Kjarasamningur VR og SA 2011
Skrifað var undir kjarasamning VR og Samtaka atvinnulífsins 5. maí 2011 með aðfarasamningi sem rann út í júní 2011 þegar nýr kjarasamningur tók gildi. Samningurinn er til þriggja ára að því gefnu að stjórnvöld uppfylli kröfur sem til þeirra eru gerðar.
- Kjarasamningur VR og SA 2011- á pdf formi (birtur með fyrirvara um breytingar).
- Stutt útgáfa af samningnum á ensku - á pdf formi.
- Samkomulag ASÍ og SA frá 5.maí 2011- á pdf formi.
- Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga- á pdf formi.
Framlenging samningsins
Þann 21. janúar 2013 var undirritað samkomulag þar sem kjarasamningurinn var framlengdur til 30. nóvember 2013.
Sjá samkomulagið í heild sinni á pdf formi.
Helstu atriði samnings VR og SA 2011
-
Almennar launahækkanir á næstu þremur árum eru 11,4% en hækkun lágmarkslauna er þó mun meiri eða 23,6%. 50.000 króna eingreiðsla kemur til í júní auk 10.000 króna eingreiðslu með orlofsuppbót og 15.000 króna eingreiðslu með desemberuppbót.
Almenn hækkun
- 1. júní 2011 4,25%
- 1. febrúar 2012 3,50%
- 1. febrúar 2013 3,25%
Krónutöluhækkun á taxta
- 1. júní 2011 kr. 12.000
- 1. febrúar 2012 kr. 11.000
- 1. febrúar 2013 kr. 11.000
Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu
- 1. júní 2011 kr. 182.000
- 1. febrúar 2012 kr. 193.000
- 1. febrúar 2013 kr. 204.000
Eingreiðslur
Eingreiðsla 1. júní kr. 50.000 auk orlofs fyrir starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl og verða í starfi til 5. maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí.
- Álag á orlofsuppbót 2011 kr. 10.000.
- Álag á desemberuppbót 2011 kr. 15.000.
Sérkröfur VR
1. Bætt réttarstaða launþega við gjaldþrotaskipti
Breyting verður gerð á lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum með þeim hætti að launþegar haldi áunnum réttindum sínum varðandi orlof, veikindarétt og uppsagnarfrest, ef skiptastjóri selur þrb. eftir gjaldþrotaskiptin. Áður var það þannig að launþegar tapa öllum þessum réttindum við gjaldþrotaskiptin.
2. Starfsmannaviðtal fest enn frekar
Aðilar hafa útbúið fylgiskjal þar sem ítrekað er að þetta viðtal sé eðlilegur hluti vinnusambandsins og hafa sameinast um leiðbeiningar um hvað sé eðlilegt að ræða í slíkum viðtölum, en það er;
- Helstu verkefni í starfinu.
- Starfið sjálft og vinnuálag. Þekking starfsmannsins, fjöldi verkefna, verkefnastjórnun og ánægja í starfi.
- Starfsumhverfi. Starfsskilyrði og vinnuaðstaða.
- Samskipti. Við vinnufélaga, viðskiptavini og stjórnendur.
- Upplýsingaflæði. Starfsandinn á vinnustaðnum og endurgjöf næsta yfirmanns til starfsmanns.
- Starfsþróun og markmið. Núverandi starfssvið, námskeið og markmið til t.d. 12 mánaða.
- Laun, sé ekki ákveðið að ræða þau sérstaklega, þá síðar innan ársins.
- Önnur starfskjör.
3. Bókanir um réttindi starfsmanna og öryggismál afgreiðslufólks í verslunum
Aðilar erum sammála um að nauðsynlegt sé að huga að öryggi starfsmanna í verslunum og í því skyni á að skipa nefnd sem á að koma með tillögur um það efni. Að þessari vinnu koma aðilar frá lögreglu, öryggisvörsluaðilum, vinnueftirliti og öðrum þeim sem talið er þörf á.
Sérstaklega skal skoða málefni þeirra sem starfa einir í verslunum og þeirra verslana sem eru með opnanir um kvöld og nætur
4. Skýra þarf frekar innhald pakkalauna í verslunum
Vinnuveitendur sem notast við svokölluð „pakkalaun“ þ.e. hafa heildarlaun fyrir mismunandi vinnutíma þurfa nú að skýra enn frekar samsetningu þessara launa, ef starfsmaður óskar þess.
5. Fækkun og einföldun á launaflokkum ungmenna
Launaflokkur sem var fyrir yngri en 14 ára var felldur niður og laun 14 og 15 ára ungmenna eru nú tekin sem prósenta af byrjunarlaunum 18 ára, sem einfaldar útreikning þessara launa.
6. Bókun um vinnufatnað í sérverslunum
Sérverslanir með fatnað sem gera þá kröfu að starfsmenn klæðist fatnaði frá versluninni við vinnu sína, leggja til fatnaðinn og er hann þá eign vinnuveitanda.
