Þekktu þinn rétt

Vinnusamband

  • Kjarasamningur í viðeigandi starfsgrein gildir í vinnusambandi aðila strax á fyrsta degi.
  • Aðilar skulu gera með sér ráðningarsamning innan tveggja mánaða frá því að starfskraftur hefur störf. Skal slíkur samningur vera skriflegur, sjá hér. 
  • Sé ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur, eins og segir í kjarasamningi, þá gildir alltaf kjarasamningurinn um réttindi starfskrafts.
  • Skv. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda þá er óheimilt að gera samninga sem eru lakari en gildandi kjarasamningar á hverjum tíma.
  • Almennu starfsfólki á Íslandi ber skylda til að greiða gjöld til viðeigandi stéttarfélags. Stéttarfélögin á Íslandi er mörg og mismunandi og fara þau eftir atvinnugreinum og landshlutum. 

Laun, vinnutími og neysluhlé

Þegar fólk er ráðið til vinnu er það gert með samkomulagi milli atvinnurekanda og launamanns. Þetta samkomulag er nefnt ráðningarsamningur og samband þeirra ráðningarsamband.

Laun skal greiða með peningum. Í lögum um greiðslu verkkaups nr. 28/1930 er kveðið á um að verkkaup skuli greiða með gjaldgengum peningum, sem í dag jafngildir að greitt er inn á launareikning viðeigandi starfsmanns í banka.

Lagaákvæðið var sett til að koma í veg fyrir að atvinnurekendur greiddu starfsfólki sínu laun með vörum, fatnaði, húsnæðisafnotum eða þess háttar.

Þegar samið er um pakkalaun, þ.e. mánaðarlaun fyrir vinnu sem unnin er á mismunandi tímum bæði utan hefðbundins dagvinnutíma og innan hans og ef vinnutíminn er lengri en skilgreindur 100% vinnutími skv. kjarasamningi á starfskraftur rétt á því að fá launin sundurliðuð þannig að hann viti hver dagvinnulaun sín eru.

Þegar unnið er á laugardögum og sunnudögum, skal aldrei greiða minna en 4 klst. í eftir/yfirvinnu, þó unnið sé skemur.

Afgreiðslufólk

Dagvinnukaup hvers starfskrafts skal fundið með því að deila tölunni 167,94 í föst mánaðarlaun. ATH þetta á eingöngu við í þeim tilfellum sem samið hefur verið um mánaðarlaun fyrir vinnu sem unninn er á dagvinnutíma.

Dagvinnutími: hjá afgreiðslufólki er milli kl. 9:00-18:00 alla virka daga. Fullt starf er skilgreint sem 167,94 klst. á mánuði eða 38,75 klst. á viku sem gera 7,75 klst. á dag.

Tímakaup afgreiðslufólks: Greiða skal eftirvinnu til kl 00:00 á miðnætti sem er 0,8235% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu en 0,8824% á tímabilinu frá kl. 00:00 á miðnætti til kl. 7:00 að morgni upp að 167,94 klst. á mánuði.

Yfirvinna: er öll vinna sem er unnin utan hefðbundins dagvinnutíma umfram 167,94 klst. á mánuði. Tímakaup í yfirvinnu er 1,0385% af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Stórhátíð: er öll vinna sem unnin er á skilgreindum stórhátíðardögum skv. kjarasamningi VR og SA grein 2.3.2 (sjá aukafrídaga). Tímakaup á stórhátíð er 1,375% af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Heimilt er að hefja dagvinnu fyrir kl. 9:00 en þó aldrei fyrir kl. 7:00 að morgni. Dagvinnuskyldu líkur þá fyrr í samræmi við upphaf vinnu.

Matartími er 1/2 klst. til 1 klst. á dag og á starfskraftur rétt á matartíma sé unnið 5 klst. eða meira. Matartíminn er á tímabilinu kl. 12:00 og 14:00 og telst ekki til vinnutíma, þetta er ógreiddur tími. Yfirmaður starfskrafts ákveður hversu langur matartíminn er, þó hægt sé í einhverjum tilfellum að semja um hann.

Kaffitímar eru 35 mín. á dag fyrir fulla vinnu sem er 7,75 klst. á dag og er tekinn í samkomulagi við yfirmann. Kaffitími telst til vinnutíma og því greiddur af hálfu fyrirtækisins. Sé kaffitíminn unninn skal greiða aukalega fyrir hann eða stytta vinnutíma sem því nemur, um það þarf sérstaklega að semja.

Kvöldmatartími er milli kl. 19:00-20:00 og á starfskraftur rétt á þessu hléi vinni hann a.m.k. 4,5 klst. eða lengur. Kvöldmatartíminn er greiddur tími og sé sá tími unninn skal sá hluti sem unninn er greiddur sem yfirvinna.

Neysluhlé um helgar er með sama hætti og virka daga skv. kjarasamningi.

