Fyrir atvinnuleitendur

Þú getur sótt um atvinnuleysisbætur allt að mánuði áður en þú verður atvinnulaus að fullu eða hluta. Sem umsækjandi getur þú í fyrsta lagi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með þeim degi sem þú getur hafið störf, þ.e. ert orðinn atvinnulaus. Sótt er um atvinnuleysisbætur í gegnum vefsíðu Vinnumálastofnunar, sjá nánari upplýsingar um skráningarferlið.

Umsókn um atvinnuleysisbætur er eingöngu á rafrænu formi. Almennur vinnslutími umsóknar er 4-6 vikur. Eftir að umsókn hefur verið send inn rafrænt þarf að skila inn nauðsynlegum fylgigögnum til Vinnumálastofnunar. Hægt er að skila fylgigögnum í tölvupósti, sjá frekari upplýsingar.

Atvinnuleit

Atvinnuleitendur vita að leitin að starfi getur verið krefjandi og erfið. Atvinnuleit kallar á þekkingu á því hvernig á að útbúa góða ferilskrá, hvernig best er að búa sig undir atvinnuviðtal auk annarra atriða sem gott er að hafa í huga. Það þarf að gefa sér góðan tíma Í atvinnuleitina, s.s. að útbúa viðeigandi gögn og undirbúa sig fyrir viðtöl. Hér fyrir neðan finnur þú leiðbeiningar sem ættu að hjálpa þér við undirbúninginn.

Ferilskráin

Að mörgu er að huga þegar kemur að gerð ferilskrár og er í raun ekki til ein rétt uppskrift að ferilskrá. Mikilvægt er þó að hafa ákveðna þætti í huga.

Ferilskrá er stutt kynning á einstaklingi sem er að sækja um starf. Í ferilskránni kemur fram yfirlit yfir starfsreynslu, menntun, hæfni og áhugasvið einstaklingsins. Hún hefur þann tilgang að gefa fyrirtækinu góðar og lýsandi upplýsingar um umsækjandann.

Það er mikilvægt að vanda upplýsingar og framsetningu á ferilskránni því hún er fyrsta kynning á umsækjandanum og ræður því ásamt kynningarbréfinu hvort áhugi kviknar á frekara samtali eða boð í viðtal.

Mælt er með að ferilskrá sé stutt og hnitmiðuð. Stafsetning þarf að vera í lagi og notast skal við vandað málfar. Ferilskráin þarf að vera vel upp sett og í flestum tilfellum er meginreglan sú að hún sé um 1-2 A4 blaðsíður að lengd. Ferilskráin á að vera kynning á umsækjanda frekar en ítarlegt æviágrip. Þá eru flestir sammála um að hæfilegt sé að greina frá starfsferli síðustu 10-15 ára.

  • Uppröðun á ferilskránni getur skipt miklu máli. Til að mynda er gott að setja fyrst fram persónuupplýsingar, varast skal að setja inn of ítarlegar persónuupplýsingar, til dæmis er ekki nauðsynlegt að taka fram hjúskaparstöðu eða fjölda barna. 
    Mælt er með að gefnar séu upplýsingar um:

    • Nafn
    • Kennitölu
    • Heimilisfang
    • Netfang
    • Símanúmer

    Á Íslandi er venja að setja mynd í ferilskrána en það er yfirleitt ekki gert erlendis. Best er að koma myndinni fyrir efst í hægra eða vinstra horni til hliðar við nafn umsækjanda. Mælt er með að myndin sé nokkuð hefðbundin og gefi jákvæða ímynd.

    Það er matsatriði hvort ætti að koma næst í ferilskránni, upplýsingar um námsferil eða upplýsingar um starfsferil. Skiptir þar máli hvort hefur meiri þýðingu fyrir það starf sem sótt er um og hversu mikla starfsreynslu umsækjandinn hefur. Þeir sem eru að koma úr námi og hafa litla sem enga starfsreynslu ættu að leggja áherslu á menntun sína og nefna hana fyrst. Þeir sem hafa mikla starfsreynslu eða starfsreynslu sem gæti reynst sérstaklega vel í því starfi sem sótt er um ættu að segja fyrst frá henni.