7. Hækkun á eftirvinnuálagi á nóttunni, þe frá 00:00 – 07:00 árin 2013 og 2014
Eftirvinnuálag hækkar í kjarasamningi VR/LÍV úr 40% í 45% vegna þessa tímabils þann 1. febrúar 2013 og fer síðan í 50% árið 2014.
8. Bókun um réttindi og öryggismál afgreiðslufólks
Samningsaðilar eru sammála um að nauðsynlegt er að tryggja öryggi starfsmanna í verslunum, einkum þar sem opið er á kvöldin og um nætur. Í því skyni samþykkja VR/LÍV annars vegar og SA hins vegar að skipa nefnd tveggja aðila frá hvorum sem leggi fram tillögur um þetta efni.
Forsenduákvæði gagnvart ríkisvaldinu síðari hluta júní
Kjarasamningurinn gildir til 31. janúar 2014, með endurskoðun í janúar 2012 og janúar 2013. Ákveðinn fyrirvari er á samningnum sem tengist stjórnvaldsaðgerðum og lagabreytingum sem þurfa að eiga sér stað fyrir 22. júní 2011. Ef þær forsendur sem snúa að stjórnvöldum standast ekki gildir samningurinn til 1. febrúar 2012.
Önnur ákvæði kjarasamnings öðlast strax gildi óháð því sem gerist við endurskoðun í júní. Áætla má að heildarkostnaðarauki atvinnurekenda af kjarasamningnum verði um 12,6% á samningstímanum.
Jöfnun lífeyrisréttinda
Samhliða þessum kjarasamningi verður stigið markvisst skref í að jafna lífeyrisréttindi þar sem stefnt er að því að auka framlög í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% á árabilinu 2014-2020. Bókun er um að fyrir árslok 2012 verði komin niðurstaða um samræmt og sjálfbært lífeyriskerfi alls launafólks á vinnumarkaði.
Kjarasamningur VR og FA 2011
VR / LÍV og Félag atvinnurekenda (áður FÍS) skrifuðu undir nýjan kjarasamning föstudaginn 13. maí. Samningurinn er sambærilegur við nýgerðan kjarasamning VR og SA og gerir ráð fyrir sambærilegum hækkunum launa á sama tíma.
Lágmarkstaxti verður þó 202 þúsund frá 1. júní nk. Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna eins fljótt og auðið er. Þessi samningur tekur til innan við 10% félagsmanna VR, langflestir vinna samkvæmt samningi við Samtök atvinnulífsins.
- Samningur VR og Félags atvinnurekenda dags. 13. maí 2011, pdf. Þetta eintak sýnir þær breytingar sem gerðar eru á samningi aðila.
-
Launabreytingar þeirra sem ekki fá greitt skv. lágmarkstaxta:
- 1. júní 2011 4,25%
- 1. febrúar 2012 3,50%
- 1. febrúar 2013 3,25%
Lágmarkstaxtar hækka sem hér segir:
- 1. júní 2011 kr. 12.000
- 1. febrúar 2012 kr. 11.000
- 1. febrúar 2013 kr. 11.000
Lágmarkstaxti fyrir fullt starf verður:
- 1. júní 2011 kr. 202.000
- 1. febrúar 2012 kr. 213.000
- 1. febrúar 2013 kr. 224.000
Eingreiðslur
Eingreiðsla 1. júní kr. 50.000 fyrir starfsmann í fullu starfi sem er við störf í maí og miðast greiðslan við fullt starf í mánuðunum mars - maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl 2011. Starfsmenn sem hófu störf í apríl eða í maí og eru í starfi í maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí 2011. Starfsmenn í hlutastarfi fá hlutfallslegar greiðslur m.v. starfshlutfall hvers og eins.
Álag á orlofsuppbót 2011 kr. 10.000
Álag á desemberuppbót 2011 kr. 15.000, nema að VR / LÍV hafi ákveðið að samningarnir gildi til loka 2012.
Annað
VR og FA eru sammála um að aðrir þættir sem samið hefur verið um á milli ASÍ og SA og ekki eru í samningi VR og FA komi inn í samninginn, eftir því sem við á.
Forsendur og gildistími
Samningurinn byggir á sömu forsendum og samið hefur verið um í kjarasamningi VR / LÍV við SA og skoðast sem hluti samnings þessa. Komi til þess að samningsforsendur standist ekki skulu aðilar leitast við að ná samkomulagi um breytingar á samningi þessum til að markmið samninga náist. Að öðrum kosti gilda ákvæði samningsforsendna um gildistíma samningsins. Samningurinn gildir til 1. febrúar 2014 með þeim breytingum og fyrirvörum sem í samningnum eru.
Atkvæðagreiðsla um samninginn
Samningurinn verður borinn undir atkvæði félagsmanna eins fljótt og auðið er. Félagsmenn sem starfa samkvæmt samningi VR og Félags atvinnurekenda fá sent bréf með nánari upplýsingum um atkvæðagreiðsluna.