Vinnustaðaeftirlit

Um eftirlit á vinnustöðum og vinnustaðaskírteini er fjallað í lögum nr. 42/2010 
Markmið laganna með vinnustaðaskírteinum er að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði og tryggja að atvinnurekendur og starfsmenn fari að lögum, reglugerðum og kjarasamningum.

Af hálfu VR er lögð áhersla á að vinnustaðaheimsóknir séu notaðar til að ganga úr skugga um að starfsfólk njóti launa og annarra starfskjara sem þeim ber og efla tengsl VR við félaga sína.

Ofangreind lög um vinnustaðaskírteini veita eftirlitsfulltrúum verkalýðshreyfingarinnar dýrmætan aðgang að vinnustöðum og launafólki, þar með talið erlendu launafólki sem oft hefur fáar tengingar inn í íslenskt samfélag.

Vinnustaðaheimsóknir gegna mikilvægu hlutverki við að:

  • upplýsa launafólk um réttindi sín og skyldur samkvæmt kjarasamningum og lögum
  • upplýsa launafólk um hlutverk og þjónustu stéttarfélaganna
  • efla tengsl stéttarfélaganna við félagsfólk, ekki síst félaga af erlendum uppruna
  • sporna gegn nauðungarvinnu, mansali, undirboðum á vinnumarkaði og svartri
  • atvinnustarfsemi
  • auka þekkingu hreyfingarinnar á atvinnulífinu á svæðinu, stöðunni á vinnumarkaði
  • framgöngu fyrirtækjanna og mögulegri brotastarfsemi
  • upplýsa atvinnurekendur um skyldur þeirra samkvæmt kjarasamningum og lögum

ASÍ og Samtök atvinnulífsins gerðu með sér samkomulag sem tók gildi í júní 2010 um vinnustaðaskírteini og framkvæmd eftirlits á vinnustöðum. Byggir það samkomulag á áður nefndum lögum. Hér er hægt að nálgast samkomulagið.

Hægt er að hafa samband við sérfræðinga vinnustaðaeftirlits VR með því að senda tölvupóst á vinnustadaeftirlit@vr.is