    Starfsferill

    Þegar lista á upp starfsferli þá er mikilvægt að hann sé í tímaröð. Það starf sem umsækjandi gegndi síðast á að koma fyrst í upptalningunni og svo koll af kolli. 
    Nefna skal:

    • Starfstímabil
    • Vinnustað
    • Starfsheiti
    • Stutt starfslýsing

    Það getur verið gott að segja frá einstaka verkefnum í starfi sem endurspegla þá starfsreynslu sem muni nýtast vel í starfinu sem sótt er um, en mikilvægt er að sú frásögn sé ekki of ítarleg heldur stutt og hnitmiðuð.

    Námsferill

    Upplýsingar um námsferil eru listaðar upp í tímaröð þannig að sú menntun sem síðast var lokið eða það nám sem síðast var stundað komi fyrst og svo koll af kolli. Þeir sem hafa lokið framhaldsmenntun þurfa ekki að greina frá í hvaða grunnskóla þau gengu, oftast er miðað við framhaldsskóla, sérskóla og háskóla í ferilskránni.
    Nefna skal:

    • Útskriftarár eða tímabil náms
    • Námsstofnun
    • Heiti náms
    • Gráða

    Þá getur verið gott að segja í mjög stuttu máli frá lokaverkefnum eða ritgerðum sem gætu endurspeglað þekkingu sem muni nýtast vel í því starfi sem sótt er um. Það á frekar við ef námi er nýlokið.
    Þeir sem hafa styttri menntun geta nefnt námskeið sem þeir telja að hafi tilgang fyrir umsóknina en annars ætti ekki að telja upp öll námskeið. Hugsanlega getur verið gagnlegt að nefna að umsækjandi hafi sótt námskeið á tilteknum sviðum sem tengjast því starfi sem sótt er um.

    Aðrar upplýsingar

    Matsatriði er hvaða aðrar upplýsingar eru settar fram í ferilskránni en gott er að taka mið af því hvaða kröfur eru settar fram í auglýsingu um starfið sem sótt er um. 
    Algengt er að nefna:

    • Tungumálakunnáttu
    • Tölvukunnáttu
    • Áhugamál
    • Félagsstörf
    • Sjálfboðaliðastörf

    Best er að velja að nefna það sem kemur að gagni vegna starfsins sem sótt er um. Einnig getur stutt persónulýsing verið góð þar sem helstu kostir og styrkleikar eru dregnir fram s.s. færni í mannlegum samskiptum, skipulagshæfni o.s.frv. og er þá mikilvægt að horfa til þess hvaða persónulegu hæfni kallað er eftir í auglýsingunni.

    Umsagnaraðilar

    Algengt er að atvinnurekendur kjósi að fá uppgefna 2-3 umsagnaraðila sem hægt er að hafa samband við til að sannreyna og fá frekari upplýsingar um umsækjanda. Gefa þarf upp nafn á umsagnaraðila, vinnustað, starfsheiti og símanúmer. Oftast eru það fyrrum vinnuveitendur eða kennarar en geta líka verið samstarfsfólk eða skólafélagar. Ekki er talið heppilegt að gefa fjölskyldumeðlimi upp sem meðmælendur eða umsagnaraðila.

    Alltaf ætti að fá samþykki umsagnaraðila fyrir því að nefna hann sem umsagnaraðila, bæði til að vita hvort hann vill gefa umsögn og einnig til að hann geti verið viðbúinn því að fá upphringingu. Skrifleg meðmælabréf eru lítið notuð.

