Niðurstöður úr könnun VR

Önnur hver kona hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni

Meira en önnur hver kona í VR, 52%, hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi einhvern tíma á sínum starfsferli og rúmlega fimmtungur karla. Hlutfallið er hæst meðal fólks á þrítugs- og fertugsaldri, 63% kvenna á aldrinum 25 til 34 ára hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi á einhverjum tímapunkti og 28% karla.
Þetta sýna niðurstöður viðamikillar könnunar meðal félagsmanna VR.

9% - kynferðisleg áreitni síðustu tólf mánuði

Niðurstöður könnunarinnar sýna að 9% félagsmanna VR höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á 12 mánaða tímabili í aðdraganda könnunarinnar. Þetta hlutfall er hærra en mældist í könnun Gallup meðal launafólks á vinnumarkaði í nóvember 2017 en þá sögðust 5% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á umliðnum tólf mánuðum.

Þegar niðurstöður könnunar VR eru greindar eftir kyni og aldri kemur í ljós að hlutfallið meðal kvenna er 11% en 6% meðal karla. Svarmöguleikar voru alls fjórir, „já“ og „já líklega“ annars vegar sem saman mynda svarið já og „nei„ og „nei, líklega ekki“ hins vegar sem saman mynda svarið nei. Það vekur athygli að um 8% merktu við valmöguleikann „nei, líklega ekki“. Skilgreining á kynferðislegri áreitni fylgdi spurningunum.

Umtalsverður munur er á milli kynjanna þegar við skoðum niðurstöðurnar eftir aldri - 19% kvenna yngri en 25 ára höfðu orðið fyrir áreitni á tímabilinu en 4% karla á sama aldri. Hlutfallið er hins vegar jafnt í aldurshópnum 25 til 34 ára, eða 13%.

Kynferðisleg áreitni er mismikil eftir atvinnugreinum, mest er hún í veitingahúsum og á gististöðum, 13% starfsmanna í þeim geira höfðu orðið fyrir áreitni á 12 mánaða tímabili í aðdraganda könnunarinnar, mest eða 27% í yngsta aldurshópnum. Þessar tölur eru óháðar kyni.

39% - kynferðisleg áreitni á starfsferlinum

Þegar spurt er hvort svarendur hafi á einhverjum tímapunkti orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi fjölgar mjög í hópi þeirra sem segja já – 39% svarenda hafa einhvern tímann orðið fyrir slíkri áreitni. Könnun Gallup frá því í nóvember 2017 sýnir mun lægri tölu, 27% launafólks sögðust hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á starfsævinni.

Munurinn milli kynjanna er umtalsverður í könnun VR, 52% kvenna í félaginu hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi einhvern tíma á sínum starfsferli en 22% karla. Þá er einnig mikill munur eftir aldri, 46% félagsmanna á aldrinum 25 til 34 ára hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni og er það óháð kyni viðkomandi. Hér vekur einnig athygli að mikill munur er eftir menntunarstigi svarenda, þeir sem eru með lengstu skólagönguna að baki segjast frekar hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað en þeir sem eru með skemmri menntun.

En mestur er munurinn þegar svör kynjanna eru skoðuð eftir aldri – 63% kvenna á aldrinum 25 til 34 ára hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 28% karla á sama aldri. Mikilvægt er að hafa í huga að hér er verið að spyrja um reynslu viðkomandi á starfsævinni fram til dagsins í dag, meira en áratugur var liðinn frá áreitni hjá 15% svarenda og fjögur til tíu ár hjá 13% svarenda.

Innan við þriðjungur tilkynnti áreitnina

Eingöngu tæpur þriðjungur þeirra sem varð fyrir áreitni á tólf mánuðunum fyrir könnun VR tilkynnti áreitnina til einhvers innan vinnustaðarins. Konur tilkynntu frekar áreitnina en karlar, 35% á móti 21% karla. Innan við helmingur, 46%, var ánægður með viðbrögð vinnustaðarins en 37% voru hvorki ánægð né óánægð.

Enn færri tilkynntu áreitni sem þeir urðu vitni að á vinnustaðnum. Um 15% svarenda sögðust hafa orðið vitni að kynferðislegri áreitni á vinnustaðnum á síðustu 12 mánuðum en einn af hverjum fimm tilkynnti það til einhvers, s.s. stjórnenda, trúnaðarmanns eða mannauðsstjóra – 30% kvenna en 7% karla. Mun fleiri ræddu við þolandann, 37% og voru konur aftur líklegri til þess en karlar, 45% ámóti 33%. Karlar voru hins vegar líklegri til að ræða við geranda eða gerendur í kjölfar áreitninnar.