Skrifstofufólk

Dagvinnukaup hvers starfskrafts skal fundið með því að deila tölunni 159,27 í föst mánaðarlaun. ATH þetta á eingöngu við í þeim tilfellum sem samið hefur verið um mánaðarlaun fyrir vinnu sem unninn er á dagvinnutíma.

Dagvinnutími: hjá skrifstofu fólki milli kl. 9:00-17:00 alla virka daga. Fullt starf er 159,27 unnar klst.

Tímakaup skrifstofufólks: í eftirvinnu er til kl. 00:00 á miðnætti er 0,875% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu en 0,9375% á tímabilinu frá kl. 00:00 á miðnætti til kl. 7:00 að morgni upp að 159,27 á mánuði.

Yfirvinna: er öll vinna sem er unnin utan hefðbundins dagvinnutíma umfram 159.27 klst. á mánuði. Tímakaup í yfirvinnu er 1,0385% af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Stórhátíð: er öll vinna sem unnin er á skilgreindum stórhátíðardögum skv. kjarasamningi VR og SA grein 2.3.2 (sjá aukafrídaga). Tímakaup á stórhátíð er 1,375% af föstum mánaðarlaunum fyrir dagvinnu.

Heimilt er að hefja dagvinnu fyrir kl. 9:00 en þó aldrei fyrir kl. 7:00 að morgni. Líkur þá dagvinnuskyldu fyrr í samræmi við upphaf vinnu.

Matartími er 1/2 klst. til 1 klst. á dag og á starfskraftur rétt á matartíma sé unnið 5 klst. eða meira. Matartíminn er á tímabilinu kl. 12:00 og 14:00 og telst ekki til vinnutíma, þetta er ógreiddur tími. Yfirmaður starfskrafts ákveður hversu langur matartíminn er, þó hægt sé í einhverjum tilfellum að semja um hann.

Kaffitímar eru 15 mín. á dag fyrir fulla vinnu sem er 7,35 klst. á dag og er tekinn í samkomulagi við yfirmann. Kaffitími telst til vinnutíma og því greiddur af hálfu fyrirtækisins. Sé kaffitíminn unninn skal greiða aukalega fyrir hann eða stytta vinnutíma sem því nemur, um það þarf sérstaklega að semja.

Kvöldmatartími er milli kl. 19:00-20:00 og á starfskraftur rétt á þessu hléi vinni hann a.m.k. 4,5 klst. eða lengur. Kvöldmatartíminn er greiddur tími og sé sá tími unninn skal sá hluti sem unninn er greiddur sem yfirvinna.

Neysluhlé um helgar er með sama hætti og virka daga skv. kjarasamningi.

Orlof

  • Orlof má ekki greiða út með mánaðarlaunum
  • Orlof skal greiða til alls launafólks. Í 1. gr. laga um orlof nr. 30/1987 segir að öll þau sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, eigi rétt á orlofi og orlofslaunum.
  • Uppsöfnun orlofsdaga er á tímabilinu 1. maí til 30. apríl ár hvert.
  • Lágmarksorlof er 24 virkir dagar. Orlofslaun eru þá 10,17% af heildarlaunum.
  • Orlofs greiðslur eru á tvo mismunandi vegu þ.e. annars vegar þannig að starfskraftur fær greitt orlof þegar hann fer í frí, hinsvegar þannig að starfskraftur fær orlofið greitt inn á sérstakan orlofsreikning sem er svo greiddur inn á launareikning starfskrafts í byrjun maí á hverju ári. Þessi greiðsla af orlofsreikningnum er þá laun starfskrafts þegar hann fer í orlof.
  • Eftir 5 ár í sömu starfsgrein eru 25 virkir dagar í orlof. Orlofslaun eru þá 10,64% af heildarlaunum.
  • Eftir 5 ár hjá sama atvinnurekanda eru 27 virkir dagar. Orlofslaun eru þá 11,59% af heildarlaunum.
  • Eftir 10 ár hjá sama atvinnurekanda eru 30 virkir dagar. Orlofslaun eru þá 13,04% af heildarlaunum.
  • Orlof skal tekið í samráði við atvinnurekanda og tekið á tímabilinu 2. maí til 15. september ár hvert.
  • Ef orlof er tekið eftir 15. september að ósk atvinnurekanda lengist það um 25%.
  • Starfskraftur sem nýlega hefur hafið störf á rétt til leyfis frá störfum þótt hann eigi ekki rétt á greiðslum í orlofinu frá núverandi atvinnurekanda, skv. 2. gr. orlofslaganna. Þennan rétt á starfskraftur sé hann að koma úr öðru starfi.
  • Sá tími sem starfskraftur er frá vinnu vegna veikinda eða slysa telst til vinnutími þar með talið lögbundið fæðingarorlof, þ.e. starfskraftur vinnur sér inn rétt til orlofs. Hafi starfskraftur fullnýtt sér veikinda- eða slysarétt sinn telst sá tími sem hann er frá störfum ekki til ávinnslutímabils orlofs. Sama gildir um launalaust leyfi. Sá tími sem starfskraftur er í lögbundnu orlofi telst einnig til ávinnslutímabils, enda fær hann orlofslaun greidd fyrir þann tíma, annaðhvort í lok mánaðar að loknu orlofi eða fær orlofslaunin greidd af orlofsreikning í byrjun maí.
    • Til viðbótar helgarfríum liggur atvinnustarfsemi niðri nokkra daga á ári, svokallaða aukafrídaga og aukahelgidaga.
    • Aukafrídagar eru flestir lögbundnir.
    • Sumir dagar falla alltaf á sama vikudag, t.d. sumardagurinn fyrsti, uppstigningardagur, páskar, hvítasunna og frídagur verslunarmanna en aðrir fylgja ákveðnum mánaðardögum, svo sem jól, áramót 1. maí og 17. júní. Því er fjöldi frídaga breytilegur frá ári til árs eftir því hversu margir þessara daga falla á helgar. Að meðaltali munu þetta vera um 12 dagar á ári.
    • Sérstakir stórhátíðadagar eru eftirtaldir: nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. Júní, frídagur verslunarmanna, jóladagur og eftir kl. 12:00 á aðfangadag og gamlársdag. Vinna á þessum dögum greiðist alltaf með álagi annað hvort 1,375% af mánaðarlaunum eða með 90% álagi ef viðkomandi starfar við gestamóttöku. Til viðbótar við 90% álag fær starfskraftur vetrarfrísdag skv. sérkjarasamningi VR og SA um störf í gestamóttöku.
    • Sérstakir frídagar eru eftirtaldir: skírdagur, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu og annar í jólum. Vinna á þessum dögum er greidd annað hvort sem eftirvinna eða yfirvinna, eftir því sem við á eða með 45% álagi sé viðkomandi að starfa við gestamóttöku, sjá sérkjarasamning VR og SA um störf í gestamóttöku.

