Hér má sjá lögin um fæðingar- og foreldraorlof barna fædd 1. janúar 2021 eða síðar.
Vinnumálastofnun sér um þjónustu Fæðingarorlofssjóðs sjá nánar hér.
Foreldraorlof
Foreldraorlof er sjálfstæður réttur hvors foreldris til launalauss leyfis að fæðingarorlofi loknu.
Um foreldraorlof er fjallað í 11. kafla (gr. 44 til 48) laga um fæðingar- og foreldraorlof og má sjá nánari upplýsingar á vef Vinnumálastofnunar hér.
Skv. lögum um fæðingar- og foreldraorlof helst ráðningarsamband milli aðila óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Starfsfólk á því rétt á að hverfa aftur til sinna starfa að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Auk þess nýtur starfsfólk verndar gegn uppsögnum eftir að upplýst hefur verið til atvinnurekanda um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða meðan starfsfólk er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi, sjá nánar hér takmarkanir á uppsögnum.
Skv. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem rétti til orlofstöku og lengingar orlofs samkvæmt kjarasamningum, starfsaldurshækkunum, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Skv. gr. 48 sömu laga haldast réttindi sem starfsfólk hefur áunnið sér á upphafsdegi foreldraorlofs óbreytt til lok fyrirhugaðs foreldraorlofs. Við lok orlofsins gilda þessi réttindi, sem og breytingar sem kunna að hafa orðið á grundvelli laga eða kjarasamninga.
Þegar starfsfólk hefur starfað í ár fyrir töku fæðingarorlofs hjá sama atvinnurekanda þá teljast fjarvistir vegna lögbundins fæðingarorlofs til starfstíma við útreikning desember- og orlofsuppbótar. Sama gildir ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir konur sem eru þungaðar, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti.