Um launaspá VR
VR hefur undanfarin ár staðið fyrir reglulegri launarannsókn sem birtir upplýsingar um laun VR félaga í hinum ýmsu starfsgreinum. Launarannsóknin byggir á gögnum rúmlega 14 þúsund VR félaga sem skráð hafa starfsheiti og vinnutíma á Mínum síðum. Tilgangur launarannsóknar er að fylgjast með almennri launaþróun VR félaga, auka gagnsæi og leyfa félögum að sjá hvernig þeir standa miðað við aðra í sambærilegum störfum.
Ný launareiknivél VR skerpir á þessari þjónustu og veitir félögum nákvæmari upplýsingar um laun mismunandi starfa en fyrri launarannsóknir. Reiknivélin byggir á spálíkani sem VR hefur smíðað og tekur fleiri forsendur til greina sem kunna að hafa áhrif á laun tiltekinna starfa en áður. Hægt er að slá inn starfsheiti, atvinnugrein, aldur, starfsaldur, menntun og upplýsingar um mannaforráð í reiknivélina og fá upp spá um líklegt launabil.
Launatölur byggja eingöngu á gögnum þeirra VR félaga sem eru í 100% starfi og hafa skráð upplýsingar sínar á Mínum síðum.
Hvernig virkar líkanið?
Spálíkanið spáir sennilegu launabili, eins og nafnið gefur til kynna, í samræmi við uppgefnar forsendur.
Þessi spá grundvallast á launagögnum sem fengin eru af Mínum síðum. Ólíkt eldri launarannsóknum byggir spáin ekki á því að reikna hrein meðaltöl eða miðgildi. Líkanið notar öllu heldur vélarnám (e. machine learning) til þess að bera kennsl á tölfræðileg mynstur í launadreifingu VR félaga og sjá þannig samhengi í því hvernig mismunandi breytur (eins og aldur, menntun, starfsheiti, o.s.frv.) hafa áhrif á laun. Líkanið hefur þannig lært að laun eiga það til að hækka með aldri, starfsaldri og menntun – og notar þær upplýsingar í bland við gögn um launadreifingu innan mismunandi atvinnugreina og meðallaun mismunandi starfa til þess að setja út spá.
Vélarnám gerir líkaninu jafnframt kleift að spá fyrir um laun einstaklings út frá bakgrunnsbreytum óháð því hvort nokkur VR félagi sé til sem passi við þá lýsingu sem slegin er inn. Til dæmis er hægt að láta líkanið spá fyrir um launabil VR félaga sem er tvítugur og hefur starfað við afgreiðslu á kassa hjá fyrirtæki í lögfræðiþjónustu í 5 ár (eða frá 15 aldri). Við gætum jafnframt gert ráð fyrir að viðkomandi hafi ekki lokið grunnskólaprófi en hafi engu að síður unnið sig upp og sé með fleiri en 50 undirmenn með sér á kassanum.
Þetta er auðvitað fáránlegt dæmi – fólk afgreiðir almennt ekki á kassa á lögmannsstofum og tvítugir einstaklingar fara sjaldnast með mannaforráð sem nemur meðalstóru íslensku fyrirtæki. Það er því bersýnilega enginn í gagnagrunni VR með þennan bakgrunn. Engu að síður getur líkanið spáð fyrir um laun einstaklings í þessari ímyndaðri stöðu, einmitt vegna þess að reiknigeta líkansins byggir ekki á einföldum meðaltölum mismunandi hópa heldur grundvallast hún á því að líkanið skilji hvernig mismunandi þættir ákvarða laun. Þannig spáir líkanið þessum ágæta kassastarfsmanni mánaðarlaun á bilinu 600 til 800 þúsund á mánuði.
Þetta dæmi sýnir hvernig nýja spálíkanið býr yfir meiri sveigjanleika en eldri launarannsóknir, sem birta eingöngu miðgildi, meðaltöl og aðrar þekktar stærðir. Mikilvægt er að hafa í huga að niðurstöður líkansins eru alls ekki óskeikular eða fengnar með 100% vissu. Líkanið getur hins vegar gefið VR félögum góða vísbendingu um sennileg launabil mismunandi starfa. Niðurstöður reiknivélarinnar ber að túlka sem svo að launaspáin samsvarar miðgildi sennilegs launabils en efri og neðri mörk fangi um 50% af launadreifingunni.