrepum.
Smellið á heiti náms hér fyrir neðan til að sjá nánari upplýsingar.
Formlega framhaldsskóla- og háskólakerfið
Um menntunina
Einnig nefnt endurmenntun. Símenntunarnámskeið eru hvers konar námskeið sem sótt eru að loknu grunnnámi og hafinni atvinnuþátttöku. Námskeiðin miða að því að fólk geti bætt og endurnýjað þekkingu sína og hæfni. Þetta á við um eflingu á faglegu sviði sem og persónulegu sviði. Samantekt á símenntunarnámskeiðum í boði má meðal annars finna hér.
Inntökuskilyrði
Almennt eru ekki inntökuskilyrði, en þó geta verið undantekningar.
Framhald að loknu námi
Sum símenntunarnámskeið bjóða upp á grunn og framhaldsnámskeið.
Doktorspróf á háskólastigi
Um menntunina
Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið að minnsta kosti 180 ECTS einingum af skipulagðri námsleið á námsstigi/háskólaþrepi 3. Doktorspróf skal innihalda rannsóknarverkefni sem stenst alþjóðleg viðmið um doktorsverkefni.
Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði eru meistarapróf af stigi 2.1 eða 2.2 eða sambærilegt próf. Háskólar eða deildir geta krafist ákveðinnar lágmarkseinkunnar og sett sérstakar reglur um inntöku og hæfi nemenda.
Framhald að loknu námi
Í sumum fræðigreinum er hægt að halda áfram rannsóknum eftir útskrift úr doktorsnámi (postdoc).
Sjá nánar í Viðmið um æðri menntun og prófgráður í Stjórnartíðindum 2011.
Meistarapróf á háskólastigi
Um menntunina
Lokapróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið 90 – 120 ECTS einingum af skipulagðri námsleið á námsstigi/háskólaþrepi 2.2. Meistarapróf innihalda flest 30 ECTS eininga rannsóknarverkefni.
Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði eru bakkalárpróf (lokapróf af stigi 1.2). Að jafnaði er krafist fyrstu einkunnar.
Skólar eða deildir geta sett frekari skilyrði fyrir aðgangi að námi á stigi 2.2.
Framhald að loknu námi
Rannsóknatengt meistarapróf (MA/MSc) veitir aðgang að framhaldsnámi á þriðja námsstigi/þrepi. Skólar eða deildir geta krafist ákveðinnar lágmarkseinkunnar. Umfang rannsóknar og/eða lokaverkefnis skal vera a.m.k. 30 ECTS eininga.
Sjá nánar í Viðmið um æðri menntun og prófgráður í Stjórnartíðindum 2011.
Diplómanám á meistarastigi - Viðbótardiplóma
Um menntunina
Viðbótarpróf frá háskóla þar sem nemandi hefur lokið 30 – 120 ECTS einingum af skipulagðri námsleið á námsstigi/háskólaþrepi 2.1. Undir viðbótarpróf á meistarastigi falla próf sem annaðhvort hafa ekki rannsóknarverkefni eða verkefnin innihalda færri en 30 ECTS einingar
Inntökuskilyrði
Til að geta bætt við sig viðbótardiplóma er gerð krafa um að umsækjendur skulu hafa lokið bakkalárnámi í viðeigandi námsgrein. Inntökuskilyrði geta verið mismunandi eftir háskólum og deildum.
Framhald að loknu námi
Viðbótardiplómapróf getur veitt aðgengi að meistaranámi.
Sjá nánar í Viðmið um æðri menntun og prófgráður í Stjórnartíðindum 2011.
Bakkalárpróf á háskólastigi
Um menntunina
Menntun sem felur í sér kennslu í fræðigrein og mögulega þátttöku í vísindarannsóknum sem á að búa nemendur undir að gegna störfum sem krefjast fræðilegra vinnubragða, þekkingar og færni. Háskólar á Íslandi eru sjö og er fjöldi sérsviða af námsframboði töluverður. Til að öðlast gráðuna þarf að ljúka minnst 180 ECTS einingum. Að jafnaði svara 60 námseiningar til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegla alla námsvinnu nemenda. Yfirlit yfir háskóla á Íslandi má sjá hér.
