Laun ungmenna skv. kjarasamningi VR og SA
Aldursþrep starfsmanna undir 18 ára aldri miðast við fæðingarár. Þannig skiptir ekki máli hvenær starfsmaður á afmæli á árinu, viðkomandi taxti gildir frá 1. janúar hvers árs fyrir alla og má ekki vera lægri en:
- 89% af byrjunarlaunum fyrir 17 ára
- 84% af byrjunarlaunum fyrir 16 ára
- 71% af byrjunarlaunum fyrir 15 ára
- 62% af byrjunarlaunum fyrir 14 ára
Allar launatöflur VR má nálgast hér og eru þær þegar reiknaðar með tilliti til ofangreinds. Útgefnir launataxtar eru lágmarkslaun.
Byrjunarlaun miðast við að starfsmaður hafi náð 18 ára aldri og öðlast hæfni til að sinna viðkomandi starfi. Þjálfunartími miðast við að hámarki 300 klst. hjá atvinnurekanda eða 500 klst. í starfsgrein eftir að 16 ára aldri er náð. Á þessum þjálfunartíma er heimilt að greiða 95% af byrjunarlaunum.
Starfsmaður skal leggja fram staðfestingu á starfsreynslu í starfsgrein og er þá starfsaldur metinn frá og með næstu mánaðamótum eftir að staðfesting liggur fyrir.
Mat á starfsaldri til launa getur átt sér stað þegar starfsmaður hefur náð rétti til byrjunarlaunaþreps. Telst þá allur tími frá því starfsmaður hóf störf í fyrirtæki án tillits til aldurs. Fullt ársstarf telst vera 1.800 klst.
Óheimilt er að greiða starfsmanni sem hefur náð 22ja ára aldri lægri laun en skv. 6 mánaða taxta, þ.e. næsta starfsaldursþreps fyrir ofan byrjunarlaun, þetta gildir ekki gagnvart skrifstofufólki.
Laun ungmenna skv. kjarasamningi VR og FA
Aldursþrep starfsmanna undir 18 ára aldri miðast við fæðingarár og eiga ekki að vera lægri en 80% af lágmarkslaunum. Þeir sem eru yngri en 16 ára skulu ekki fá greidd lægri laun en 75% af lágmarkslaunum.
Allar launatöflur VR má nálgast hér og eru þegar reiknaðar með tilliti til ofangreinds. Útgefnir launataxtar eru lágmarkslaun.