Almennar fréttir - 02.04.2020
Samningur um tryggingu kaupmáttar
COVID-19 faraldurinn hefur, á skömmum tíma, leitt til mikilla breytinga á alþjóðlegu sem og íslensku efnahagslífi. Ef ekki verður spyrnt við fótum blasir við efnahagshrun með tilheyrandi eyðandi afli atvinnuleysis og verðbólgu sem getur gert að engu þann kaupmáttarávinning sem náðst hefur með ábyrgum kjarasamningum. Hér er lagt til að ekki verði frestað umsömdum launahækkunum þann 1. apríl 2020 heldur frekar að allir leggist á árarnar og gerð verði þjóðarsátt um að tryggja hér kaupmátt með því að lækka tímabundið mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði gegn því að atvinnulífið haldi að sér höndum við verðhækkanir og verðbólga fari þannig ekki yfir 2,5% á árinu.
Í kjarasamningum frá 2019 var samið um launahækkun þann 1. apríl 2020 þannig að taxtar hækki um 24.000 kr. og önnur laun um 18.000 kr. Komið hefur fram krafa um að þessum launahækkunum verði frestað í ljósi ástandsins. Hægt er að fara nokkrar leiðir til að bregðast við stöðunni á vinnumarkaði en tryggja verður að sá kaupmáttur sem náðst hefur haldist. Ljóst er að eitt af því sem mun hjálpa íslensku efnahagslífi að fara í gang aftur er að kaupmætti sé viðhaldið þannig að verslun og viðskipti taki við sér á nýjan leik þegar COVID-19 faraldrinum lýkur. Miklu skiptir fyrir launafólk og allt íslenskt efnahagslíf að kaupmáttur rýrni ekki við þær tímabundnu þrengingar sem nú eru. Slíkt gæti hins vegar gerst með veikingu íslensku krónunnar, launahækkunum þann 1. apríl 2020 og framboðsskorti á vörum sem framleiddar eru erlendis sem ekki næst að framleiða í sama magni og áður vegna veikinda og harðra útgöngutakmarkana.
Helsta hættan sem steðjar að launafólki í dag er aukið atvinnuleysi. Tölfræðileg greining á haggögnum sýnir að hækkun launa getur leitt til aukins atvinnuleysis. Hættan er enn meiri þegar illa árar, samdráttur í hagkerfinu leiðir tiltölulega fljótt til aukins atvinnuleysis. Þannig geta launahækkanir á tímum niðursveiflu aukið enn á hættuna á uppsögnum. Uppsagnir leiða síðan til minni eftirspurnar í hagkerfinu sem leiðir til minni tekna innlendra fyrirtækja sem aftur ýtir undir aukið atvinnuleysi. Að komast hjá auknu atvinnuleysi ætti því að vera eitt af meginmarkmiðum til að sporna gegn dýpri og lengri niðursveiflu en nú þegar blasir við.
Í dag er mótframlag í lífeyrissjóði 11,5%. Samið var um hækkun á mótframlagi árið 2016 sem hækkaði úr 8% í 11,5% í þrepum, síðast 1. júlí 2018.
Í stað þess að fresta launahækkunum er hægt að fara í aðrar aðgerðir sem munu hafa mun minni áhrif á eftirspurn í hagkerfinu, t.d. að lækka tímabundið mótframlag í lífeyrissjóði úr 11,5% í 8%. Með slíkri aðgerð væri verið að auka ráðstöfunartekjur launafólks og þar með einkaneysluna en skerða tímabundið fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Skilyrði fyrir því að stéttarfélög væru tilbúin að gefa slíkt eftir er að verðlag verði stöðugt á tímabilinu, hækki ekki meira en sem nemur verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands eða 2,5% á ári. Í raun er ekki verið að gefa eftir mótframlag heldur kaupa tryggingu fyrir því að launafólk verði ekki fyrir kaupmáttarskerðingu. Ef verðbólgan fer af stað verður engin breyting á mótframlagi í lífeyrissjóði og það greitt að fullu. Ef verðbólga verður lág er kaupmáttur tryggður með tímabundinni lækkun á iðgjaldi í lífeyrissjóði. Auk þess má færa fram mjög sterk rök fyrir því að lækkun á launakostnaði leiði af sér minna atvinnuleysi í þeirri kreppu sem við erum á ganga í gegnum þessa dagana.
Útfærsla
Í dag er vísitala neysluverðs 475,2 stig. Frá og með 1. apríl 2020 til og með 30. júní 2020 væri mótframlag í lífeyrissjóði 8% í stað 11,5%. Vísitalan, miðað við 2,5% verðbólgu, þyrfti að vera undir eða jöfn 481,54 stigum í júní 2020.
Útfærsla í samningi
Á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 30. júní 2020 lækkar mótframlag í lífeyrissjóði tímabundið úr 11,5% í 8%. Lækkun þessi gildir svo framarlega að vísitala neysluverðs verði undir eða jöfn 481,54 stigum í júní 2020. Ef vísitala neysluverðs verður hærri en 481,54 stig í júní 2020 ber launagreiðendum að greiða 11,5% iðgjald í lífeyrissjóði í stað 8% fyrir tímabilið 1. apríl 2020 til og með 30. júní 2020. Mismunur ógreiddra iðgjalda hefur sama gjalddaga og eindaga og laun fyrir júní 2020.
Kostnaður og ávinningur
Skerðing á lífeyri sjóðfélaga lífeyrissjóða miðað við 3ja mánaða lækkun væri um 0,16% eða um 772 kr. á mánuði miðað við 40 ára gamlan einstakling sem er með 650.000 kr. í laun á mánuði. Ef ekki væri farið í aðgerðina og kaupmáttur myndi skerðast vegna þess um 1% myndi það kosta launafólk um 4.300 kr. á mánuði miðað við 650.000 kr. laun á mánuði. Ef kaupmáttur myndi skerðast um 3%, eins og gerðist í niðursveiflunni árið 2001, myndi það kosta launafólk um 12.900 kr. á mánuði miðað við sömu forsendur. Spurningin er hvort og hvenær væri hægt að ná aftur þeim kaupmætti sem mögulega tapast í þeirri efnahagsniðursveiflu sem við sjáum nú fram á?
Sé litið til sögunnar sést vel hvernig niðursveiflur hafa leikið launafólk. Frá 1913 hafa verið átta efnahagsniðursveiflur. Í öllum nema einni dróst kaupmáttur launa saman. Í seinustu þremur, 1991-1992, 2001 og svo 2008, lækkaði kaupmáttur um -8%, -3% og -15%. Saga síðustu 100 ára er því ekki hliðholl launafólki hvað þetta varðar.