Inntökuskilyrði
Sú meginregla gildir að nemendur sem hefja nám í háskóla skulu hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu prófi innanlands eða erlendis. Háskólum er heimilt að taka inn nemendur sem lokið hafa ákveðnum lágmarksfjölda eininga í framhaldsskóla og hafa öðlast næga reynslu og þekkingu á vinnumarkaði til að uppfylla inntökuskilyrði í grunnnám að mati viðkomandi háskóla. Þó skal tryggt að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum erlendum háskólum á sambærilegu sviði. Í lögum um háskóla er jafnframt heimilað að setja sérstök inntökuskilyrði fyrir þá sem hefja nám í háskóla, t.d. með því að láta nemendur, sem uppfylla framangreind skilyrði, gangast undir inntökupróf eða stöðupróf.
Framhald að loknu námi
Að loknu bakkalárprófi getur nemandi sótt um að hefja nám á öðru háskólaþrepi þar sem eru tvö stig, fyrra stigið er viðbótarpróf á meistarastigi og seinna stigið er meistarapróf. Gert er ráð fyrir að nemandi fari inn á námsleið sem byggir á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem hann hefur öðlast í námi á fyrsta háskólaþrepi.
Sjá nánar í Viðmið um æðri menntun og prófgráður í Stjórnartíðindum 2011.
Diplómanám á háskólastigi
Um menntunina
Námið er á stigi 1.1 í háskóla og við lokapróf hefur nemandi lokið 30 – 120 ECTS háskólaeiningum af skipulagðri námsleið á fyrsta námsstigi/þrepi. Háskólanámi er skipt á þrjú þrep, sjá nánar hér. Þessar námsleiðir eru oft hagnýtar og tengdar störfum á vinnumarkaði. Nokkrir háskólar bjóða upp á slíkar leiðir og er námsframboð mjög breytilegt. Mælt er með að nota leitarorðin hagnýtt diplómanám eða grunndiplómapróf á vefum skólanna við leit að námi.
Nýlega hafa nokkrir háskólar boðið upp á fagháskólanám með atvinnutengd námslok sem eru á milli 60-90 ECTS einingar. Einkennandi fyrir fagháskólanám er skipulag og uppbygging námsins og náin tengsl við atvinnulífið þar sem starfsmenntun og sérþekking er viðurkennd sem hluti af inntökuskilyrðum í námið.
Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða önnur sambærileg próf. Einstakir skólar eða deildir geta gert sérstakar kröfur um samsetningu stúdentsprófsins og jafnvel starfsreynslu.
Framhald að loknu námi
Grunndiplómapróf getur veitt aðgengi að bakkalárnámi, námstigi 1.2. Einstakir háskólar eða deildir geta gert sérstakar kröfur um samsetningu prófsins og ákveðna lágmarkseinkunn fyrir aðgang að námi á þrepi/stigi 1.2.
Sjá nánar í Viðmið um æðri menntun og prófgráður í Stjórnartíðindum 2011.
Viðbótarnám við framhaldsskóla
Að loknu námi til stúdentsprófs gefst einstaklingi kostur á frekara námi á háskólastigi. Stúdentsprófið tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum geta nemendur þurft að gangast undir inntökupróf.
Sjá nánar um stúdentspróf í Aðalnámskrá framhaldsskóla á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Bóknám til stúdentsprófs
Framhaldsskóli Bóknám til stúdentsprófs
Um menntunina
Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám en námstími til stúdentsprófs getur verið breytilegur milli námsbrauta og skóla. Framlag nemenda skal aldrei vera minna en 200 framhaldsskólaeiningar. Þó nokkuð framboð er af fjölbreyttu bóknámi til stúdentsprófs, sjá yfirlit yfir framhaldsskóla hér.
Inntökuskilyrði
Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri, eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Framhaldsskóla er heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum upp á nám sem hæfir undirbúningi þeirra. Sjá nánar hér.