Kynningarbréf

Á síðastliðnum árum hefur í auknum mæli myndast sú hefð að umsækjendur skili inn kynningarbréfi ásamt ferilskrá. Kynningarbréf á sérstaklega vel við þegar sótt er um störf sem krefjast sérþekkingar.
Kynningarbréf er einskonar viðauki við ferilskrá þar sem gefst tækifæri til að útskýra ákveðin atriði á ferilskránni betur og gefa ítarlegri lýsingu á hæfni sinni á persónulegan hátt. Mikilvægt er að kynningarbréf sé stutt og hnitmiðað, ekki meira en hálf til ein blaðsíða að lengd. Kynningarbréf ætti m.a. að svara spurningunum hér að neðan:

  • Hvaða starf sækir þú um og hvers vegna?
  • Hvernig þú uppfyllir menntunar- og hæfniskröfur?
  • Hvaða þekkingu og reynslu hefur þú fram að færa sem gerir þig að hæfasta einstaklingnum í starfið?
  • Í upphafi kynningarbréfs er mikilvægt að textinn sé grípandi og veki áhuga og forvitni þess sem er að lesa og fær hann til að vilja lesa áfram. Í byrjun er sagt frá hvaða starf er verið að sækja um og helstu ástæður þess að sótt er um þetta starf.

    Í framhaldinu er mikilvægt að segja frá því hvers vegna umsækjandi telur sig vera hæfan til að gegna starfinu sem sótt er um og að hvaða leiti hann mun geta haft jákvæð áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Æskilegt er að umsækjandi tiltaki hvernig bakgrunnur sinn, reynsla, þekking og persónueinkenni uppfylli hæfniskröfur sem gerðar eru í starfinu. Varast skal þó að ofnota ekki orðið „Ég“, bréfið á ekki eingöngu að fjalla um allt það sem umsækjandi hefur afrekað í lífinu heldur á að taka mið af starfinu sem sótt er um. Auk þess er mikilvægt að vera heiðarlegur varðandi hæfni sína og ef umsóknaraðili telur sig þurfa að bæta við ákveðna þekkingu er í lagi að taka fram að hann sé opin fyrir áskorunum og tilbúinn að finna leiðir til afla sér aukinnar þekkingar, það getur líka virkað jákvætt að nefna eitthvað sem viðkomandi býr yfir sem gæti vegið upp á móti.

    Í lok kynningarbréfs er hægt að nefna áhuga umsækjanda á viðtali og að þar geti hann gert betur grein fyrir umsókn sinni og hvaða einstaklingur býr að baki henni. Mikilvægt er að rökstyðja frásögnina vel enda er kynningarbréf til þess fallið að vekja áhuga og eftirtekt ráðningaraðila.

Atvinnuviðtalið

  • Skoða starfslýsingu vel áður en farið er í viðtal
  • Þegar spurt er um barneignir, andleg eða líkamleg veikindi er hreinskilnin alltaf best. Varast skal tilfinningasemi ef slíkt berst í tal, best að undirbúa sig vel áður fyrir slíkar spurningar.
    • Hvers vegna sóttirðu um starfið?
    • Af hverju að hætta í núverandi starfi/seinasta starfi, starfslokin, hvers vegna hættirðu?
    • Segðu mér frá fyrra starfi? Verkefni, hæfni, starfsumhverfi.
    • Hvernig mun reynsla þín nýtast í þessu starfi?
    • Nefndu dæmi um samskipti þín við aðra á fyrri vinnustað, hvernig reynsla var það?
    • Segðu frá dæmi þar sem þér þykir hafa tekist vel til í starfi eða sem þú ert stolt/stoltur af, afrek, samskipti, skipulag, árangur...?
    • Hvernig tekst þú á við að vinna undir tímapressu?
    • Hvernig gengur að skipuleggja þig undir tímapressu og hvernig gerirðu það?
    • Hvað skiptir þig máli í þínu starfsumhverfi?
    • Laun, launahugmyndir?
    • Einhverjar spurningar að lokum? Gott að hafa einhverjar spurningar.