Uppsagnarfrestur

  • Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur, þ.e. sami réttur hvort sem þú segir upp störfum, eða þér er sagt upp af hálfu atvinnurekanda. 
  • Uppsögn skal í öllum tilfellum vera skrifleg.
  • Skylt er að vinna lögbundinn uppsagnarfrest, nema um annað sé samið. VR ráðleggur í öllum tilfellum að það sem samið sé um sé gert með skriflegum hætti.
  • Á fyrstu þremur mánuðum í starfi er uppsagnarfrestur, ein vika.
  • Eftir þrjá mánuði í starfi en innan sex mánaða er uppsagnarfrestur einn mánuður, bundinn við mánaðamót.
  • Eftir 6 mánaða starf er uppsagnarfresturinn Þrír mánuðir, bundnir við mánaðamót.

Veikindaréttur

  • Réttur launafólks til greiðslu launa í forföllum vegna sjúkdóma eða slysa eru óaðskiljanlegur hluti af launakjörum hvers og eins og er ekki hægt í ráðningarsamningi að semja sig frá reglum um þau eða afsala sér þeim.
  • Mjög mikilvægt er að það launafólk sem lendir í slysum við störf sín eða á leið til eða frá vinnu kanni mjög vel rétt vegna þeirra og leiti til sérfræðinga VR á kjaramálasviði.
  • Á fyrsta ári eru 2 veikindadagar í mánuði fyrir hvern unninn mánuð.
  • Eftir 1 ár í starfi er veikindaréttur 2 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Eftir 5 ár í starfi er veikindaréttur 4 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Eftir 10 ár í starfi er veikindaréttur 6 mánuðir á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Veikindaréttur vegna barna er 2 dagar fyrir hvern unnin mánuð en þó að hámarki 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.
  • Í vinnuslysa-eða atvinnusjúkdómatilfellum sem eiga sér stað í/vegna vinnu eða vegna flutnings til eða frá vinnustað þá greiðir atvinnurekandi laun fyrir dagvinnu í allt að 3 mánuði til viðbótar áunnum veikindarétti.
  • Starfskraftur verður að tilkynna stjórnanda sínum um veikindi sín við fyrsta mögulega tækifæri. Stjórnandi getur ákveðið hvort starfskraftur verði að skila inn vottorði, sé óskað eftir því verður starfskraftur að fara til læknis til að fá staðfestingu um veikindin.

ATH ef upp kemur deila þá gildir alltaf íslenski textinn í gildandi kjarasamningi VR hverju sinni. Upplýsingar hér á síðunni eru byggðar á kjarasamningi VR og SA.

Nánari upplýsingar um réttarstöðu starfsfólks, vinsamlega hafið samband við kjaramálasérfræðinga VR í síma, með tölvupósti vr@vr.is eða komið við á opnunartíma skrifstofu milli kl. 08:30 og 16:00 alla virka daga.