Framhaldsnám
Að loknu námi til stúdentsprófs gefst einstaklingi kostur á frekara námi á háskólastigi. Stúdentsprófið tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum geta nemendur þurft að gangast undir inntökupróf.
Sjá nánar um stúdentspróf í Aðalnámskrá framhaldsskóla á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Iðn- og starfsnám til starfsréttinda
Starfsnám
Listnám
Framhaldsskóli Iðn- og starfsnám til starfsréttinda Starfsnám Listnám
Um menntunina
Iðn- og starfsnám fer fram í skóla og á vinnustað. Nokkrar tegundir af starfsnámi eru til á framhaldsskólastigi, t.d. iðnnám og fagnám. Slíkar námsbrautir hafa það að markmiði að undirbúa nemendur fyrir ákveðið starf. Sumar þessara námsleiða gefa ákveðin lögvernduð starfsréttindi, aðrar ekki. Einnig eru til námsbrautir sem lýkur hvorki með stúdentsprófi né veita starfsréttindi og flokkast þau sem önnur lokapróf. Hæfniviðmið námsbrautanna segja til um sérhæfingu sem getur fallið undir starfsnám, listnám, bóknám eða almennt nám. Sjá nánar um námslok á framhaldsskólastigi hér. Hægt er að fara í raunfærnimat á móti sumu starfsnámi. Raunfærnimat miðar að því að athuga hvort einstaklingurinn búi yfir raunfærni sambærilegri eða jafngildri þeirri sem fæst með náminu. Sé svo styttist námið en það sparar einstaklingnum bæði tíma og kostnað. Sjá nánar um raunfærnimat hér.
Inntökuskilyrði
Til að komast í starfs-, iðn og fagnám þarf nemandi að hafa lokið grunnskólaprófi með lágmarkseinkunn, en skilyrði geta verið ólík eftir skólum. Framhaldsskóla er heimilt að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla enda miði þær að því að bjóða nemendum upp á nám sem hæfir undirbúningi þeirra. Sjá nánar hér.
Framhald að loknu námi
Námið getur veitt aðgang að framhaldsnámi í sömu grein. Flestir háskólar gera kröfu um stúdentspróf og bjóða sumir framhaldsskólar upp á viðbótarnám til stúdentsprófs. Líklegt er að breytingar séu yfirvofandi á inntöku í framhaldsnám eftir iðn-, starfs- og listnám, en eins og staðan er í dag getur hver háskóli verið með ólíka nálgun á inntöku eftir því námi sem sótt er um og flestir gera kröfu um stúdentspróf.
Sjá nánar um starfsnám í aðalnámskrá framhaldsskóla á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Nám utan hins formlega skólakerfis
Undirbúningsdeildir fyrir háskólanám
Um menntunina
Nám fyrir einstaklinga sem uppfylla ekki inntökuskilyrði í háskóla, eða sérstakar deildir innan háskóla. Stundum kallað frumgreinanám. Markmið námsins er að undirbúa nemendur fyrir grunnnám við háskóla. Námið skal einnig veita undirstöðumenntun á framhaldsskólastigi til að styrkja einstaklinga út á vinnumarkaðinn. Námið er ýmist í boði í staðnámi, fjarnámi eða með vinnu.
Sjá meira um undirbúningsdeildir: Háskólabrú Keilis, Háskólagátt við Háskólann á Bifröst og Háskólagrunnur HR.
Inntökuskilyrði
Inntökuskilyrði gera verið mismunandi milli aðila eins og t.d. varðandi aldur, reynslu og fleira. Sammerkt er að þátttakandi verður að hafa lokið ákveðnum bóklegum undirbúningi í framhaldsskóla, lokið námsleiðinni Menntastoðum í framhaldsfræðslunni eða skilgreindu starfsnámi.
Framhald að loknu námi
Nám í háskóla eða almenn og sérhæfð símenntunarnámskeið.
