VR samdi um markaðslaun í kjarasamningum árið 2000. Þetta þýðir að laun skulu endurspegla vinnuframlag starfsmanns, hæfni hans, menntun og færni sem og innihald starfsins og þá ábyrgð sem því fylgir.
Grundvallarþáttur í markaðslaunakerfinu er launaviðtalið en starfsmaður hefur samningsbundinn rétt á viðtali við yfirmann sinn einu sinni á ári um störf sín og hugsanlega leiðréttingu á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali á að veita það innan tveggja mánaða og niðurstaða viðtalsins á að liggja fyrir innan mánaðar.
Góð ráð fyrir launaviðtalið
Launaviðtal er ekkert frábrugðið öðrum samningaviðræðum. Góður undirbúningur styrkir stöðu þína.
Hér fyrir neðan eru nokkur góð ráð sem e.t.v. geta hjálpað þér.
Sjálfsskoðun
Það er undir þér komið að sýna að þú verðskuldir launahækkun eða hvað annað sem þú vilt semja um. Skoðaðu stöðu þína og reyndu að meta styrkleika þína og veikleika og jafnframt hvaða tækifæri þú hefur. Hvert er þitt framlag? Hvernig stendurðu þig í vinnunni? Hvar og hvernig nýtist þín reynsla og kunnátta best? Hvernig geturðu styrkt þig sem starfsmann? Þarftu á endurmenntun að halda? Skráðu hjá þér viðfangsefni þín og vinnuframlag til lengri tíma litið. Skoðaðu stöðu samningsaðila þíns og vinnuumhverfið.
Símenntun
Í dag er símenntun nauðsynleg til að viðhalda þekkingu sinni og halda markaðsvirði sínu á vinnumarkaði. Það er allt sem mælir með aukinni menntun fólks á vinnumarkaði. Fólk nær betri tökum á starfinu, það veitir betri þjónustu og verður ánægðara í starfi, með meira sjálfstraust. Gættu þess að skrá hjá þér öll þau námskeið sem þú sækir því þetta hefur jákvæð áhrif á þjónustu eða framleiðni fyrirtækisins sem gerir samningsstöðu þína sterkari í viðtalinu.
Hugsaðu um "GÆS"; ég Get, ég Ætla, ég Skal. Hafðu trú á sjálfum þér, því annars hefur atvinnurekandinn það ekki. Þú þarft að sannfæra hann um að þú sért þess virði að fá ákveðin laun og ef þér finnst þú vanta sjálfstraust, þá er mikið framboð af sjálfstyrkingarnámskeiðum í boði.
Markaðsvirði þitt
Aflaðu þér upplýsinga um markaðsvirði þitt, hver laun sambærilegra hópa eru og síðast en ekki síst, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Notaðu launakönnunina og vinnudagbók þína.
Markmiðasetning
Settu þér raunhæf markmið, því þú missir trúverðugleikann ef þú biður um laun sem þú átt ekki skilið, hvort sem þau eru allt of lág eða há. Veltu fyrir þér hvaða niðurstöðu þú myndir sætta þig við. Ertu að leita eftir launahækkun eða stöðuhækkun? Hvar sérðu sjálfa/n þig eftir fimm ár? Með því að hafa skýr markmið nærðu lengra.
Samningatækni
Tileinkaðu þér samningatækni og æfðu þig í henni. Reyndu að halda samningaviðræðunum á faglegum grundvelli og ekki verða of tilfinningasöm/-samur. Til að ná sem bestum árangri geturðu þurft að sýna sveigjanleika, sem getur verið báðum til góða. Bestu samningarnir eru þegar báðir aðilarnir "græða".
Tímasetning
Mikilvægt er að huga að því hvenær best sé að tala við stjórnendur um launaviðtalið. T.d. getur verið slæmt að ræða launahækkun ef nýlegir ársreikningar hafa komið illa út, þá borgar sig að bíða aðeins. Pantaðu tíma hjá yfirmanni með nokkurra daga fyrirvara svo stjórnandinn geti einnig undirbúið sig.
Æfðu þig
Árangur í launaviðtali byggist á góðum undirbúningi en ekki síður þjálfun. Fáðu einhvern sem þú treystir vel til að fara með þér í hlutverkaleik og æfðu þig, hvað þú ætlar að segja og hvernig þú vilt koma því frá þér.
Æfingin skapar meistarann
Að fá neitun getur verið lærdómsríkt. Ekki hræðast höfnun því nei getur verið leið að jái. Að viðtalinu loknu skráðu hjá þér hvað fór vel og hvað hefði betur mátt fara. Byrjaðu að undirbúa þig fyrir næsta viðtal með því að bæta frammistöðu þína og halda vinnudagbók.
Að takast á við kvíða
Það er eðlilegt að finna fyrir streitueinkennum þegar maður fer í launaviðtal og sérstaklega ef maður er að gera það í fyrsta sinn. Eftir því sem þú ert betur undirbúin, því rólegri og yfirvegaðri verður þú. Gott er að anda djúpt áður en maður fer í viðtalið og hugsa að stjórnandinn sé líka mannlegur og líklega pínulítið stressaður líka.