Hinar ýmsu birtingamyndir

Í könnuninni var spurt um birtingarmyndir kynbundins áreitis og kynferðislegrar áreitni og spurt hvort viðkomandi hefði fundið fyrir ákveðnu viðhorfi sem hann eða hún rakti til eigin kyns. Til dæmis var spurt hvort gerðar hafi verið ósanngjarnar kröfur til viðkomandi um frammistöðu, hvort hann/hún hafi verið særð/ur eða niðurlægð/ur fyrir framan aðra, orðið fyrir ógnandi hegðun, hótunum eða ofbeldi. Í öllum þessum tilfellum sögðu umtalsvert fleiri konur en karlar „já“.

Þá hefur tæplega þriðjungur kvenna hefur fengið óumbeðnar kynferðislegar athugasemdir eða spurningar sem þeim fannst óþægilegar eða niðurlægjandi. Hlutfall meðal karla var 13%. Fimmta hver kona og rétt um einn af hverjum tíu körlum hafa verið óumbeðið snert á kynferðislegan hátt sem viðkomandi fannst óþægilegt eða niðurlægjandi. Og að lokum var spurt hvort þátttakendum í könnuninni hafi verið hefur verið boðið starf, launahækkun eða framgangur í starfi í skiptum fyrir kynlíf. Þessari spurningu svöruðu 1,6% játandi, ekki var marktækur munur á körlum og konum.

Í kjölfar þessara spurninga var spurt um kyn geranda eða gerenda og stöðu þeirra og voru svarendur beðnir um að miða við alvarlega atvikið sem þeir hefðu lent í. Í 68% tilfella var um að ræða karlmann eða karlmenn þegar litið er til heildarhópsins.

Veistu hvert þú átt að leita?

Í könnuninni var spurt hvort á vinnustaðnum væri til áætlun um viðbrögð við einelti og kynferðislegri áreitni. Fjórði hver svaraði játandi en stór hluti eða 40% merkti við valkostinn „Veit ekki.“ Fyrirtæki í fjármála- og tryggingastarfsemi skera sig nokkuð úr hér, 49% starfsmanna í þessum fyrirtækjum segha að á vinnustaðnum sé slík áætlun. Hinsvegar segjast nær átta af hverjum tíu í könnuninni vita hvert þeir eiga að leita verði þeir fyrir kynferðislegri áreitni.

Um könnunina

Könnunin var rafræn, gerð dagana 15. desember 2017 til og með 11. janúar 2018 meðal úrtaks úr félagaskrá VR. Gallup sá um framkvæmdina og úrvinnslu niðurstaðna. Endanlegt úrtak var alls 9.290. Alls bárust 3.113 sör eða 34%. Gögnin voru viktuð til að úrtak endurspegli þýði með tilliti til kyns, aldurs og atvinnugreina.

Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir einhverju af eftirtöldu í starfi?

Þeir sem segja já.

  Allir  Karl Kona
Fengið óumbeðnar kynferðislegar athugasemdir eða spurningar sem þér fannst óþægilegar eða niðurlægjandi? 24% 13% 31%
Verið óumbeðið snert(ur) á kynferðislegan hátt sem þér fannst óþægilegt eða niðurlægjandi?  16% 11% 20%
Fengið óumbeðið kynferðislegt efni sent í tölvu/síma sem þér fannst óviðeigandi? 9% 8% 9%
Boðið starf, launahækkun eða framgangur í starfi í skiptum fyrir kynlíf? 2% 1%

2%

Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir eftirtöldu í starfi sem þú telur að hafi beinst gegn þér vegna kyns þíns?

Þeir sem segja já.

  Allir Karl Kona
Fengið ósanngjarna gagnrýni á störf þín frá vinnufélögum eða yfirmönnum? 25% 17% 30%
Verið mismunað þegar verkefnum er úthlutað? 21% 14% 26%
Að þú hafir verið særð/ur eða niðurlægð/ur fyrir framan aðra? 22% 14% 28%
Að þú hafir orðið fyrir ógnandi hegðun, hótunum eða ofbeldi?

9% 7% 11%