Vottuð námsleið
Almenn
Framhaldsfræðsla Vottuð námsleið Almenn
Framhaldsfræðsla miðar að því að veita fullorðnum einstaklingum með stutta formlega skólagöngu að baki viðeigandi námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju. Framhaldsfræðsla er fjármögnuð af stjórnvöldum og er skipulögð og framkvæmd af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Fræðslusjóði og símenntunarmiðstöðvum um land allt. Framhaldsfræðslan býður upp á vottaðar námsleiðir, bæði starfstengdar og almennar. Einstaklingar sem hafa ekki lokið formlegri menntun geta farið í raunfærnimat, þeim að kostnaðarlausu byggt á inntökuskilyrðum greina og einnig sótt náms- og starfsráðgjöf á símenntunarmiðstöðvum sér að kostnaðarlausu. Sjá nánar um raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf hér.
Um menntunina
Vottaðar námsleiðir eru hannaðar þannig að þær henti fullorðnum, eru hnitmiðaðar og hagkvæmar. Vottaðar almennar námsleiðir eru ólíkar en eiga það sameiginlegt að vera í boði fyrir alla með stutta formlega menntun óháð fyrri menntun og störfum. Grunnmennt og Menntastoðir eru námsleiðir þar sem hæfni til bóklegs náms er aukin á ólíkum stigum. Í öðrum almennum námsleiðum er lögð áhersla á að auka hæfni í íslensku, takast á við lesblindu eða auka aðra almenna hæfni. Sjá nánar hér.
Með vottun á námsleið er búið að staðfesta að námið uppfylli kröfur um skipulag, framsetningu viðmiða og námsmat sem sett er af Menntamálastofnun fyrir hönd Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Lagt er upp með að hægt sé að stunda námið samhliða atvinnuþátttöku og að námið, sem skilgreint er sem framhaldsfræðsla, sé hægt að meta að einhverju leyti til eininga innan almenna skólakerfisins en það er háð mati í hverjum skóla fyrir sig. Í öllum námsleiðunum er rík áhersla lögð á eflandi samskipti, sjálfstyrkingu og námstækni. Gert er ráð fyrir ólíkum þörfum námsmanna og að uppbygging náms og viðfangsefni séu við hæfi hvers og eins.
Hægt er að fara í raunfærnimat á móti sumum almennum námsleiðum. Raunfærnimat miðar að því að athuga hvort einstaklingurinn búi yfir raunfærni sambærilegri eða jafngildri þeirri sem fæst með náminu. Sé svo styttist námið en það sparar einstaklingnum bæði tíma og kostnað. Sjá nánar hér.
Inntökuskilyrði
Þátttakandi skal hafa náð 18 ára aldri og vilja til að takast á við nýjar áskoranir. Umsjón og framkvæmd námsleiðanna er á vegum viðurkenndra fræðsluaðila.
Framhald að loknu námi
Vottaðar almennar námsleiðir veita ekki beinan aðgang að framhaldsnámi, enda eru þær allar mjög ólíkar. Þó má taka fram að Menntastoðir er ætlað þeim sem stefna á nám við undirbúningsdeildir háskóla. Sjá meira um undirbúningsdeildir: Háskólabrú Keilis, Háskólagátt við Háskólann á Bifröst og Háskólagrunnur HR.
Vottuð námsleið
Starfstengd
Framhaldsfræðsla Vottuð námsleið Starfstengd
Um menntunina
Vottuð starftengd námsleið er fyrir þá sem eru starfandi á vinnumarkaði, hafa náð 18 ára aldri og eru með stutta formlega menntun. Námsþættir hverrar námsleiðar tengjast ákveðnum störfum og byggja flestar á starfaprófílum starfanna. Hæfni-, þekkingar- og leikniviðmið námsleiðanna miða að því að öðlast frekari þekkingu, skilning og aukna faglega hæfni til að sinna störfum. Eftir þátttöku í sumum starfstengdum námsleiðum getur þátttakandi óskað eftir launahækkun hjá atvinnurekenda, en engar reglur né samningar gilda þar um. Vottaðar starfstengdar námskrár má finna hér.
