Matar-og kaffitímar

Matar- og kaffitímar skv. samningi VR og SA

Matartími VR félaga sem starfa samkvæmt samningi VR og Samtaka atvinnulífsins er 0,5 - 1 klst. á dag á tímabilinu frá kl. 12:00 til kl. 14:00 og telst hann ekki til vinnutíma, þetta er ógreiddur tími. Réttur til hádegisverðarhlés miðast við þegar a.m.k. 5 klst. vinnu á dagvinnutímabilinu.

Kaffitími afgreiðslufólks er 35 mínútur á dag miðað við fullt starf í dagvinnu en 15 mínútur hjá skrifstofufólki, þetta er greiddur tími og telst til vinnutíma. Fella má niður eða stytta kaffitíma með samkomulagi á vinnustað og styttist þá vinnutíminn sem því nemur. Þau sem vinna hluta úr degi skulu fá hlutfallslegan kaffitíma. Neysluhlé eru tekin í samráði við yfirmann.

Ef starfsfólk vinnur í matar- eða kaffitímum á dagvinnutímabili á sá tími að greiðast með eftir- / yfirvinnukaupi eftir því sem við á.

Kvöldmatartími er frá kl. 19:00 til kl. 20:00 alla daga. Þessi tími telst til vinnutíma og greiðist með eftir-/yfirvinnukaupi eftir því sem við á. Ef starfsfólk fær ekki þetta neysluhlé og sá tími er unninn eða hluti af honum greiðist fyrir þann tíma tilsvarandi yfirvinna. 

Dæmi: Unnið er til kl. 19:10. Greiddar eru 10 mínútur á eftir-/yfirvinnukaupi eftir atvikum vegna vinnutíma til kl. 19:10. Einnig er greiddar aukalega 10 mínútur í yfirvinnu vegna unnins matartíma.

Kvöldkaffi skal hefjast kl. 22:00 og er í tuttugu mínútur, þetta er greiddur tími. 

Aðrir matar- og kaffitímar

Sé unnið utan dagvinnutímabils skal matartími vera frá kl. 3:00-4:00 og kaffitímar frá kl. 22:00-22:20 og kl.6:15-6:30.

Vinna hefst kl. 16:00 og síðar

Starfsfólk í verslunum sem mætir til vinnu kl. 16:00 eða síðar, skal fá greiddar 5 mínútur fyrir hverja unna klst., þó að lágmarki 15 mínútur vegna neysluhléa sem ekki eru tekin. Vinni starfsfólk 4½ klst. eða lengur, á það hins vegar rétt á óskertu 1 klst. matarhléi.

Um vinnuhlé starfsfólks matvöruverslana

Vegna sérstaks vinnuálags hjá starfsfólki á kassa á föstudögum og síðasta vinnudag fyrir almennan frídag, sem ber upp á mánudag til föstudags, skal veita starfsfólki, sem hefur a.m.k. þriggja tíma samfellda viðveru eftir kl. 16:00, 15 mínútna hlé á tímabilinu kl. 16:00–19:00 enda sé ekki tekið kvöldmatarhlé á áðurnefndum dögum.

Matar- og kaffitímar skv. samningi VR og FA

Starfsmenn eiga rétt á vinnuhléi sem nemur að minnsta kosti 0,5 klst. alls á dag, nema að um annað sé samið. Daglegur tími sem fer í vinnuhlé má ekki fara fram úr 1 klst. nema vinnudagur fari fram yfir 8 klst. á dag, þá má vinnuhlé fara í 1,5 klst. á dag.

Á þeim dögum sem vinnutíma lýkur fyrir kl. 14:00 er heimilt að semja um að ekki skuli tekið vinnuhlé.

Kvöldmatartími skal vera á tímabilinu kl. 19:00 til 20:00 og greiðast hann með yfirvinnukaupi. Sé matartíminn unninn eða hluti af honum greiðist til viðbótar vinnutímanum, með sama kaupi, ein klst. Það skal greiða þó unnið sé skemur. Sé yfirvinna unnin skal matartími vera frá kl. 03:00 til 04:00.

Er fyrirtækið þitt að greiða skv. samningi VR og SA eða VR og FA?

Þú getur séð eftir hvaða samningi þitt fyrirtæki er að greiða á Mínum síðum.