Hægt er að fara í raunfærnimat á móti sumum starfstengdum námsleiðum. Raunfærnimat miðar að því að athuga hvort einstaklingurinn búi yfir raunfærni sambærilegri eða jafngildri þeirri sem fæst með náminu. Sé svo styttist námið en það sparar einstaklingnum bæði tíma og kostnað. Sjá nánar hér.
Inntökuskilyrði
Þátttakandi skal vera 18 ára eða eldri á vinnumarkaði með stutta formlega menntun.
Framhald að loknu námi
Í námsleiðunum er að finna viðmið um mat til framhaldsskólaeininga. Ekki er sjálfgefið að fá þær einingar metnar að námsleið lokinni, en framhaldsskólar geta verið með ólíka nálgun á inntöku eftir því námi sem sótt er um.
Sumar námsleiðir eru hannaðar sem undirbúningur að starfsnámi í sömu grein. Sjá nánar um starfsnám í framhaldsskóla í kassanum hér til hliðar.
Lýðskóli
Um menntunina
Lýðskólar hafa það að markmiði að veita almenna menntun og uppfræðslu í samræmi við ákvæði laganna og undirbúa nemendur fyrir þátttöku í lýðræðissamfélagi. Lýðskólar skulu leggja áherslu á að veita víðtæka almenna menntun þar sem nemandinn er í fyrirrúmi í skólasamfélaginu og fær stuðning frá kennurum og samnemendum. Námið skal stuðla að umburðarlyndi nemenda og miða að því að gefa þeim tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og styrkleika og auka skilning á sögu, menningu, virðingu fyrir lífsgildum annarra og innviðum lýðræðislegs samfélags.
Inntökuskilyrði
Þeir sem hafa náð 18 ára aldri við upphaf náms geta innritast í lýðskóla. Hver skóli getur sett ítarlegri skilyrði.
Framhald að loknu námi
Nám í lýðháskóla veitir ekki bein réttindi til framhaldsnáms. Nám í lýðháskóla getur þó veitt ákveðinn undirbúning og aukið persónulega hæfni.
Íslenska sem annað tungumál
Um menntunina
Í flestum tilvikum er stuðst við námskrá í grunnnámi í íslensku fyrir útlendinga. Við gerð námskrárinnar var viðmiðunarrammi Evrópuráðs fyrir erlend tungumál hafður til hliðsjónar þar sem gefin eru út sex kunnáttustig, A1, A2, B1, B2, C1 og C2. Áfangar í námskránni eru fjórir og er ætlað að þjálfa færni sem samsvarar viðmiðunarrömmum A1-A2. Meginmarkmið námsins eru að undirbúa nemendur svo þeir öðlist nauðsynlega færni í íslensku til að geta orðið virkir samfélagsþegnar á Íslandi. Algengast er að skipta náminu upp í fjóra heildstæða áfanga, þar sem 60 kennslustundir liggja að baki hverjum áfanga. Heimilt er að skipta náminu upp í fleiri en fjóra áfanga.
Margir fræðsluaðilar bjóða upp á nám og námskeið í íslensku sem annað tungumál. Hér má sjá yfirlit yfir sem Fjölmenningarsetrið hefur tekið saman.
Inntökuskilyrði
Þeir sem náð hafa 18 ára aldri. Allir fullorðnir sem búsettir eru hér á landi og skráðir eru með lögheimili í Þjóðskrá, geta sótt nám og/eða námskeið í íslensku sem annað tungumál.
Um menntunina
Einnig nefnt endurmenntun. Símenntunarnámskeið eru hvers konar námskeið sem sótt eru að loknu grunnnámi og hafinni atvinnuþátttöku. Námskeiðin miða að því að fólk geti bætt og endurnýjað þekkingu sína og hæfni. Þetta á við um eflingu á faglegu sviði sem og persónulegu sviði. Samantekt á símenntunarnámskeiðum í boði má meðal annars finna hér.
Inntökuskilyrði
Almennt eru ekki inntökuskilyrði, en þó geta verið undantekningar.
Framhald að loknu námi
Sum símenntunarnámskeið bjóða upp á grunn og framhaldsnámskeið.